Fjárlög 2002

Föstudaginn 07. desember 2001, kl. 21:26:35 (2767)

2001-12-07 21:26:35# 127. lþ. 46.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 127. lþ.

[21:26]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Við þessa umræðu, 3. umr. um fjárlög fyrir árið 2002, hefur þó nokkuð verið rætt um forsendur og meðferð mála, niðurskurð og ekki hvað síst --- það tengist auðvitað fjáraukalagaumræðunni sem var á undan --- því þegar leynd hvílir á upplýsingum. Hv. þm. Pétur Blöndal talaði hér áðan þó nokkuð um hlutverk Alþingis og framkvæmdarvaldsins og komst ítrekað að þeirri niðurstöðu að ábyrgðin lægi hjá Alþingi. Það er einmitt þess vegna, herra forseti, sem menn hafa lagt ríka áherslu á að þær upplýsingar sem eftir er leitað séu veittar. Það er erfitt að þurfa að axla ábyrgð á einhverju því sem maður ekki veit hvað er. En þetta var bara léttur undanfari þess sem ég ætla aðallega að ræða hér.

Ég ætla fyrst og fremst að tala um brtt. sem þingmenn Samfylkingarinnar flytja hér við 3. umr., reyndar ekki allar heldur einungis hluta þeirra. Mig langar fyrst, herra forseti, að ræða svolítið um forsendurnar, koma aðeins inn í þá umræðu. Við 1. umr. um fjárlögin fannst hæstv. fjmrh. ekki ástæða til að menn væru að hlaupa upp til handa og fóta þó að forsendum fjárlagafrv. bæri ekki að öllu leyti saman við þjóðhagsáætlun. Hins vegar er full ástæða, herra forseti, til að ítreka að ýmislegt hefur breyst á þeim tveimur mánuðum sem liðnir eru síðan það var þannig að nú ber þeim forsendum sem hæstv. fjmrh. studdist við þá ekki saman við þær sem hann vill styðjast við í dag. Ég er ekki að nefna þetta í umræðuna hér til að reyna að gera lítið úr hæstv. fjmrh. eða hreykja mér eða einhverjum öðrum vegna þess að einhverjir hafi haft réttara fyrir sér hvað varðar forsendur. Mér finnst miklu frekar mikilvægt að við áttum okkur á því að nákvæmlega þessi staðreynd sýnir okkur hversu mikill óstöðugleiki er hér í efnahagslífinu. Ég held að það sé sú staðreynd sem menn eiga kannski dálítið erfitt með að höndla við þessa fjárlagagerð, þ.e. efnahagslífið er allt undir miklum sviptivindum, ef svo má segja. Gengið er óstöðugt og menn hafa verulegar áhyggjur af því hver þróunin muni verða næstu mánuði.

Svo ég nefni örfáar tölur til að undirstrika það sem gerst hefur á þó ekki lengri tíma var talið að landsframleiðslan ykist um 1% þegar við vorum fyrst að ræða fjárlögin. En nú er talað um að hún dragist saman um 0,5%. Hér munar býsna miklu, herra forseti. Við kunnum að þurfa að horfa upp á aðrar eins breytingar næstu tvo mánuði ef menn halda áfram að spá, sem þeir ugglaust gera einhvers staðar.

[21:30]

Sömuleiðis segir endurskoðuð þjóðhagsáætlun okkur að einkaneysla muni dragast saman um 1,5% sem er meira en reiknað var með. Jafnframt hefur komið fram að fjárfestingar muni dragast saman um 14%, sem er áhyggjuefni vegna þess að svo mikill samdráttur í fjárfestingum getur verið ávísun á atvinnuleysi. Allt eru þetta hlutir sem er ástæða til að hafa verulega áhyggjur af. Óstöðugt efnahagsumhverfi er nákvæmlega ekki það sem íslenskt atvinnulíf og íslensk heimili þurfa á að halda þessa dagana, hvað þá þeir vextir sem því miður sýnast vera fylgifiskur þess að menn eru hér að reyna að ná tökum á efnahagsástandinu.

Í gær var hér nokkuð rætt um skatta og efnahagsforsendur enda eðlilegt þar sem verið var að ræða skattafrv. hæstv. ríkisstjórnar og þar með þann skattaramma sem ríkisstjórnin hyggst setja fyrir næsta og þarnæsta ár og um lengri framtíð. Nokkuð bar á góma í þeirri umræðu hvert efnahagsumhverfið væri, hverjar horfurnar væru og það hversu mikilvægt væri að efnahagslífið og atvinnulífið á Íslandi væri samkeppnisfært.

Herra forseti. Auðvitað er það þannig að menn bíða eftir því og eru að reyna að gera einhverja hluti sem geta haft áhrif á markaðinn, haft áhrif á það að gengið stöðvist, flöktinu ljúki, eins og menn orða það svo pent þegar gengið hrapar um milli 25 og 30%. En samt er það þannig að það er kannski fátt sem býður upp á það, að því er virðist, að markaðurinn sætti sig við það sem verið er að gera. Alþingi hefur nýlega afgreitt fjáraukalög þar sem bæta þurfti við gildandi fjárlög um 14 milljörðum kr. og það er engin ástæða til þess, því miður, að ætla að niðurstaðan verði önnur á næsta ári nema hvað tekjurnar verða enn lægri og þar með verður útkoman verri. Þetta segi ég, herra forseti, vegna þess að ég trúi því sem menn segja sem gerst þekkja að því miður sé ákveðin innbyggð skekkja sem geri það að verkum að líklega verðum við alltaf, a.m.k. þangað til við mönnum okkur upp í að fara þá í grundvöll þess sem skakkt er talið vera, að kljást við það að þurfa eftir á að bæta svo og svo miklu inn í fjárheimildir líðandi fjárlagaárs.

Herra forseti. Mig langar aðeins að vitna í það sem segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga frá janúar til september 2001. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þess eru mörg dæmi að stofnanir búi við skertar fjárveitingar sem nema tugum milljóna króna vegna halla fyrri ára og sem þær hafa velt frá einu ári til þess næsta. Á 30 fjárlagaliðum nemur skerðing fjárheimilda vegna halla fyrri ára þannig 20% eða meiru af fjárheimild ársins. Í þeim hópi eru til að mynda fimm skólar og tvö sýslumannsembætti. Engin áform virðast liggja fyrir um hvort og þá hvernig þessar stofnanir eigi að draga saman þjónustu til að rekstur þeirra falli að fjárheimildum.``

Í þessari skýrslu er jafnframt fjallað um að svo virðist vera að stofnanir fái ákveðna umbun fyrir að keyra fram úr. Menn hafa stundum látið það fara í taugarnar á sér að þeim stofnunum sem standa við fjárlög sé í sjálfu sér ekki umbunað heldur sé hitt vænlegra til frekari fjárveitinga að fara fram úr. Allt eru þetta ákveðin úrlausnarefni sem þarf að kljást við og betra er að eiga við ef efnahagsumhverfið er stöðugt heldur en hitt, og ég álít, herra forseti, að þetta verði okkar vandi ekki síður á næsta ári heldur en núna.

Það gerðist hér við 2. umr. fjárlaganna að í raun var boðað að strax yrði farið í ámóta mikinn niðurskurð og sú aukning nam sem meiri hluti hv. fjárln. lagði til við umræðuna. En þó svo að þær tillögur kæmu í fjölmiðlum varð ekki sú breyting til batnaðar á gengi krónunnar sem forusta ríkisstjórnarinnar ætlaðist til og sýnir það einnig að fjármálamarkaðurinn metur það þannig að þetta fjárlagafrv. sé ekki trúverðugt og byggi á allt of veikum forsendum. Þetta er miður, herra forseti, vegna þess, eins og ég segi, að við þurfum á öðru að halda. En þetta og þær skattalækkanir og skattbreytingar --- hér í gær var líka fjallað um skattahækkanir --- áttu að mati ríkisstjórnarinnar samanlagt að hafa hér einhver áhrif en hafa greinilega ekki leitt til þess sem vænst var.

Það kom fram í erindi sem ráðuneytisstjóri fjmrn., Baldur Guðlaugsson, hélt á ráðstefnu um það hvort evran hefði áhrif á Íslandi að bæði skattbreytingarnar og reikningsskil í erlendri mynt, sem frv. liggur fyrir um frá ríkisstjórninni einmitt nú, ættu að mæta þeirri skekkju sem íslenskt atvinnulíf hlýtur að búa við þegar horft er til þess annars vegar og hins vegar þess umhverfis sem fyrirtækjum í Evrópu er búið og verður búið þegar evran verður komin í umferð.

Herra forseti. Við veltum því fyrir okkur þegar við horfum til þess hvernig ríkisstjórnin er að reyna að bregðast við með skattalækkunum hversu neðarlega þarf að fara með skatta fyrirtækja til þess að mæta þessum samkeppnismun sem er þarna á milli. Ríkisstjórnin hefur endað í tölunni 18%. En við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sé nægjanlegt, annars vegar til þess að fyrirtækin hafi hér samkeppnisstöðu og hins vegar til þess, sem er síðan hitt yfirlýsta markmiðið, að ná erlendri fjárfestingu inn í landið.

Herra forseti. Ég er ekki viss um að þetta nægi til að vega upp það óhagræði sem er af litlum heimamarkaði og litlum gjaldmiðli en við skulum vona að það mæti því a.m.k. að einhverju leyti því það er afar mikilvægt.

Eins og ég gat um var boðað strax við 2. umr. að um yrði að ræða niðurskurð a.m.k. jafnmikinn þeim viðbótartillögum sem þá voru kynntar af hálfu meiri hluta fjárln. Nú hefur sá niðurskurðarpakki verið kynntur og það verður að segjast eins og er, herra forseti, og vitna ég þá einnig til þess sem félagar mínir í Samfylkingunni hafa sagt hér fyrr í dag, að hann er ekki mjög traustvekjandi. Það eina í þeim pakka sem á að duga til langframa, ef það má orða það þannig, virðast vera auknar álögur á nemendur, bæði í framhaldsskólum og háskólum, og síðan þá sem þurfa að nýta sér læknisþjónustu eða kaupa sér lyf.

Herra forseti. Mér finnst að þarna sé akkúrat ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Ég vil þess vegna gjarnan fara í þær tillögur sem við í Samfylkingunni leggjum til hvað varðar tekjur í ríkissjóð og bera þær saman við þær hugmyndir sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa um það hverjir séu aflögufærir í samfélagi okkar, vegna þess að það birtir best þá mismunandi lífssýn sem annars vegar jafnaðarmenn og hins vegar íhaldsmenn á Alþingi Íslendinga hafa, sýnir best þau mismunandi viðhorf sem menn hafa gagnvart því hvar eigi að skera, hvert eigi að leita þegar annaðhvort þarf að auka tekjur eða draga úr umsvifum hins opinbera. Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjárln., hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Margrét Frímannsdóttir og Gísli Einarsson, hafa lagt fram brtt. á þskj. 504 í 13 liðum. Ég ætlaði að gera að umtalsefni 4., 5. og 6. liðinn sem snúa að því að hugmyndir okkar til tekjuöflunar lúta að því að íslenskur sjávarútvegur, íslensk útgerð greiði meira af þeim kostnaði sem til fellur vegna útgerðar en hún gerir í dag. Við ætlum þó ekki í þessu skrefi að ganga alla leið og láta útgerðina greiða allt. Við erum tilbúin að fallast á að skattgreiðendur taki þátt í því með útgerðinni enn um sinn að greiða þann kostnað sem af hlýst. En okkur finnst eðlilegt, herra forseti, að menn fari að stíga þau skref sem þarf að stíga.

Á sama tíma og menn eru að láta hér nemendur og sjúklinga taka á sig frekari kostnaðargreiðslur finnst okkur eðlilegt að sú atvinnugrein sem þó byggir á því að nýta sameiginlega auðlind og, eins og jafnframt hefur komið fram, nýtur e.t.v. hvað mest góðs af þeirri efnahagsþróun sem orðið hefur undanfarið með lækkun gengis, leggi sitt af mörkum.

Við höfum þess vegna lagt til, herra forseti, að þróunarsjóðurinn verði notaður sem farvegur fyrir frekari kostnaðargreiðslur útgerðarinnar þannig að í stað þess að menn greiði þar 1.300 kr. fyrir þorskígildistonnið verði farið upp í rétt um 4.000 kr., sem er u.þ.b. fjórar krónur fyrir hvert þorskkíló og þykir nú svo sem engum mikið. Þetta gefur viðbótartekjur upp á 900 millj sem við síðan teknískt útfærum þannig að komi inn sem viðbótarsértekjur fyrir ýmsar stofnanir sjávarútvegsins sem á móti þurfi þá ekki jafnmikið ríkisframlag.

Herra forseti. Ég vil því til rökstuðnings að óhætt sé að stíga þetta skref víkja að svari við fyrirspurn hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, fyrirspurn um það hversu miklum fjármunum íslensk útgerð hefur varið til þess að leigja sér aflamark á undanförnum árum. Ég ætla bara að víkja að árinu í ár þar sem til eru tölur fyrir hluta sl. fiskveiðiárs, þ.e. frá 1. sept. 2000 til 30. maí 2001. Á þessu tímabili leigja íslenskar útgerðir aflamark, þ.e. kvóta innan ársins, fyrir u.þ.b. 4 milljarða kr. Menn geta síðan framreiknað hversu mikið þetta hefði orðið ef allt árið hefði verið undir og þarna er ekki inni varanlega sala, einungis það sem leigt er, og það eru 4 milljarðar, herra forseti.

Ég hef lengi verið áhugamaður um að útgerðin tæki frekari kostnað á sig, þ.e. greiddi meira af þeim kostnaði sem til fellur vegna starfseminnar. Mér hefur fundist í hæsta máta óeðlilegt að atvinnugrein sem á að vera fullburðug, ein af grundvallarefnahagsstoðum Íslands, greiddi ekki þann kostnað sem af henni hlýst heldur þyrfti að vera upp á skattborgara komin með svo stóran hluta og raun ber vitni.

Mig langar fyrst að rifja upp það sem Phil Major sagði. Nefndur Phil Major var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneyti Nýja-Sjálands þegar var verið að taka upp kostnaðargreiðslur í sjávarútvegi og ýmsar breytingar sem þýddu greiðslur fyrir veiðiheimildir, greiðslur fyrir eignarhald á tilteknum fiskstofnum, eins og þeir kusu að haga því þar. Niðurstaða hans eftir að koma til Íslands fyrir auðlindanefndina heitina og kynna sér stöðu mála --- hann skilaði henni síðan skýrslu --- var sú að endurheimta þyrfti kostnað vegna þjónustu sjútvrn., Fiskistofu og Hafrannsóknastofnunar við útgerðarfyrirtækin fyrir u.þ.b. 2.5 milljarða ísl. kr. á ári. Hann taldi að halda ætti áfram að innheimta kostnað vegna fyrri endurbóta, eins og það er þýtt hér úr ensku, þ.e. þróunarsjóðsins, og hann taldi að hugleiða ætti hvort innheimta ætti hluta af kostnaði eða allan kostnað vegna strandgæslu upp á u.þ.b. 800 milljónir ísl. kr.

Niðurstaða hans í heildina var sú að ef útgerðin ætti að borga algjörlega fyrir sig það sem íslenskir skattborgarar nú gera þá mundi þessi upphæð vaxa úr einum milljarði sem hún er í dag upp í 5,5 milljarða í íslenskum krónum á ári. Hér munar dálitlu, herra forseti, á því sem menn eru að greiða og því sem Phil Major taldi að væri eðlilegt ef horft væri til kostnaðar.

[21:45]

Herra forseti. Ég vil líka, til þess að undirbyggja það sem við erum að leggja til, vísa í lokaskýrslu auðlindanefndar þar sem Sveinn Agnarsson skrifar ritgerð um stjórn fiskveiða. Einn kaflinn er um kostnað við stjórn fiskveiða. Þar víkur hann að því að þeirri skoðun hafi vaxið fiskur um hrygg á síðustu árum að útgerðin eigi sjálf að bera hluta kostnaðar eða allan kostnað við fiskveiðistjórn og vísar þar bæði til Ástralíu og Nýja-Sjálands þar sem innheimt séu kostnaðargjöld af útgerðinni. Hann rifjar upp að Þróunarsjóðurinn hafi innheimt gjald af hverri brúttórúmlest frá 1994 og frá fiskveiðiárinu 1996--1997 hefur að auki verið greitt gjald af úthlutuðu aflamarki. En eftir að vera búinn að skoða þetta mál kemst Sveinn Agnarsson að þeirri niðurstöðu að útgjöld vegna útgerðar hafi á árunum 1990--1996 verið að meðaltali 1,9% af ríkisútgjöldum og áætlaður beinn kostnaður, bara vegna fiskveiðistjórnar, 1,1% af ríkisútgjöldum.

Herra forseti. Það er í rauninni sama hvora töluna við notum. Ef við notum bara kostnaðinn vegna fiskveiðistjórnar og notumst við töluna 1,1% af ríkisútgjöldum, þá erum við að tala um 2,5 milljarða. Ef við hins vegar notum útgjöld vegna útgerðar sem voru að meðaltali 1,9% af ríkisútgjöldum á þessum tíma erum við að tala um um það bil 4,5 milljarða.

Þessu, herra forseti, vildi ég endilega koma í umræðuna vegna þeirra 900 millj. sem Samfylkingin telur eðlilegt að innheimtar séu sem kostnaðargjald af útgerðinni og þá sem fyrsta skref. Ég geri mér grein fyrir því að þeir sem leggja hér til svokallað veiðigjald eða veiðileyfagjald í skýrslu endurskoðunarnefndar eru ekki að tala um kostnaðargjald. Þeir eru langt undir þessari upphæð. Þar kannski greinir á milli. Okkur finnst eðlilegt að burðug atvinnugrein greiði fyrir þann kostnað sem af henni hlýst en láti skattborgurum það ekki eftir. Ég verð að segja að ég hef skömm á þeim útgerðarmönnum sem kveinka sér undan slíku. Þetta eru menn og fyrirtæki sem fengið hafa að nýta sameiginlega auðlind mismunandi lengi en sér að kostnaðarlitlu. Mér finnst að þeir eigi að sjá sóma sinn í að bjóðast til þess að greiða þennan kostnað, enda fullkomlega óeðlilegt að hann sé greiddur af öðrum.

Herra forseti. Ég ítreka að það er með þessum hætti sem við viljum nálgast tekjuöflun eða það að minnka útgjöld ríkisins en ekki með því að ganga að nemendum eða sjúklingum eins og hæstv. ríkisstjórn hefur valið að gera.

Herra forseti. Ég vil samt sem áður, áður en ég lýk máli mínu, nefna alveg ótrúlega sérkennilega niðurskurðarhugmynd. Það er kannski ekki niðurskurðarhugmynd, herra forseti. Það er eiginlega frekar tekjuöflunarhugmynd hæstv. ríkisstjórnar. Ég nefndi áðan að ríkisstjórnin hefur helst séð matarholu í nemendum og sjúklingum. En ég gleymdi að geta þess að ríkisstjórnin sér matarholu í sóknargjöldum og kirkjugarðsgjöldum. Það er svolítið merkilegt af því að fjmrn. hefur tekið að sér að innheimta sóknargjöld fyrir hönd safnaðanna og síðan skilað til sókna landsins svo að hægt væri að rækja kirkjustarf úti um allt land. Hæstv. ríkisstjórn hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé allt of mikið. Jafnvel þó einnungis sé farið eftir þeim reglum sem samið var um þá hefur hæstv. ríkisstjórn upp á sitt eindæmi komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um allt of mikla peninga að ræða og að rétt sé að hluti þessarar fjármuna renni frekar í ríkissjóð, væntanlega til annarra og merkilegri verkefna --- kannski til að borga með útgerðinni, ég veit það ekki.

Herra forseti. Alla vega liggur fyrir að ríkisstjórnin ætlar að kraka í ríkissjóð einhverjum milljónum með því að taka hluta af sóknargjöldunum. Ég verð að segja að margar eru þær dapurlegar niðurskurðartillögurnar en þetta er einhver sú fáránlegasta sem maður hefur séð lengi. Hún minnir reyndar á gamla tíma þegar hér kom mikill bandormur inn í þingið með alls konar ,,þrátt-fyrir``-tillögum þar sem reynt var að krækja í nokkrar milljónir hér og þar. Ég hélt að þeir tímar væru liðnir. En þeir eru greinilega ekki liðnir. Ríkisstjórnin er enn þá á gömlu nótunum og nú eru sóknargjöldin og kirkjugarðsgjöldin sem ein af matarholunum ásamt nemendum framhaldsskóla og háskóla og þeim sem þurfa að sækja læknisþjónustu.

Herra forseti. Það er rétt að ítreka það enn að hér horfum við kannski upp á nákvæmlega það hvernig þessi ríkisstjórn lítur á málin og þá í raun líka að horfa á andstæðu þess, sem við jafnaðarmenn vildum gera ef við fengjum meiru ráðið. Við viljum reka hér arðbært atvinnulíf sem getur borgað en velferðarkerfið er hins vegar nokkuð sem við viljum slá skjaldborg um.

Herra forseti. Ég held að þau fjárlög sem við erum að nálgast að ljúka umræðum um muni ekki leiða til þeirrar niðurstöðu sem hæstv. ríkisstjórn er að vonast eftir, þ.e. að hér verði burðugt efnahagsumhverfi. Ég óttast satt að segja, eins og ég gat um fyrr, að því miður séum við ekki bara á gömlu nótunum varðandi sóknargjöldin og ,,þrátt-fyrir``-ákvæðin heldur líka, varðandi það fjárlagafrv. sem hér er verið að ganga frá, að á næsta ári muni þurfa að fara í björgunarleiðangra. Þeir verða sársaukafyllri vegna þess að tekjurnar verða minni. Það liggur fyrir fyrir vegna þess að góðærið hefur ekki verið notað til þess að gera þær grundvallarbreytingar sem hefði þurft að nýta það til.

Því miður er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman og hagvöxtur verði minni en reiknað var með. Reyndar kemur fram að gangi þessi spá eftir þá sé það í fyrsta skipti síðan 1992 að landsframleiðsla dragist saman á milli ára. Við erum að ýmsu leyti, herra forseti, komin í gamlan tíma, kunnuglegan fyrir suma en eitthvað sem ég reikna með að flestir hafi vonast til að við hefðum kvatt.