Fjárlög 2002

Laugardaginn 08. desember 2001, kl. 15:55:28 (2863)

2001-12-08 15:55:28# 127. lþ. 47.3 fundur 1. mál: #A fjárlög 2002# frv. 158/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 127. lþ.

[15:55]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er verið að skerða framlag til rannsókna við Háskóla Íslands og hér er einnig skert framlag til byggingarframkvæmda og þannig brugðið fæti fyrir háskólann sem hefur lagt kapp á að ljúka framkvæmdum fyrir Náttúrufræðihúsið í Vatnsmýrinni. Þar rísa nú hins vegar stórhýsi á vegum einkafyrirtækja og gerist sú spurning áleitin hvort þetta sé meðvituð tilraun af hálfu ríkisstjórnarinnar til að torvelda Háskóla Íslands og öðrum opinberum stofnunum einnig að byggja yfir sig og þröngva þeim til að gerast leiguliðar á húsamarkaði. Það eru mörg fyrirtæki farin að gera út á þessa stefnu ríkisstjórnarinnar með einkaframkvæmd af ýmsu tagi. Þetta er miklu dýrara fyrir viðkomandi stofnanir, miklu dýrara fyrir ríkið, miklu dýrara fyrir skattborgarann en þetta er stefna ríkisstjórnarinnar að því er virðist. Ég mótmæli því og greiði atkvæði gegn þessum niðurskurði.