Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:46:05 (2794)

2001-12-08 11:46:05# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, KVM
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:46]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Það er mikið rætt um bandorminn og ýmis gjöld sem verið er að setja á fólk og hækka. Ég ætla að láta vera að víkja mikið að því sem hefur verið talað um hér í dag en langar að minnast á 7. gr. frv. og þá 8. þar sem talað er um sóknargjöld og kirkjugarðsgjöldin. Mér sýnist gæta nokkurs misskilnings eða það megi lesa út úr þessu frv. að sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld séu hugsuð þannig að þau séu tekin úr ríkissjóði og þess vegna sé nú allt í lagi fyrir ríkisstjórnina að leggja frv. fyrir Alþingi um að klípa af þessu til þess að styrkja ríkissjóð og hafa öruggari rekstur í fjármálum ríkisins. Ég held að það sé rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússona talaði um, ef ég skildi orð hans rétt, að nokkrar blikur væru á lofti í efnahagsmálum.

Í greinargerð með frv. um skattana er talað um að markmið laganna sé að örva atvinnulífið og þegar svona er tekið til orða má lesa út úr því ákveðinn kvíða og áhyggjur yfir því að atvinnulífið þarfnist örvunar, eins og það sé farið að kulna og því þurfi að örva það með breytingu á skattalögum.

Árið 1987, ef ég man rétt, herra forseti, voru sett lög í landinu um innheimtu sóknargjalda. Þetta var þannig að allir sem voru í fríkirkjusöfnuðum og öðrum söfnuðum, í þjóðkirkjunni líka, voru rukkaðir um gjald af þeim sem voru í forsvari fyrir sóknirnar, gjaldkerum eða sóknarnefndarformönnum. Síðan var þessum lögum breytt og ríkið sýndi þá þessum trúfélögum velvild og tók að sér innheimtu þessara gjalda þannig að það sem í raun er verið að gera með innheimtu sóknargjalda er því ákveðin þjónusta við þessi trúfélög, þjóðkirkjuna og háskólann líka, þ.e. ríkið er að annast innheimtu á þessu. En þetta er ekki skattlagning eins og þegar hver maður greiðir tekjuskatt hérna. Þetta er allt annað. Það vildi ég að kæmi fram.

Með réttu hefðu sóknargjöldin átt að verða 606 kr. sem eiga að renna til safnaðanna. Ef við hugsum okkur mann, Jón Jónsson, sem er t.d. í Fríkirkjunni í Reykjavík, ef ég skil þetta rétt --- ég held að það sé réttur skilningur, herra forseti --- þá ætti hann að greiða og mun greiða 606 kr. vegna sóknargjalds í Fríkirkjuna og það verður tekið af honum. Og þessi maður sem er kannski áhugamaður um trúarlíf í söfnuði sínum vill náttúrlega að þessir aurar renni til kirkjunnar sinnar, til fríkirkjunnar sinnar eða til þess safnaðar sem hann tilheyrir ef hann er í þjóðkirkjunni. Við getum hugsað okkur bara einhverja litla sveitarsókn úti á landi sem á fullt í fangi með að greiða organista sínum laun eða kynda kirkjuna þegar messað er eða halda henni við, ég tala nú ekki um ef þetta er kirkja sem reist er fyrir 1918 en þá eru sérstakar kvaðir á henni vegna húsafriðunarlaga. Þó að húsafriðunarsjóður sé fyrir hendi þá hefur hann ekki getað komið til móts við allt það viðhald sem þarf að sinna við kirkjur landsins.

En það sem ríkisstjórnin ætlar sér með þessu er ekki í raun og veru að lækka sóknargjöldin til þeirra sem greiða þau heldur að taka af þeim, og hið sama gildir um kirkjugarðsgjaldið. Þar ætti hver maður að greiða 248,24 kr. en það var 232 kr. Innheimt verður þetta 248 kr. gjald en mismunurinn mun renna í ríkissjóð. Það er í raun verið að taka gjöld, félagsgjöld, af trúfélögunum og setja þau í ríkissjóð.

Þegar ríkisvaldið þarf að klípa af svona gjöldum sem munu náttúrlega bitna hvað verst á minnstu söfnuðunum sem standa undir gífurlega mikilvægu starfi á margan hátt --- og þá er ég að tala um safnaðarstarfið sjálft, eins og margir hv. alþingismenn og jafnvel hæstv. ráðherrar verða nú varir við á þessum tíma einmitt þegar þeim er boðið að tala á aðventukvöldum víða um land í kirkjum landsins --- þá er gott fyrir þá að líta í kringum sig þegar þeir fara með hugvekjurnar í kirkjunum og velta fyrir sér hvaðan aurarnir í þetta allt saman koma, í orgelin, í að greiða organistunum laun, í að kynda kirkjuna, í að halda henni við, í rekstur barnastarfs, fermingarstarfs, mömmumorgna og kóræfinga og margs konar mikilvægs starfs sem er sinnt af trúfélögum og íslensku þjóðkirkjunni.

Á það er ég að benda, herra forseti, þ.e. að ekki er verið að millifæra peninga í raun innan ríkissjóðs því að það er í sjálfu sér ekki þannig. Við gætum alveg hugsað okkur að fjmrn. mundi innheimta gjöld fyrir einhvern, við getum sagt Ungmennafélag Íslands af einhverjum hagræðingarástæðum og velvild í garð þess, og síðan færi ríkisstjórnin allt í einu að sjá plús í því að geta klipið af því.

Ef verið er að tala um innheimtuþóknun þá á það bara að koma fram. En þá gæti nú farið að versna í málinu því að þá gætu þeir sem gera skil á staðgreiðslu skatta og öðru farið að heimta innheimtuþóknun fyrir að rukka fyrir ríkissjóð.

Mér hefur borist bréf frá manni sem er áhugamaður um þessi mál og hefur áhyggjur af þessu. Hann skrifar, með leyfi forseta,:

,,Ég held áfram að hugsa um þetta mál. Innheimta ríkissjóðs og skil á sóknargjöldum til sókna og trúfélaga er ekki framkvæmd skattlagningar heldur meðferð á fjármunum sem sóknir og trúfélög eiga með réttu. Hins vegar má skilja þessa síðustu gerð sem skattalagningu á kirkjufólk eða sóknir. Sóknarnefndir fara með þá fjármuni og ráðstafa þeim, ekki stjórnvöld, og tel ég það vera andstætt lögum ef þessum fjármunum á að ráðstafa af öðrum en þeim sem innheimt er fyrir.

Kirkja og trúfélög eru undanþegin skatti. Ekki leyfist heldur að leggja á nýja skatta nema með óvefengjanlegri lagaheimild.``