Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:39:36 (2790)

2001-12-08 11:39:36# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það sem ég hef að sjálfsögðu áður rætt og fjallað um í þessum þingsal um innritunargjöld og skrásetningargjöld. Hér erum við að fjalla um fjárhæðirnar og nauðsyn þess að færa þær til samræmis við þróun verðlags á undanförnum árum.

Það kom fram í umræðum um þetta á sínum tíma --- hér var starfandi sem þingmaður einn af kennurum við Háskóla Íslands, sem var þingmaður Kvennalistans, og flutti þá ræðu um að það væri til mikilla hagsbóta fyrir Háskóla Íslands að skrásetningargjöldin væru vegna þess að það auðveldaði allt skipulag í skólastarfinu, og hún áréttaði nauðsyn þess fyrir nemendur að þeir gengju þannig til innritunar að það væri auðveldara að vinna allt verkið innan skólans. Þetta geta hv. þm. og aðrir séð í þingtíðindunum. Að sjálfsögðu má deila um upphæðina en um meginregluna og nauðsyn þess að hafa slíkar heimildir fyrir skólann eins og hér um ræðir finnst mér að eigi ekki að deila.

Varðandi efnisgjaldið sem hv. þm. nefndi sérstaklega og staldraði við hámarkið, 50 þús. kr., gefur það náttúrlega ekki rétta mynd. Við erum að hækka þetta hámark og það eru nefndar þarna sérstakar námsgreinar --- það er verið að auka svigrúmið fyrir nemendurna í þessum greinum og hv. þm. verður að hafa það í huga líka að nemendunum er sá kostur fyrir hendi að semja í námssamningum sínum um að þeir standi ekki undir þessum kostnaði heldur þeir meistarar sem þeir stunda nám hjá. Þannig er alls ekki réttlætanlegt að leggja þetta út eins og hér sé verið að auka sjálfkrafa gjaldtöku á nemendur.