Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 11:57:34 (2795)

2001-12-08 11:57:34# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[11:57]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Ef frv. verður samþykkt er því ætlað að skaffa ríkissjóði liðlega 1 milljarð kr. í heild sinni í auknar tekjur eða spöruð útgjöld á næsta ári.

Það sem sérstaklega vekur athygli er hvar og hvert þessar tekjur eru sóttar. Einnig vekja athygli, herra forseti, þau rök sem færð eru ítrekað í textanum sem fylgir lagagreinunum, þau rök sem eru talin fram til þess að réttlæta þessar hækkanir. Ég ætla, herra forseti, aðeins að byrja á að víkja að þessum rökum sem þarna eru tínd til og hvernig þau einmitt tengjast umræðunni og áherslunum í efnahagsmálum og fjármálum.

[12:00]

Lögð var á það rík áhersla fyrir nokkrum árum að slíta í sundur fasta tengingu á milli verðbólgu, verðlags, launa og annars sem olli sjálfvirkum hækkunum, verðbólgu og verðhækkunum. Ekki var aðeins mikilvægt að gera þetta tæknilega séð og talnalega heldur líka afar mikilvægt að útrýma þessum hugsanagangi, þeirri hugsun í samfélaginu að sjálfgert væri að hlutir hækkuðu stöðugt milli ára og aðrir fylgdu svo á eftir. Þess vegna var mikilvægt að taka þetta hugtak út úr umfjöllun um efnahags- og fjármál, ég tala nú ekki um í fjármálum ríkisins. Lögð var þung áhersla á það.

En hvað sjáum við hér í textanum sem fylgir þessu frv.? Þar er ítrekað eins og hér segir, með leyfi forseta, í 2. gr.: ,,Hér er þó aðeins lagt til að hámarki gjaldsins verði breytt í samræmi við þær verðlagsbreytingar, sem orðið hafa á tímabilinu ...`` Hér er vísað í hugtök sem lögð var þung áhersla á að tekin væru út úr þessu samhengi, þau yrðu ekki færð inn í efnahagsumræðuna á ný og notuð sem forsendur fyrir hækkunum á þjónustugjöldum. Ítrekað eru þessi hugtök notuð: ,,Ársmeðaltal vísitölu neysluverðs án byggingarkostnaðar var árið 1991 154,9 stig, en var í ágúst á þessu ári 214,1 stig.`` Þetta er sjálfsagt allt saman alveg hárrétt og öruggt. Hins vegar hefur verið lagt upp með það í stefnunni í efnahagsmálum að slíta eigi þennan hugsunargang burt og ekki að færa þennan hugsunargang aftur inn sem formleg rök. Auðvitað vitum við af þessu, að þetta er undirliggjandi. En við eigum ekki að draga þetta inn í lagatexta sem rök fyrir hækkunum á opinberri þjónustu eða þjónustugjöldum.

Herra forseti. Ég gagnrýni harðlega að meira að segja af hálfu forsrn. og hæstv. forsrh. sé verið að draga þessi hugtök aftur svo sterkt inn í samhengið. Hvar endum við ef þetta á að vera sá hugsunarháttur sem ræður breytingum í allri verðlagsþróun hér? Vissulega eru áhrifin til staðar en það er verulegt áhyggjuefni ef draga á þetta svona sterkt inn aftur, að vegna þess að vísitala og verðlag hafi hækkað svo og svo mikið þá verði ríkið að hækka eitt og annað. Það er hugsanagangur sem átti að vera fyrir löngu búið að afskrifa í efnahagsumræðunni. Þó að við vitum að verðlag hækki þá á ekki að hafa við það beina tengingu, það á að rökstyðja hækkunina og breytingarnar með öðrum hætti en hafa verðlagsbreytingar sem meginrök. Þetta vil ég gagnrýna hér í upphafi.

Þá vil ég næst, herra forseti, fara nokkrum orðum um skólagjöldin. Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að innritunargjald í framhaldsskólum hækki úr 6 þús. kr. í 8.500 og í stað fjárhæðarinnar 25 þús. kr. komi 50 þús. sem eru efnisgjöld, og sérstök efnisgjöld 12.500 kr. í 25 þús. kr. Þetta er hópurinn sem á að hlaupa undir bagga í ríkisbúskapnum. Það var þá reisn yfir því.

Í upphafi athugasemda við 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 80/1996, um framhaldsskóla, er heimilað að gera nemendum að greiða innritunargjald við upphaf námsannar eða skólaárs.``

Bara þetta orðalag ,,námsannar eða skólaárs`` opnar möguleikann á að skapa óvissu um innheimtu gjaldsins. Sumir skólar eru heilsársskólar og ekki endilega með formlega skiptum önnum og aðrir ekki. Er það bara skilið eftir opið að gjaldið megi innheimta við upphaf námsannar eða skólaárs?

Í öðru lagi er einnig vert að benda á, herra forseti, að það er talað um innritunargjald. Nú eru flestir nemendur jafnvel nokkur ár, nokkur missiri eða nokkrar annir í sama skóla. Maður gæti haldið að þá væru komnar nokkrar grunnupplýsingar inn í skólann um viðkomandi nemanda. En eins og þarna er gert ráð fyrir virðist þetta innritunargjald vera tekið í upphafi hvers árs eða hverrar annar, óháð því hvaða upplýsingar liggja þegar fyrir um nemandann. Rökin fyrir því að þetta sé sérstakt gjald til þess að skrá inn og búa til gagnagrunn um nemandann og viðhalda honum eru náttúrlega út í loftið. Þetta er skattheimta og það á bara að segja það hreint út en ekki vera með svona feluleik. Það er vilji ríkisstjórnarinnar að skattleggja nemendur. Hún á bara að segja það beint, hæstv. ríkisstjórn, frekar en að fela það í þessum texta.

Herra forseti. Þetta eru skilaboð til ungs fólks í landinu, skilaboð til þessa unga fólks sem þarf að leggja hart að sér og sækja nám um langan veg. Þetta er það sem ríkisstjórnin ætlar að nota sem skattstofn. Nemendur utan af landi sem verða að koma hingað til Reykjavíkur til þess að stunda nám, framhaldsskólanám, sérnám eða háskólanám --- haldið þið að þeir hafi ekki orðið varir við hækkun á húsaleigu og hækkun á öllum dvalarkostnaði? Jú. Haldið þið að við höfum ekki líka orðið vör við að tekjur fólks víða um land hafa ekki hækkað í því samhengi og í samræmi við kostnaðaraukann sem lendir á þessu unga fólki sem þarf að sækja hingað nám? Jú, þar breikkar bilið á milli. En samt skal skattleggja þetta fólk. Það skal skattleggja það með innritunargjöldum.

Hér er talað um hámarksgjald, að nauðsynlegt sé að setja hámarksgjald. Hvernig ætli skólarnir hafi nýtt sér þessa heimild sem áður var? Ætli þeir hafi ekki nýtt sér hámarkið sem verið hefur? Það væri fróðlegt að vita hvort þeir hafi ekki nýtt sér það almennt. Það væri líka fróðlegt að fá svar frá hæstv. menntmrh. um hvernig farið var með þetta innritunargjald og þessi kostnaðargjöld við ákvörðun á fjármagni samkvæmt reiknilíkani til skólanna. Hvaða upphæð var þar miðað við? Var ekki miðað við hámarksgjaldið? Mér er nær að halda að svo sé þannig að mér finnst tal um að skólar hafi eitthvert frjálst val til þess ómerkilegt. Ætli það sé ekki frekar í þá veruna að nýti þeir ekki hámarksgjaldið þá dragist saman til þeirra fjárveitningar frá ríkinu? Mér er nær að halda að svo sé. Hæstv. menntmrh. getur upplýst það ef svo er ekki.

Neðar í þessari grein, í athugasemdum við 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

,,Með þeirri breytingu er komið á móts við þarfir þeirra skóla, sem bjóða upp á tiltölulega dýrt verknám, t.d. í matvæla- og málmiðngreinum, enda hefur reynslan sýnt að gildandi hámark er ekki í samræmi við raunverulegan efniskostnað í þeim greinum.``

Herra forseti. Hvaða skólum er verið að senda þessi skilaboð? Er verið að senda Tækniskólanum þessi skilaboð? Tækniskólanum sem á í miklum fjárhagslegum vandræðum. Það hefur verið gagnrýnt af hálfu Ríkisendurskoðunar að menntmrn. hafi ekki tekið á skuldamálum hans og fleiri skóla. Hér er engu líkara en stjórnendum Tækniskólans og Menntaskólans í Kópavogi sé sagt: Við erum núna að hækka skólagjöldin sem þið megið taka upp í efnisgjöldin og bæta fjárhaginn. Eru þetta skilaboðin til Menntaskólans í Kópavogi, sem hefur verið með matvælabraut og hefur ekki fengið kostnaðinn við slíkt starfsnám eða verknám metið í hinu svokallaða reiknilíkani? Eru þetta skilaboðin til hans og til þjóðarinnar, um hug ríkisstjórnarinnar til starfs- og verknáms? Við hækkum bara heimildina hjá ykkur til að innheimta hærri skólagjöld, hærri efnisgjöld fyrir þá nemendur sem eru í verknámi og starfsnámi. Eru það skilaboðin til verknámsskóla og starfsnámsskóla, að þeir skuli bara gera þetta?

Ég vek athygli, herra forseti, á að fátt hefur verið meira umrætt í haust varðandi menntun, menntakerfið og menntamál hér á landi en staða framhaldsskólanna og það hvernig reiknilíkanið sem notað er til að skipta fé milli þeirra er óréttlátt og mætir ekki þessum kröfum, sérkröfum skólanna, sérstökum skilyrðum starfsmenntaskóla, verkmenntaskóla og heimavistarskóla. Þessir skólar hafa safnað upp halla á undanförnum árum vegna þess að þeir hafa ekki fengið þetta metið. Þeir hafa ekki fengið metinn þann kostnað sem liggur í verknámi og starfsnámi. Nú á að gefa þeim þá möguleika að hækka skólagjöldin.

Ég vil vitna í umsögn Ríkisendurskoðunar um hvernig farið er með framhaldsskólana. Þar stendur, með leyfi forseta, í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga árið 2001:

,,Mörg dæmi eru um stofnanir sem búa við skertar fjárveitingar sem nema tugum milljóna króna vegna halla fyrri ára og sem þær hafa velt frá einu ári til þess næsta. Til dæmis námu fjárveitingar til eins menntaskóla 333 millj. kr. í fjárlögum vegna 2001, en sú fjárheimild var skert um 122 millj. kr. vegna halla fyrri ára.`` --- Og áfram: ,,Á 30 fjárlagaliðum nemur skerðing fjárheimilda vegna halla fyrri ára 20% eða meiru af fjárheimild ársins. Í þeim hópi eru til að mynda fimm skólar ...`` Þessir fimm skólar bjóða einmitt upp á verknám og starfsnám.

Frá þessum skólum hafa borist skýrslur og yfirlýsingar um að þeir geti ekki haldið áfram eðlilegu skólastarfi nema að fá nauðsynlega úrlausn. Úrlausnina, herra forseti, er að finna í þessu frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, þ.e. að leyfa þeim að hækka skólagjöldin til að koma til móts við þarfir þeirra skóla sem bjóða upp á tiltölulega dýrt verknám í matvæla- og málmiðngreinunum, enda hafi reynslan sýnt að þar sé um tiltölulega dýrt verknám að ræða.

Herra forseti. Ég mótmæli svona vinnubrögðum. Ég mótmæli þessari pólitísku sýn sem birtist í menntamálunum gagnvart starfs- og tækninámi, að kostnaðurinn við það skuli færður á nemendurna, einmitt námið sem ástæða er til þess að styrkja og styðja við og veita fjármagn til. Því hvar stöndum við ef við ekki höfum þetta tæknimenntaða fólk?

Í svari hæstv. menntmrh. fyrir tveimur þingum síðan, við fyrirspurn hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um útskrift nemenda úr framhaldsskólum, kom fram að minna en helmingur nemenda lyki framhaldsskóla samkvæmt eðlilegu ferli, rétt um helmingur þeirra árganga sem þar voru teknir til, þ.e. þeirra sem fæddir voru 1975, 1976, 1977 og 1978. En þar er líka stór munur á milli landshluta. Á þeim svæðum á landinu sem ekki hafa framhaldsskóla í heimabyggð er hlutfallið hæst, bæði þeirra sem ekki fara í framhaldsskóla og líka þeirra sem falla eða ljúka ekki framhaldsskólaprófi. Þetta innritunargjald og þessi efnisgjöld eru innheimt og nemandi borgar hvort sem hann af einhverjum ástæðum verður að hætta námi eða lýkur ekki prófum.

Þetta er gífurleg skattlagning á þá einstaklinga sem hér eiga í hlut og sýnir ótrúlega vanvirðu gagnvart starfsnámi og verknámi í landinu. Það ber að harma að ungt fólk sem menntar sig og sækir sér þekkingu og styrk til að takast á við verkefni framtíðarinnar, nemendur úr dreifbýli og þéttbýli --- þetta lendir harðast á nemendum úr dreifbýli því að kostnaðurinn af þeim er mestur --- skuli vera skattstofninn sem nýttur er hér til að létta undir eyðsluna hjá ríkissjóði sem ver háum upphæðum í aðra og fullkomlega ónauðsynlega hluti.

[12:15]

Herra forseti. Að síðustu vil ég aðeins taka undir með hv. þm. Karli V. Matthíassyni um það hvernig seilst er eftir því fjármagni sem á að ganga til kirkjunnar og trúfélaga í formi sóknargjalda og kirkjugarðsgjalda. Í raun er þarna verið að skerða þessar væntanlega samningsbundnu hækkanir sem hefðu átt að eiga sér stað. Það er í raun verið að skerða framlögin um hækkun á verðlagsforsendum fjárlagafrv. á milli ára. Við erum að skerða þarna kannski um 6--8%.

Þessi trúfélög, kirkjan og öll trúfélögin, gætu kannski skilið þetta ef verið væri að lækka skattgreiðslur þeirra sem eru að greiða þessi gjöld sem því nemur. En svo er ekki, heldur er ríkið hreinlega að taka peninga sem því er aðeins falin umsýsla með í innheimtu en hefur í rauninni engan rétt til að taka með þessum hætti. Þetta er afar óréttlát ráðstöfun.

Herra forseti, að lokum: Það er dapurlegt að hæstv. ríkisstjórn, og sýnir pólitískan vilja hennar, að sótt skuli fjármagn til nemenda og fólks sem þarf að sækja læknisþjónustu til heilbrigðisstofnana.