Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:08:23 (2781)

2001-12-08 11:08:23# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:08]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hygg að þessi bandormur sem hæstv. forsrh. hefur mælt fyrir sé langmerkilegastur fyrir þá sök að í honum er auðvitað fólgin yfirlýsing, miklu fremur en í innihaldinu sem slíku. Í flutningi þessa bandorms um ráðstafanir í ríkisfjármálum er fólgin yfirlýsing af hálfu hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar um að góðærinu sé lokið. Þetta er klassískur vandræðabandormur sem er fluttur vegna þess að menn fara í svona reddingaraðgerðir þegar ríkisfjármálin eru komin í ólag, þegar efnahagsforsendurnar eru versnandi og á síðustu stundu er verið að reyna að bjarga andlitinu og rumpa saman fjárlögunum þannig að þau líti sæmilega út á pappírunum. Þetta er nákvæmlega svoleiðis plagg. Þetta er hallærisefnahagsvandræðabandormur, og svoleiðis óféti hafa aldrei þótt skemmtileg.

Langmerkast er auðvitað að með þessu eru ákveðin vatnaskil í allri umræðu um efnahagsmál og ríkisfjármál á síðustu mánuðum og missirum. Það er ekki hægt að lýsa því yfir með skýrari og afdráttarlausari hætti af hálfu eins forsrh. að hér séu skollnir á efnahagserfiðleikar en nákvæmlega með þessu enda var lítið gleðibros í ranni þegar hæstv. forsrh. lýsti yfir með þessum hætti að góðærinu væri lokið, það væri gufað upp, úti ævintýri.

Það sem er svo lakara, herra forseti, er að ég held að afar fáir hafi trú á því að í þessum ráðstöfunum sem slíkum og öðru sem tengist lokafrágangi fjárlaga hér og skattamálum séu fólgin mjög trúverðug eða efnisleg viðbrögð við núverandi vanda í efnahagsmálum. Þetta er óskaplegt hálfkák og ráðleysi. Allur aðdragandi málsins ber það náttúrlega með sér, niðurskurðurinn er boðaður í beinni útsendingu og aðrir stjórnarliðar koma algjörlega af fjöllum, sitja við útvarpstækin sín eða sjónvörpin og trúa varla eigin eyrum því að forsrh. er að boða þeim niðurskurð á fjárlagafrv. sem menn eru að hamast við að hækka við 2. umr. Svo fer í gang hálfvandræðakennd atburðarás, eins og menn muna, við að reyna að koma þessu öllu í búning. Ég held, herra forseti, að þeir sem hafa fylgst með vinnubrögðunum og séð hvernig þetta hefur borið til átti sig á því að þetta er ekki mjög trúverðugt. Að lokum held ég að hæstv. forsrh. hafi orðið ljóst að eitthvað yrði að gera til að reyna að senda þau skilaboð út í þjóðfélagið að það væri þó einhver viðleitni, einhver vilji, til að reyna eitthvað. Þá fæddist þessi litla mús, þá fæddist þetta hér, eftir sjónvarpsþáttinn fræga sunnudaginn 25. nóvember á Skjá 1.

Þá kemur að pólitíkinni og innihaldinu í þessu, herra forseti, að svo miklu leyti sem það er eitthvert. Það var eins og við mátti búast að breiðu bökin sem ríkisstjórnin fann voru sjúklingar og námsmenn. Ekki er hér í sjálfu sér um að ræða stórar fjárhæðir þegar þær eru settar í heildarsamhengi ríkisútgjaldanna en þær eru tilfinnanlegar fyrir þessa sérstöku hópa sem verða þarna fyrir barðinu á gæsku ríkisstjórnarinnar. Það er dálítið merkilegt út frá almennum pólitískum vangaveltum að ríkisstjórnin skuli leggja í þennan leiðangur og baka sér þær óvinsældir og þá andúð í samfélaginu sem svona aðgerðir eru dæmdar til að gera, þegar ráðist er sérstaklega á tiltekna hópa á sama tíma og verið er að hygla jafnvel öðrum betur stæðum eins og hátekjufólkinu, og hafa ekki meira upp úr krafsinu. Einhvern tíma hefði þetta verið kölluð, herra forseti, pólitísk heimska. Ef menn fara í svona leiðangur á annað borð og baka sér þá erfiðleika sem því eru samfara er eins gott að reyna að hafa eitthvað upp úr krafsinu.

Mér finnst t.d. hæstv. heilbrrh. fara heldur snautlega ferð þegar hann fellst á þessa gjaldtöku á sjúkrahótelunum sem er tilfinnanleg fyrir lítinn tiltekinn hóp í samfélaginu, pólitískt ákaflega ógeðfelld aðgerð, og hafa 10 millj. upp úr krafsinu. Hvað er það í prósentum í öllum heildarútgjöldum heilbrigðisgeirans? Þannig getum við tekið dæmi.

Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst þetta á engan hátt, herra forseti, hvort sem litið er til þess efnahagslega, pólitískt eða út frá sanngirnis- og réttlætissjónarmiðum vera verjandi lending. Þetta er hin mesta hörmungarsmíð sem hér hefur litið dagsins ljós.

Tökum fyrst þjóðarbókhlöðuskattinn og röksemdafærsluna þar, herra forseti, sem er nokkuð kúnstug. Það er þessi venjulega tugga um að það sé svo vont að hafa markaða tekjustofna eða eitthvað þannig fyrir fram bundið í fjárlögum, þá sé fjárlagavaldið og hagstjórnarvaldið tekið af Alþingi. Nú muna þeir allt í einu eftir Alþingi. Hér kemur Alþingi í annarri hverri setningu. Nú er það ekki ríkisstjórnin eða forsrh. einn sem fer með valdið heldur Alþingi þegar það á við. Svo kemur að það sé sem sagt vont að takmarka svona fjárlagavald Alþingis, herra forseti. Ég er á bls. 1, 2 og 3 í greinargerð með frv., ég veit að ég fæ góðfúslegt leyfi forseta til að vitna í þetta, kannski óbeint, en þar segir m.a.:

,,Ákvæði um lögmælt framlög verða því að sæta þeim skerðingum sem markmið fjárlagafrumvarpsins setja. Af þeim sökum eru í fjárlagafrumvarpinu lagðar til tímabundnar skerðingar á ráðstöfun hins sérstaka eignarskatts sem kveðið er á um í lögum nr. 83/1989 ...`` Formfræðin er orðin að rökum. Það eru engin efnisrök færð fram í greinargerð með frv. heldur bara þessi fabúlering um að þetta eigi ekki að vera svona, það sé slæmt fyrir Alþingi að hafa markaða tekjustofna því að það takmarki svigrúm þess við fjárlagagerð hverju sinni. Af þeim sökum verður að skerða þjóðarbókhlöðuskattinn svo og svo mikið í ríkissjóð. Það er ekki vegna þess að það sé ekki þörf fyrir peningana, í endurbæturnar. Það er ekki sagt. Það eru ekki færð sérstök efnahagsleg rök fyrir því að svona verði þetta að vera heldur er þetta svona leitt út úr þessu. Komst hæstv. menntmrh. í þennan texta eða hver vélaði hér um?

[11:15]

Herra forseti. Það er ákaflega skemmtilegt varðandi þennan sérstaka eignarskattsauka sem, ef ég man rétt, enginn flokkur hefur hatast eins mikið við og Sjálfstfl., en hann hefur fundið upp alls konar nafngiftir á slíka eignarskatta og eignarskattsálögur eins og að kalla þetta ekknaskatt og guð má vita hvað og talað sig alveg hása á fyrri þingum um að það yrði forgangsverkefni hjá Sjálfstfl. að henda þessu út í hafsauga þegar hann kæmist að --- nú er flokkurinn búinn að búa við þennan skatt í 10--12 ár og lætur nú svo lítið að skerða hann frá þeim menningarverkefnum sem menn töldu þó að réttlættu það að hafa hann þannig að þetta er orðið að hreinum skattstofni í ríkissjóð hjá Sjálfstfl. undir lokin. Til hamingju, hæstv. fjmrh. Geir H. Haarde, að hafa þarna fundið sérstakan skattstofn.

Það er síðan alveg ljóst, herra forseti, að sú skerðing á ákveðnum verkefnum sem þessi skattstofn hefði átt að fjármagna er mjög tilfinnanleg. Ég nefni þar t.d. sérstaklega húsafriðunarsafn Þjóðminjasafnsins. Það er auðvitað afar dapurlegt að sjá svo naumt skammtað til þess málaflokks þar sem menningarverðmæti liggja undir skemmdum úti um allt land. Þetta eru gríðarlega góð verkefni yfirleitt í þeim byggðarlögum þar sem verið er að vinna að endurgerð og varðveislu gamalla húsa. Þetta er mjög atvinnuskapandi. Fjárveitingar fara að langmestu leyti í vinnulaun handa handverksmönnum og þeim sem þarna annast framkvæmdir og þessi menningarverðmæti þjóðarinnar liggja undir skemmdum í stórum stíl tugum talið úti um allt land. En þá er nánasarskapurinn svona mikill að þessi hungurlús sem er í þetta verkefni er skert sérstaklega, 65 millj. eða hvað það nú var sem var í sjálfu frv.

Herra forseti. Þá kem ég að framhaldsskólunum og þar koma skólagjöldin til sögunnar. Með hækkun innritunargjalda úr 6.000 kr. í 8.500 og síðan aftur þegar kemur að efnisgjöldunum úr 25 þús. í 50 þús. Svo koma menn örugglega hér og segja: Þetta eru ekki miklir peningar. Hvern munar um 6 þúsundkall? Er ekki verið að gera úlfalda úr mýflugu að vera að ræða eitthvað um þetta? Það er heilmikill kostnaður sem skólarnir hafa af þessu, ljósritun og pappírar og alls konar hlutir. Það sem er að gerast í sambandi við skólagjöld og innritunargjöld bæði í framhaldsskóla og háskóla er að fyrst búa menn til skilgreiningu um að verið sé að borga fyrir einhverja tiltekna hluti. Eftir nokkur ár er það orðið að óumdeildri forsendu gjaldtökunnar og menn hætta að horfa á það sem skiptir máli að það er farið að láta nemendurna borga að hluta til fyrir kostnaðinn við skólahaldið og síðan er tilhneigingin alltaf sú að ganga á lagið og menn finna sér auðveldlega aðferðir til að breyta forsendunum, skilgreina þetta upp á nýtt. Það sé kominn ýmiss konar viðbótarkostnaður og hvað er þá að gerast jafnt og þétt? Menn eru farnir að borga fyrir skólana og þá fer efnahagur aðstandendanna að skipta máli og aðstaða að öðru leyti. Það er auðvitað það sem gerist. 50 þúsundkall er 50 þúsundkall hvað sem hann heitir, fyrir fátækan námsmann t.d. af landsbyggðinni sem er að koma hingað suður með ærnum kostnaði að sækja sér verknám. Er það endilega þannig að við kaupum það að af því að það er einhver efniskostnaður í verknámi þá skuli þeir sem fara í það en ekki í bóknám borga 50 þúsund í viðbót fyrir menntun sína? Hvenær var skrifað upp á það? Það geri ég ekki. Ég tel að skólarnir eigi í grundvallaratriðum að vera ókeypis, borgaðir af sameiginlegu skattfé og ég blæs á þessa nálgun sem veður hér uppi í umræðunni að þetta sé allt í lagi bara ef menn geta hengt gjaldtökuna á einhvern tiltekinn pappír, að það kosti svona og svona mikið að ljósrita eða það kosti svona og svona mikið efnið í eitthvert verknám. Hvar enda menn þá? Menn geta haldið áfram að þróa þessa skilgreiningu sína þangað til ekkert er eftir nema kannski launin við kennsluna. Allt hitt er komið yfir á herðar nemendanna. Þessi vegferð getur endað þannig. Þess vegna verða menn að vera með grundvallaratriði í þessu algerlega á hreinu og ég mótmæli sérstaklega þessari grófu hækkun á efnisgjöldunum. Og hvað er svo sagt í þessari 2. gr.? Hún afhjúpar hugsunarháttinn. Hér er sagt, með leyfi forseta, og þá er ég að tala um hækkunina á efnisgjöldunum:

,,Með þeirri breytingu er komið á móts við þarfir þeirra skóla, sem bjóða upp á tiltölulega dýrt verknám, t.d. í matvæla- og málmiðngreinum, enda hefur reynslan sýnt að gildandi hámark er ekki í samræmi við raunverulegan efniskostnað í þeim greinum.``

Höfundur þessa texta er búinn að kaupa það sem óumdeilanlega forsendu að nemendurnir eigi að greiða þetta og er hættur að hafa af því áhyggjur að þar með er auðvitað farið að láta menn borga í talsverðum mæli fyrir kostnað sem tengist náminu. Og hvar endar sú vegferð? Ég hafna þeirri forsendu. Hún er ekki sjálfgefin og mun leiða til mikils ófarnaðar ef menn gefa eftir jafnt og þétt inn á þá braut og minnumst þess að ekki er svo óskaplega langt síðan þessi ósköp hófu göngu sína, nánar tiltekið í tíð ríkisstjórnar Alþfl. og Sjálfstfl. 1991--1995. Og ég segi: Það er tilfinnanlegt fyrir nemendur eða fjölskyldur þeirra sem t.d. eru að sækja verknám sem ekki eru í boði nema á fáeinum stöðum á landinu þannig að því fylgir oft mikill uppihaldskostnaður og ferðalög fyrir viðkomandi nemendur að bæta svo ofan á það 50 þúsund kr. í efnisgjöld umfram það sem bóknámsnemdur borga því að þessir nemendur eiga að borga innritun sína eins og aðrir.

Í háskólanum eru þetta auðvitað líka peningar sem munar mikið um og skólagjaldtakan er, með því sem hér er verið að bæta við, samtals upp á rétt tæpar 100 millj. kr. þegar þetta er lagt saman. 38,4 millj. í framhaldsskólana vegna innritunargjaldanna, allt að 10 millj. vegna verknámsskólanna í efnisgjöld, 34,6 millj. í hækkun innritunargjalda hjá Háskóla Íslands, 4,9 millj. í Háskólanum á Akureyri og 8,9 millj. í Kennaraháskólanum, og þá erum við komin í rétt tæpar 100 millj. í ný skólagjöld. Hver ætlar að segja að það muni ekki um þetta? Berum þetta saman við aðra liði eins og t.d. fjárhæðir sem fara til jöfnunar námskostnaðar og þá sjáum við að ríkið er að taka til baka drjúgan hluta af slíku ef við setjum þetta t.d. í samhengi. Það er fjarri því að hægt sé að gera lítið úr þessu með því að segja að þetta séu lágar prósentur eða ekki háar upphæðir sem neinn muni um. Það munar víst um þetta. Þeir sem ekki vita að fátækan námsmann og fjölskyldu hans munar um 50 þús. kr. eru veruleikafirrtir. Þeir lifa í öðrum heimi en það fólk.

Herra forseti. Um sjúkrahótelin hef ég aðeins fjallað og verð að segja að mér finnst það líka dapurlega að verki staðið að fara út í slíka breytingu sem við vitum að bitnar ekki síst á og er gjaldtaka til viðbótar á langveika sjúklinga t.d. á landsbyggðinni sem þurfa í ríkum mæli að vera hér langdvölum vegna veikinda sinna og nota þá þessi sjúkrahótel. Og ætli þeir og aðstandendur þeirra hafi ekki ærnar byrðar fyrir að bera vegna veikindanna og kostnaðar sem þeim tengjast. Má ég minna á nýja könnun sem BSRB stóð fyrir sem sýnir svart á hvítu að til viðbótar öllu öðru er lyfjakostnaður sjúklinga á landsbyggðinni mun hærri en á höfuðborgarsvæðinu. Það hallar því á þann hóp í öllu tilliti og reglur um endurgreiðslur ferðakostnaðar og annað því um líkt er þannig að fyrir utan það áfall sem það er fyrir fólk í fjarlægum dreifðum byggðum að veikjast, þá fylgir því óumflýjanlega gríðarlegur kostnaður umfram það sem aðrir bera.

Ég tók fyrir einu eða tveimur árum, herra forseti, raunverulegt dæmi af manni á Bakkafirði sem lenti í tilteknum veikindum og þurfti 4--6 sinnum á ári að fara ýmist til Akureyrar eða hingað suður og sat uppi með kostnað á bilinu 150--200 þús. eftir að hafa fengið nýtt alla möguleika til endurgreiðslu kostnaðar sem honum stóð til boða og þetta voru blákaldar staðreyndatölur úr dæmi þessa tiltekna manns.

Um skólagjöldin ætla ég að bæta aðeins við að það var einn farsinn enn í því máli að Framsfl. gerði uppsteyt. Nokkru eftir að fjárlagafrv. kom fram með þeim forsendum að hækka skólagjöldin, innritunargjöldin í háskólanum í 35 þús., þá gerði Framsókn uppsteyt eins og hún hefði ekki staðið að fjárlagafrv. Hvernig var fjárlagafrv. afgreitt í þingflokkum stjórnarflokkanna? Var Framsókn með fyrirvara á þessu? En hún gerði uppsteyt og gott og vel. Það glaðnaði yfir ýmsum að nú mundi Framsókn berja niður hækkun skólagjaldanna og ég er hér með viðtal sem Morgunblaðið tók við hv. þm. Kristin H. Gunnarsson þar sem hann sagði: Framsóknarmenn telja ekki rök fyrir slíkri hækkun. Hún er of mikil, hún er umfram forsendur og lög. En þeir gætu fallist á 30 þús. Að 25 þús. yrðu 30 þús. en ekki 35. Hver var svo niðurstaðan? 32.500. Sjálfstfl. hefur greinilega gengist í það sem uppeldislegt verkefni að berja Framsókn niður. Hvað eru þeir með uppsteyt? Þeir skulu fá að kyngja þessu eins og öllu öðru og niðurstaðan er sú að 30 þúsundkall Framsóknar verður 32.500. Og þá er þetta þannig að fyrst er lagt fram stjfrv. með forsendum um að skólagjöld hækki úr 25 þús. í 35 þús. Það eru 10 þús. kr. þar á milli. Nokkrum vikum eftir að fjárlagafrv. er komið fram, sem ég vissi ekki annað en væri á ábyrgð beggja stjórnarflokkanna, þá gerir Framsókn uppsteyt undir forustu merkra manna eins og hv. þm. Hjálmars Árnasonar og Kristins H. Gunnarssonar. Getum ekki sætt okkur við meira en 30 þús. Það eru ekki rök fyrir slíkri hækkun, sögðu þessir sérfræðingar Framsfl. í menntamálum. Við erum búnir að fara ofan í þetta, efnisgjöldin og allt það, það eru ekki rök fyrir meiru en 30 þús. kr. Niðurstaðan 32.500. Það eru 7.500 frá 25 þúsundkallinum þannig að þetta var svona 3/4 sigur fyrir Sjálfstfl. og greinilegt að þeir hafa gengið í það sem uppeldislegt verkefni að kenna Framsókn að vera ekki með svona uppsteyt. Þeir skyldu kyngja þarna 2.500 kr. til viðbótar og halda sig á mottunni og það er niðurstaðan.

Herra forseti. Að lokum verð ég að segja eins og er að mér finnst viðbrögð hæstv. ríkisstjórnar við aðsteðjandi vanda í efnahags- og ríkisfjármálum því miður að langmestu leyti ótrúverðug. Það er að vísu þannig að alltaf er auðvelt að vera vitur eftir á. Það gildir um okkur öll og við sjáum nú betur en við gerðum á árunum 1998, 1999 og 2000, þau mistök sem menn þá gerðu, mest með aðgerðaleysi sínu gagnvart þeim skýru skilaboðum sem þá voru að koma, að taka ekki á málum fyrr. En þá verða menn að horfast í augu við stöðuna eins og hún er og reyna sitt besta til að glíma við hana. Ég hef ekki þá sannfæringu, því miður verð ég að segja, að menn séu með trúverðugum hætti að takast á við vandann þannig að vænta megi verulegs bata í þessum efnum, t.d. þegar á fyrri helmingi næsta árs eins og hæstv. ráðherrar sumir eru að spá. Ég held að fyrri helmingur næsta árs verði afar afdrifaríkur hvað varðar allar meginforsendur efnahagsmála hér í landinu. Þá mun að verulegu leyti ráðast hversu djúp og langvinn þessi efnahagsniðursveifla eða kreppa verður. Það hvernig tekst til í sambandi við verðlagsþróun, gengismál, kjarasamninga, vexti og fleiri þætti á næstu 6--9 mánuðum verður geysilega afdrifaríkt, herra forseti. Við verðum auðvitað að vona það besta en það er ekki hægt að segja að framganga hæstv. ríkisstjórnar auki manni sérstaklega bjartsýni í þeim efnum.