Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:30:22 (2783)

2001-12-08 11:30:22# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta líkar mér. Ég hefði bara helst viljað að öll ríkisstjórnin færi hér í andsvör.

Varðandi þetta með að hafa lítið upp úr krafsinu, þá hafði ég auðvitað gaman af því hvað hæstv. forsrh. var fljótur að finna þetta. Ég held að ég hafi alveg sett þetta í það samhengi sem því ber að vera. Þegar menn eru að beina spjótum sínum sérstaklega að einstökum hópum (Gripið fram í.) og upp úr því --- það skiptir hverfandi máli fyrir heildarfjárhag ríkisins en er tilfinnanlegt fyrir þá sem í hlut eiga, og það er í engu tilliti mjög skynsamlegt. Það var þetta sem ég var þarna að víkja að.

Varðandi það að bandormurinn sé yfirlýsing um efnahagserfiðleika --- það kemur væntanlega engum sem er meira en tvævetur í pólitík á óvart að ég orði þetta svona. Varðandi bandorminn hef ég notað orðið efnahagserfiðleikar. Ég hef reynt að forðast --- og ég hef aldrei notað orðið sem forsrh. tók sér í mun, að efnahagslífið væri brostið, guð forði mér frá því. Ég hef heldur ekki talað um kreppu. Ég hef yfirleitt talað um þá efnahagserfiðleika sem blasa við okkur og við verðum að horfast í augu við. Það er held ég hófsamlegt orð yfir þær aðstæður sem við stöndum núna frammi fyrir.

Ég hef sagt sem svo að maður voni að þetta þróist ekki yfir í alvarlega fjármálakreppu og eitthvert meiri háttar hrun í efnahagslífinu og það hljóta allir að gera. En auðvitað þekkjum við það því miður á Íslandi að oft má lítið út af bera og sveiflurnar í okkar litla hagkerfi geta verið mjög snöggar. Stundum er sagt að það sé ýmist í ökkla eða eyra hjá okkur Íslendingum. Ætli það eigi ekki dálítið við um efnahagslífið líka? Það er lítið og lokað og þar geta orðið mjög snögg veðrabrigði eins og dæmin sanna. Ég tel að því miður megi ósköp lítið út af bera til þess að þetta gæti leitt yfir í alvarlega fjármálakreppu og þá væntanlega aukið atvinnuleysi í framhaldinu.

Afgangurinn á fjárlögunum, herra forseti, er ekki til þess að státa sig af eða sanna að þar með sé allt í lagi. Við vitum hvernig hann er fenginn eða á að fást, með sölu eigna og bókhaldsbrellum.