Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:18:17 (2796)

2001-12-08 12:18:17# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJóh
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:18]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Það tilheyrir, alla vega síðan ég kom til þings, jólaönnum hjá okkur þingmönnum að skera niður alls konar lögbundin framlög til þjóðþrifamála undir þessum lið, Ráðstafanir í ríkisfjármálum. Það hafa verið örlög mín að vera þingmaður undir ríkisstjórn hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Á því tímabili höfum við ævinlega tekist á við það t.d. að skerða framlög til endurbóta menningarbygginga. Það er alltaf sérstök árleg jólagjöf Alþingis til landsmanna. Það mun víst breytast á næsta ári. En ekki mun látið af þessu núna og hér er gert ráð fyrir 335 millj. renni í ríkissjóð á árinu 2002 af þessu lögbundna framlagi sem á að fara til endurbóta menningarbygginga og Þjóðarbókhlöðu. Ég verð að segja að þetta kemur auðvitað niður á viðhaldi þessara bygginga.

Við höfum horft upp á Þjóðminjasafnið núna í nokkur ár. Það átti að taka eitt ár að taka það í gegn, en það hefur dregist úr hömlu og nú er verið að tala um að hugsanlega verði hægt að flytja þar inn árið 2003. Þó er það vafamál því að alla vega síðast þegar ég vissi var ekki komið neitt fjármagn til að endurskipuleggja nýja sýningu í safninu á því ári. Jafnvel þó að við getum kannski haldið þar kokteilboð 2003 til að halda upp á að viðgerð sé loksins lokið þá er mjög ólíklegt að hægt verði að opna þar nýja sýningu.

Mig langar sérstaklega að koma að innritunargjöldunum sem ríkisstjórnin hefur fundið sér sérstaklega til að næla í pening á þessum síðustu og verstu tímum. Hér er alveg furðulegur málflutningur þar sem alltaf er verið að vísa til að byrjað hafi verið á einhvers konar gjaldtöku árið 1991. Svo er sest við að reikna alls konar verðlagsbreytingar sem hafa orðið í landinu frá því 1991 til að réttlæta hækkun þessara gjalda.

En það gleymist að lög sem settu fætur undir þessa gjaldtöku voru sett hér, að mig minnir, um framhaldsskóla árið 1997 og um Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands 1999. Þá voru í raun sett þau lög sem heimila þessa gjaldtöku sem alltaf er vísað til. Þá er talað um sérstök innritunargjöld og það var margfarið hérna yfir það, bæði í nefnd og í þingi, í aðdraganda samþykktar þessara laga að hér yrði einungis um að ræða gjöld vegna kostnaðar við innritun, sannanlegs kostnaðar við innritun.

Það var alveg ljóst við umræðuna að hæstv. menntmrh., sem ég þakka fyrir að vera viðstaddur þessa umræðu og hlusta á með athygli, marglýsti því yfir að hann væri maður skólagjalda og tryði á uppeldisgildi skólagjalda, þ.e. að ef menn borguðu fyrir nám sitt þá stæðu þeir sig þeim mun betur.

En hæstv. menntmrh. fékk nú ekki þessum sérstöku áhugamálum sínum framgengt að þessu sinni og samþykkt var að þessi innritunargjöld, bæði í framhaldsskóla og háskóla, mættu að hámarki nema hvað varðaði framhaldsskólann 6.000 kr. á önn en hvað varðaði háskólann voru það 25.000 kr. á ári.

Ég veit að í framhaldsskólum sem ég þekki vel til í, fjölbrautaskólum, er þetta skráningargjald, þetta uppeldisgjald, innheimt tvisvar á ári. Því til viðbótar þurfa þessi börn svo að borga mörg hver fallskattinn fræga sem hefur líka mikið uppeldisgildi eftir því sem sumir hafa haldið fram. Það er alveg sérstaklega hægt að þakka það að ekki er gert ráð fyrir því hér við samþykkt þessara ráðstafana í ríkisfjármálum að sú tekjulind ríkissjóðs sé dýpkuð, þ.e. fallskatturinn. En hér er verið að gera ráð fyrir að hækka innritunargjöld og um ekkert smáræði, í 8.500 kr. eða um 41,7%, og það er réttlætt með því að reikna þetta aftur til 1991. Ég tel að það sé rangt.

En þó er enn verra að hér er sagt að þessi breyting geti skilað framhaldsskólum og háskólum landsins einhverjum tekjum. Talað er um það hér að þessi breyting geti skilað framhaldsskólunum 38,4 millj. í auknar tekjur og að breytingin á efnisgjöldunum geti skilað 10 millj. í auknar tekjur. Þetta er rangt. Þetta er hreinlega rangt vegna þess að þessi gjöld dragast frá reiknilíkaninu þannig að því hærri sem þessi gjöld eru því lægri ríkisframlög fær skólinn. Þarna er því alls ekki um það að ræða að þessir skólar séu að fá sem þessu svarar auknar tekjur.

Ég hef eina alveg sérstaka spurningu í þessu sambandi: Er samsvarandi hækkun eða samsvarandi gjald og þetta dregið frá þeim framlögum sem ætluð eru til einkaskóla landsins, einkaháskóla t.d. sem fá sömu framlög á hvern nemanda og ríkisháskólarnir? Er ætlast til að samsvarandi framlög og þetta séu dregin frá þeirra hlut? Ég hef ekki séð þess merki við lestur minn á fjárlögum landsins.

Ég vona eftir þau gleðitíðindi sem forsrh. flutti landi og þjóð hér í morgun um að það væru komin, að því er hann taldi, afskaplega góð tilboð í Landssímann og mundi það nú gjörbreyta stöðu í ríkisfjármálum frá því sem nú væri, að unnt verði að slaka eitthvað á þessu, og ég vil segja, a.m.k ekki leyfa að innritunargjöld séu innheimt oftar en einu sinni á ári af sömu nemendunum í framhaldsskólum.

Hæstv. menntmrh. kom nokkuð inn á það í máli sínu að til bóta væri að innheimta eitthvert slíkt skráningargjald við innritun til að koma í veg fyrir að fjöldamargir færu að innrita sig sem ekki ætluðu svo raunverulega að stunda nám og að eytt væri miklum peningum í að skipuleggja nám fyrir þá sem létu svo ekki sjá sig. Ég skal viðurkenna að það voru einu rökin í þessari umræðu sem ég féllst á, þ.e. að réttlætanlegt væri að innheimta eitthvert lágt innritunargjald --- þá er ég ekki að tala um neinar slíkar upphæðir eins og hér er verið að leggja til --- til að koma í veg fyrir mikinn fjölda falskra innritana, sem vissulega riðla skipulagningu á skólastarfi. Það er þó satt.

Að lokum langar mig aðeins að koma inn 9. gr. um sjúkrahótel. Hér hefur komið fram að þessar 10 millj. séu gjald sem í raun hafi verið innheimt árum saman, en með þessari lagasetningu sé verið að skjóta stoðum undir innheimtuna. (KHG: Styrkari stoðum.) Já, styrkari stoðum, segir hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson.

Ég verð að segja að sjúkrahótel eiga að vera skilgreind sem sjúkrahús. Hins vegar er þetta ein leið sem við hefðum kannski átt að nota miklu meira til að draga úr kostnaði við sjúkrahúskerfið í landinu, þ.e. að hafa meira af slíkum sjúkrahúsum. Þó þetta hafi verið kallað hótel þá finnst mér nú ekki tilefni til þess að hætta að skilgreina slíkar stofnanir sem sjúkrahús og fara í staðinn, eins og það er orðað í skýringum, að innheimta hóflegt gjald fyrir dvöl sjúklings á sjúkrahóteli, svo sem vegna fæðiskostnaðar.

[12:30]

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég sé ekki betur en þó að hægt sé af stað farið sé verið að opna leið til að láta borga mikinn hluta af kostnaðinum sem til fellur við dvöl á slíku sjúkrahúsi. Ég mótmæli því að sú leið sé farin.

Varðandi það sem ekki kemur fram í frv., um gjöld af sjúklingum, t.d. vegna komugjalda og sérfræðiþjónustu, fór það mjög fyrir brjóstið á mér að heyra í gær frásögn um unga 18 ára stúlku sem hefur veikst af krabbameini og er að fara í fyrstu meðferð sína núna í desember og þarf að borga 18 þús. kr. En hún þarf að fara í aðra meðferð í janúar og af því að þá er komið nýtt ár, reikningsár, þá þarf hún að borga aðrar 18 þús. kr.

Væri ekki hægt að setjast yfir það í hv. heilbr.- og trn. að reyna að setja undir það að t.d. fólk sem fer í slíka meðferð, mjög alvarlega meðferð sem tekur á fólk á sál og líkama --- ekki bara þá sem í hlut eiga heldur alla fjölskylduna. Væri ekki hægt að komast hjá því að viðkomandi þurfi líka að setja út peninga í slíkum tilfellum? Mér finnst þetta ekki þjóðinni sæmandi.