Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 12:35:03 (2799)

2001-12-08 12:35:03# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[12:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Í umsögn um frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá fjmrn. kemur fram, með leyfi hæstv. forseta:

,,Lagt er til að lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla, verði breytt þannig að hámarksgjald sem skólanefndum framhaldsskóla er heimilt að láta hvern nemanda greiða fyrir innritun hækki úr 6.000 kr. í 8.500 kr. á ári``

Þetta er sú regla sem stuðst er við og það er á þeim forsendum sem fjmrn. leggur mat á fjárhagsleg áhrif þeirrar ákvörðunar sem við erum hér að fjalla um.

Varðandi áhrifin á stöðu einkarekinna háskóla þá verður að líta til þess að þeir skólar starfa á öðrum forsendum en ríkisreknu háskólarnir. Það er gert samkomulag við þá og þingmenn geta kynnt sér það á hverju það byggist. Þar eru skólagjöldin allt upp í 350 þús. kr. og skortir ekki nemendurna. Það er meiri aðsókn að þessu námi en skólarnir geta annað. Þannig að það er fróðlegt fyrir hv. þm., þegar þeir eru að ræða um þetta að velta því fyrir sér hvaða áhrif þetta hefur á skólastarfið, að velta því fyrir sér hinum nýju tækifærum sem gefast við að við höfum opnað leiðina fyrir nemendur inn í þessa einkaháskóla. Það er með öllu ástæðulaust að gera það sem þeir eru að gera tortryggilegt í ljósi þess sem við erum að ræða hér. Ég vil benda hv. þm. á að lesa t.d. það sem rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, Runólfur Ágústsson, hefur skrifað um þessi mál og hvernig hann lítur á þetta frá sínum sjónarhóli miðað við stöðu Háskóla Íslands.