Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:17:57 (2763)

2001-12-07 21:17:57# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:17]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hæstv. umhvrh. fyrir afskaplega greinargóð svör. Það er satt að segja sjaldan sem ráðherrar eru í jafngóðu formi til að svara og gefa sér svona góðan tíma. Oftar á maður því að venjast að manni sé svarað snubbótt í stuttum andsvörum en þetta svar var til fyrirmyndar.

Varðandi innihald svarsins þá fagna ég auðvitað sérstaklega því sem hæstv. ráðherra sagði varðandi frjáls félagasamtök og stuðning við þau, þ.e. að hún skyldi staðfesta að skilningur minn á þeim stuðningi væri réttur. Ég geri kannski örlitla athugasemd við það er hæstv. ráðherra sagði að stærri félög mundu fá meira en minni. Ég mundi fremur telja eðlilegt að þau sem starfa meira fái meira en þau sem starfa minna og að stærðin í sjálfu sér skipti kannski ekki meginmáli.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra í framhaldi, af þessu af því að Landvernd var til umfjöllunar í svari hennar: Nú heyrir Landvernd eins og er undir landbrn. og hefur hlotið 4 millj. í stuðning frá landbrn. á yfirstandandi ári. Gert er ráð fyrir að Landvernd fái hið sama á næsta ári. Er verið að gera ráð fyrir því að Landvernd komi inn undir umhvrn. eða hvað? Ég spyr bara af því að hæstv. ráðherra nefndi Landvernd í þessu sambandi.

Varðandi síðan hitt að hæstv. ráðherra telur, eins og hún sagði, næga fjármuni setta í náttúruverndina og að það sé fullur sómi af því fé sem sett er í þjóðgarðana. Þar erum við hæstv. ráðherra, bara ósammála. Þeir sem starfa í þessum geira hafa reynt að vekja athygli á því að þarna þurfi meira fjármagn en hæstv. ráðherra er ekki sammála. Við það verður þá bara að sitja. Hins vegar er spurningin um hinar pólitísku áherslur. Það er auðvitað alveg rétt að aukið fé hefur komið til Náttúruverndar ríkisins. Því ber að fagna og því hefur verið fagnað en það er ekki þar með sagt að allir séu alveg sáttir.