Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:19:01 (2754)

2001-12-07 20:19:01# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:19]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er áreiðanlega bæði virðingarvert og sjálfsagt að hafa þau baráttumál að breyta þeirri stjórnskipan sem við höfum. Vel kann að vera, herra forseti, að til mikilla bóta sé að gera það. En það er bara ekki á dagskrá hér og nú. Við erum bara að afgreiða fjárlagafrv. og ég hef aðeins verið að benda á að öll tilhögun, öll framkvæmd og allt sem hefur komið fram í sambandi við það er samkvæmt þeim eðlilegu og sjálfsögðu vinnubrögðum sem hafa tíðkast hér um áratugi, áratug eftir áratug og engin breyting hefur þar verið á.

Hins vegar getur það verið allt í lagi að taka það upp að reyna að fá þetta skýrara, taka upp þessa gömlu 18. aldar ,,ídeólógíu`` og fara að framkvæma hana hér, eins og t.d. Bandaríkjamenn eru mjög harðir á í mörgu tilliti. Þá er það bara sjálfstætt mál. Ég ber virðingu fyrir þeim skoðunum o.s.frv. Það er allt í lagi með það. Ég hef ekkert á móti þeim og held að öll sú umfjöllun geti verið hin besta.

En hér hefur ekki verið unnið öðruvísi en allir siðir og okkar venjur leyfa.