Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 20:58:41 (2762)

2001-12-07 20:58:41# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[20:58]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir beindi nokkrum spurningum til mín sem ég kýs að fjalla hér um. Ekki er nægjanlegur tími í andsvari til að fjalla um þær spurningar eða gefa svör við þeim.

Hér var spurt eftir að nokkrar stofnanir umhvrn. voru dregnar inn í umræðuna: Hví er ekki meira fjármagn veitt til þeirra? Eins og alkunna er erum við að reyna að hemja ríkisútgjöldin og því þarf að sýna aðhald í stofnunum. Það er verra að missa efnahagsmálin úr böndunum en að sýna aðhald í stofnunum okkar.

Varðandi Náttúruvernd ríkisins hefur hún fengið stóraukið fé á síðustu árum eins og alkunna er en að sjálfsögðu hefðum við getað notað meira fé þar eins og í öðrum stofnunum. Það á við um stofnanir hjá ríkinu almennt að þær geta notað meira fé en við viljum sýna aðhald og við teljum að fjárveitingarnar séu nægjanlegar.

[21:00]

Hér var fjallað um nýja þjóðgarðinn á Snæfellsnesi, þjóðgarðinn Snæfellsjökul, eins og hann heitir. Það er rétt sem hér kom fram að veittar eru 10 millj. kr. til hans á yfirstandandi ári og aðrar 10 millj. kr. á næsta ári og svo er heimild skv. 7. gr. til húsakaupa og menn vita ekki hvað það yrði hugsanlega há upphæð ef hún yrði nýtt en sú heimild er inni til hugsanlegrar notkunar varðandi húsnæðiskaup fyrir þjóðgarðsvörð. Að okkar mati er þetta fé nægjanlegt til að hefja starfsemi í þjóðgarðinum. Þjóðgarðsvörður er kominn til starfa og að sjálfsögðu mun aukið fjármagn fara til þessara mála í framtíðinni. Við teljum að þetta fé dugi vel til að hefja þessa starfsemi og það sé sómi af því. Að sjálfsögðu vilja heimamenn sjá aukið fé renna til þjóðgarðsins og hafa mikinn metnað fyrir hans hönd, sem er mjög skiljanlegt. Við viljum byggja hann upp á eðlilegan hátt og teljum þetta fé nægja vel til þess núna fyrst í stað.

Hér var einnig fjallað um Skaftafellsþjóðgarð þegar hann var stofnaður og nefndar tölur sem færðar voru til núvirðis. Af því tilefni vil ég segja að eins og ráð er fyrir gert hefur ríkisstjórnin samþykkt að stefna að því að opna Vatnajökulsþjóðgarð á næsta ári. Þá yrði Skaftafellsþjóðgarður þar innan þannig að þær byggingar sem þar eru mundu nýtast fyrir Vatnajökulsþjóðgarðinn líka. Í fjárlagafrv. eru 3 millj. kr. til undirbúnings að stofnun þjóðgarðsins. En ljóst er að ef hann verður stofnaður á næsta ári þá mun á næstu árum fara aukið fjármagn til hans.

Hins vegar er það svo, það truflar okkur aðeins í þessari stöðu núna, að óbyggðanefnd er að fjalla um eignarhald á Vatnajökli og á sveitarfélaginu Höfn í Hornafirði og svæðinu sem það sveitarfélag nær yfir á jöklinum, þ.e. um helmings af Vatnajökli. Nokkrir landeigendur hafa gert tilkall í hluta af Vatnajökli fyrir óbyggðanefnd. Það er því óljóst með eignarhaldið á hluta af jöklinum. Það hefur a.m.k. truflað mig varðandi stofnun þessa þjóðgarðs, þ.e. hvort rétt sé að stofna hann áður en búið er að úrskurða um eignarhaldið og þá með einhvers konar fyrirvara um eignarhaldið. Hins vegar er ljóst að hugur minn hefur staðið til þess að stofna þjóðgarð þar sem helst allt land innan borðs væri í ríkiseigu. Þó að náttúruverndarlögin leyfi að einkaland sé inni í þjóðgarði þá þurfa menn að ná samkomulagi um það land, hvernig á að nýta það o.s.frv. Þó að sú heimild sé fyrir hendi, að stofna þjóðgarð með einkalandi innan marka, þá hef ég ekki talið það hina æskilegu leið. Við lögðum okkur í líma varðandi Snæfellsjökulsþjóðgarð að semja við fjölmarga landeigendur um landið áður en við stofnuðum hann þannig að ríkið keypti þar allt land að undanskildum 300 hekturum sem við náðum ekki að kaupa, sem er einkaland innan þjóðgarðsins á Snæfellsnesi.

Hér var líka rætt um fjármagnið sem fer í átak varðandi fjölsótta ferðamannastaði eða átak til að efla ferðamannaiðnaðinn hér eftir áfallið sem varð 11. sept. Reyndin er sú að fjármagn til fjölsóttra ferðamannastaða er stóraukið, 70 millj. kr. í ár og ráðgert er að svipuð upphæð renni til þessa á næstu þremur árum. Það eru þá fjögur ár samtals og upphæðin því í heild tæplega 300 millj. kr. til að bæta aðstöðu á fjölsóttum ferðamannastöðum. Þetta er stórsókn varðandi uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum. Við höfum aldrei sett svo háar fjárhæðir til uppbyggingar á þeim. Þar inni í eru auðvitað meðtaldir þjóðgarðar og friðlýst svæði.

Ég get nefnt það hér að á yfirstandandi ári hækkar fjárveitingin til Náttúruverndar ríkisins um 16 millj. kr., fer úr 9 millj. upp í 25 millj. kr., til þessara málefna, m.a. fer til þjóðgarðanna bæði í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfrum tvöfalt hærri upphæð til innri uppbyggingar miðað við árið í fyrra. Þar hefur verið framkvæmt ýmislegt mjög jákvætt í ár varðandi uppbygginguna og þannig munum við reyna að halda á málum áfram í framtíðinni. Ég tel því að við séum að gera afar góða hluti varðandi uppbyggingu á fjölsóttum ferðamannastöðum, þjóðgörðum og friðlýstum svæðum um þessar mundir.

Hér var rætt um Hollustuvernd ríkisins og dregið inn í umræðuna að miklar kröfur eru gerðar til stofnunarinnar varðandi tilskipanir Evrópusambandsins á EES-svæðinu. Það er rétt. Nýlega kom fram skýrsla sem sýnir að við höfum verið að innleiða um 1.100 tilskipanir á Íslandi. Þar af eru yfir 400 hjá umhvrn. Þannig erum við í umhvrn. með milli 30 og 40% af tilskipunum Evrópusambandsins á okkar herðum og meginþunginn er hjá Hollustuverndinni. Þessar tilskipanir eru líka að breytast frekar ört hjá okkur miðað við það sem við sjáum í öðrum ráðuneytum. Þetta er því mikil vinna og mikill þungi.

Það ráðuneyti sem kemur næst á eftir okkur er dómsmrn., með um 200 tilskipanir, þannig að umhvrn. hefur þarna miklu meiri byrðar af þessu afar jákvæða samstarfi en önnur ráðuneyti. Mér er kunnugt um þrýstinginn á Hollustuvernd ríkisins að þessu leyti og við erum núna að skoða sérstaklega þær tilskipanir sem kominn er tími til þess að innleiða, sem ekki er gert ráð fyrir í núverandi fjárlagafrv. að veita fé til, en hugsanlegt er að við þurfum að bregðast við á næsta ári. Það verður skoðað alveg sérstaklega.

Varðandi Hollustuvernd ríkisins þá hef ég verið því fylgjandi að við skoðuðum framtíð þeirrar stofnunar almennt sem og Náttúruverndar ríkisins. Ég hef verið að kynna mér hvað gerst hefur hjá öðrum löndum varðandi þessi mál. Ljóst er að menn hafa verið að sameina stofnanir til að byggja upp öflugar umhverfisstofnanir. Ég tel að við eigum að skoða þann möguleika hér, þ.e. hvort æskilegt væri að sameina Náttúruvernd ríkisins og Hollustuvernd ríkisins og hugsanlega veiðistjóraembættið sem er norður á Akureyri í eina öfluga umhverfisstofnun, sterka umhverfisstofnun, og sækja fram í þessum málaflokki með þeim hætti. Þá er ég ekki að boða að nokkuð verði lagt niður á Akureyri heldur að það yrði útibú frá þessari nýju stofnun, ég vil taka það sérstaklega fram. Þetta er allt á algjöru umræðustigi. Við höfum rætt þetta við forstöðumenn og þetta er ekki komið í neitt textaform eða neitt slíkt. Ég tel að landvinningar gætu orðið í umhverfismálum með því að búa til öfluga umhverfisstofnun.

Varðandi Skipulagsstofnun þá er það rétt að í fjárlagafrv. eru 110 millj. kr. innheimtar í skipulagsgjaldinu. Það kemur fram á bls. 263 að greiddar eru úr ríkissjóði 80 millj. kr. og 30 millj. kr., þ.e. svokölluð viðskiptahreyfing sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir kallaði að frysta peningana. Þarna eru sem sagt 30 millj. kr., svokölluð viðskiptahreyfing og ekki útséð um að þessir peningar verði notaðir. Ef við förum yfir þessar 80 millj. kr. í skipulagsvinnunni, þ.e. komi það mörg aðalskipulög frá sveitarfélögunum að það skríði yfir núverandi heimildir, sem eru 80 millj. verði þetta frv. að lögum, þá þurfum við að fara í viðræður við fjmrn. varðandi þessar 30 millj. kr. sem falla undir hina svokölluðu viðskiptahreyfingu. Þannig yrði það alveg ný ákvörðun, ef svo má segja, varðandi það mál. Þannig er ekki útséð um hvort það verði notað eða ekki. Aftur á móti er alveg ljóst að ef við förum yfir þessa upphæð, sem er ekki ljóst í dag, þá munum við fara í viðræður við fjmrn. um þá fjárhæð. Hins vegar er ekkert sem bendir til þess að um neitt uppnám verði að ræða varðandi skipulagsmálin.

Síðan minntist hv. þm. á stuðning við náttúruverndarsamtök. Eins og hér hefur komið fram í ræðustól var meginhugmyndin á bak við að leggja niður Náttúruverndarráð, sem er núna í vinnslu í umhvn., ekki sú að þessar 8 millj. kr. sem hafa farið til Náttúruverndarráðs, færu í sparnað hjá ríkinu eða notuðust í eitthvað óskylt heldur á að nota þessa peninga í verkefni tengd náttúruvernd. Eins og hægt er að lesa út úr fjárlagafrv. þá eru 4 millj. nú þegar skráðar á náttúruverndarsamtök sem við höfum undanfarin ár deilt út frá umhvrn. eftir ákveðnum reglum. Við þá upphæð bætast núna aðrar 4 millj., þ.e. helmingurinn af þessum 8 millj. sem runnu til Náttúruverndarráðs, helmingurinn bætist við þær 4 millj. sem fyrir eru þannig að samtals verða þetta 8 millj. kr. Það er réttur skilningur hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að sú upphæð tvöfaldast sem fer til úthlutunar til umhverfisverndarsamtaka, bæði í rekstrarstyrki og verkefnastyrki. Þar er verið að tvöfalda framlagið.

Félög sem munu geta sótt um fjármagn úr þessum potti, 8 millj. kr. potti, undirrita samstarfsyfirlýsingu við umhvrn. Nú þegar hafa fjölmörg félagasamtök gert það en þessi félög eru flokkuð í tvo hópa má segja. Þau eru annars vegar umhverfisverndarsamtök sem hafa það að meginmarkmiði að sinna umhverfismálum og hins vegar svokölluð frjáls félagasamtök sem eru líka í öðru en beinni umhverfisvernd. Við munum fara yfir þessi mál með þessum félögum þannig að allir átti sig á því hvaða reglur gilda um úthlutun fjármunanna og ekki verði neinn misskilningur á ferðinni varðandi það. Hluti fjármagnsins mun fara í rekstrarstyrki og stærri félög munu fá meira en minni félög, eins og verið hefur síðustu ár. Þessi stóru félög eins og Landvernd, Umhverfisverndarsamtök Íslands og Náttúruverndarsamtök Íslands hafa fengið helmingi hærri rekstrarstyrki en minni félögin.

Hluti fjármunanna mun fara í verkefni. Ég tel eðlilegt að það sé stór hluti fjármagnsins sem fari í það, að það verði hvati fyrir félögin til að fara í verkefni. Þau geta reynt að sækja til þessa sjóðs. Meginhlutinn verður þá ekki rekstrarstyrkir sem fara beint út heldur verða þetta verkefnatengd framlög. Hluti af þessum potti fer síðan til að styrkja umhverfisverndarsamtökin til að sækja alþjóðafundi á sviði umhverfismála, í ferðastyrki. Það á eftir að búa til þessar reglur. Einhverjar viðræður hafa farið fram um það við frjálsu félagasamtökin en það er ekki búið að klára það ferli. Þetta er svar mitt um þennan helming fjármunanna sem áður fóru til Náttúruverndarráðs.

Varðandi hinn helminginn, þær 4 millj. sem eftir standa, þá munu 2 millj. fara í Staðardagskrá 21 og slík verkefni sem verður þá hægt að sækja um eða ef ráðuneytið vill styrkja sérstaklega eitthvað á því sviði þá er svigrúm þar til þess. Svo munu 2 millj. kr. fara í verndaráætlun Breiðafjarðar en það er búið að skila inn verndaráætlun frá Breiðafjarðarnefndinni. Þar er búið að forgangsraða verkefnunum og þessar 2 millj. geta farið í þau verkefni sem þar eru efst á listanum. Breiðafjarðarnefndin mun koma að því máli. Það væri þá fyrsta fjármagnið sem fer beint í verkefnaáætlunina en hingað til hefur fjármagnið bara farið í rekstur á nefndinni sjálfri, Breiðafjarðarnefndinni.

[21:15]

Ég tel að með þessum hætti nýtum við féð sem fór í Náttúruverndarráð áður með miklu skynsamari hætti. Ég tel að Náttúruverndarráð, eins og hér hefur margoft komið fram, sé barn síns tíma og þessar 8 millj. kr. nýtist ekki vel í dag. Ég tel það skyldu okkar fyrir hönd skattborgaranna að nýta þá fjármuni betur. Ég tel að með því að efla frjáls félagasamtök og umhverfisverndarsamtök þá geti þau betur veitt stjórnvöldum aðhald, sem ég tel eðlilegt að þau geri. Sumir reyna að setja þessa umræðu í það ljós að ráðherra vilji ekki hafa Náttúruverndarráð af því að það hafi gagnrýnt ráðherra og eitthvað slíkt. Svo er aldeilis ekki. Ráðið hefur reyndar gagnrýnt ráðherrann en það er ekki svo að ráðherrann taki það mjög nærri sér.

Ég tel eðlilegt að stjórnvöldum sé veitt aðhald af samtökum og frjálsum félagasamtökum. Þess vegna tel ég eðlilegt að 4 millj. fari aukalega til frjálsra félagasamtaka sem munu þá frekar geta veitt aðhald á faglegum nótum, jafnvel faglegri nótum heldur hingað til. Þau geta notað þetta fé, bæði til þess að afla sér þekkingar og fara í spennandi verkefni. Ég held að allir hafi hag af því, ekki síður frjálsu félagasamtökin en stjórnvöld. Vonandi eflast þessi samtök og vonandi koma fleiri til starfa hjá þeim þegar þau hafa upp á meira að bjóða.

Ég get nefnt hér af handahófi tvö verkefni sem frjáls félagasamtök hafa boðið upp á og við höfum styrkt. Ég tel þau verkefni til fyrirmyndar og við getum væntanlega styrkt fleiri slík verkefni í framtíðinni. Þar vil ég t.d. nefna tvö verkefni sem Landvernd hefur haft á sínum herðum og við höfum styrkt. Annars vegar er um að ræða vegar svokallað GATT-verkefni, þ.e. Vistvernd í verki, þar sem fjölskyldum er boðið að koma í samstarf við Landvernd til að bæta heimilishaldið þannig að það verði umhverfisvænna. Þetta hefur gengið mjög vel og á eftir að smita út frá sér í miklu fleiri fjölskyldur en nú er.

Annað verkefni sem ég vil nefna hér af handahófi er Græna flaggið sem Landvernd er líka með, verkefni með fjölmörgum skólum sem fara í gegnum nokkur umhverfismál og bæta meðferð á ýmsum hlutum í skólunum þannig að skólarnir verði umhverfisvænni. Þau læra líka ýmislegt um orkumál, um endurvinnslu úrgangs o.s.frv. Þegar þau hafa staðið sig það vel að þau uppfylli ákveðin skilyrði þá mega þau flagga grænu flaggi fyrir utan sinn skóla. Þess vegna heitir verkefnið Græna flaggið. Við höfum getað styrkt bæði þessi verkefni og ég sé fram á góða tíma í þessu, að þegar við höfum úr auknu fé að moða þá getum við styrkt fleiri slík mjög jákvæð umhverfisverkefni.