Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 13:00:40 (2804)

2001-12-08 13:00:40# 127. lþ. 47.1 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[13:00]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vek athygli á því að hv. þm. hafði hvorki kjark né kraft til þess að svara því sem hér var fyrst og fremst beint að honum. Það er um hina pólitísku sýn sem birst hefur í menntamálum og birtist hvað harðast núna. Skólar, verknámsskólar sitja uppi með skuldir og skerta framtíðarmöguleika en á þeim er ekki tekið í þessu fjárlagafrv.

Nemendur af Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, sem sækja mest í verklegar greinar, eru skattlagðir. Þeir skulu skattlagðir sérstaklega. Er þetta nú reisn?

Hv. þingflokksformaður Framsfl., Kristinn H. Gunnarsson, gerði jú kannski litla tilraun innan þingflokksins til að mótmæla þessu en var keyrður niður. Það var nú allt og sumt, allur dugurinn.

Stefna ríkisstjórnarinnar er að skattleggja þetta unga fólk, ungt fólk sem er að sækja í verknám og starfsnám og það fólk kemur sérstaklega frá hinum dreifðu byggðum úti um land. Er það nú reisn.