Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:32:05 (2797)

2001-12-08 12:32:05# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins að það komi fram að ekki er verið að tala um að gjaldið í framhaldsskólunum sé 8.500 kr. á önn. Eins og fram kemur eru þetta 8.500 kr. á ári. Það er ekki verið að tala um að menn borgi 8.500 kr. á önn heldur er þetta skólaárið eða árið sem um er að ræða.

Það hefur komið fram, og ég þakka hv. þm. fyrir að árétta það sem ég sagði, að við erum í raun að deila frekar um krónur en skipulag. Ég vil leyfa mér að vitna í hv. þm. sem ég nefndi hér til sögunnar fyrr í þessum umræðum, hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur, sem sagði hér á þingi 13. des. 1995, með leyfi hæstv. forseta:

,,En við skulum halda okkur við skráningargjöld og þá vil ég sem starfsmaður háskólans vekja athygli á því að það hefur haft jákvæð áhrif innan háskólans að hafa skráningargjöld. Það skapast meiri festa. Nemar skrá sig ekki að óþörfu. Það er auðveldara fyrir kennara að panta bækur og annað slíkt. En mér er stórlega til efs að þessi upphæð sé hin rétta ...``

Þetta er kjarni málsins. Allir sem koma að skólastarfi eru sammála um nauðsyn þess að hafa slíka gjaldtöku. Við erum því að deila um fjárhæðir og það er matsatriði hverju sinni. Það sem við erum hér að leggja til er að þessar fjárhæðir haldist í hendur við þróun verðlagsins og verðlagsþróunin verði látin ráða, sé það ekki gert þá mun sá kostur sem menn sjá við þessi gjöld hverfa.