Lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 13:41:26 (2900)

2001-12-11 13:41:26# 127. lþ. 48.95 fundur 221#B lokaumræða um frv. um tekjuskatt og eignarskatt o.fl.# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[13:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju minni með að tekist hefur þríhliða samráð milli ríkisstjórnarinnar og síðan aðila vinnumarkaðarins. Þetta er eitt af því sem við í stjórnarandstöðunni höfum knúið á um að gerðist og vonum seinna greip ríkisstjórnin til þess ráðs. Við skulum vona að þetta verði til þess að það takist að ná tökum á verðbólgunni og það takist að grípa til viðbragða sem leiði til þess að vextir lækki.

Herra forseti. Þessar stundirnar eru ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins að ræða breytingar sem varða frv. sem við erum að fara að samþykkja hér á eftir. Að minni hyggju hafa farið fram ákaflega málefnalegar og skemmtilegar umræður um þær skattalagabreytingar sem hér hafa legið fyrir. Eitt af því sem harðast hefur verið deilt um er einmitt hækkun tryggingagjaldsins.

Það liggur fyrir að þeim vágesti sem við erum öll að berjast gegn, verðbólgunni, er gefið fóður með þeirri hækkun. Það liggur fyrir samkvæmt þeim stofnunum sem ríkisstjórnin sjálf hefur látið reikna það út og það liggur fyrir að eitt af því sem verkalýðshreyfingin leggur hvað mesta áherslu á er að böndum verði komið á verðbólguna. Það liggur fyrir að ríkisstjórnin er núna að ræða ákveðnar hugmyndir hennar í þessa veru. Þessar hugmyndir tengjast einmitt tryggingagjaldshækkuninni sem á að fara að samþykkja á eftir.

Þess vegna segi ég, herra forseti, að það er fullkomlega eðlileg ósk af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að umræðunni verði frestað. Ég sé ekkert sem mælir gegn því að við frestum henni til morguns og það yrði að sjálfsögðu miklu áferðarfallegra og væri miklu meiri sátt um það ef mönnum tækist þannig, á morgun eftir farsælar viðræður milli þessara þriggja aðila í dag, að lenda þessu máli endanlega. Ég held að það væri ákaflega jákvætt og það sýndi að hér væri þingið allt, ekki bara stjórnarliðið heldur stjórnarandstaðan líka, á sama bát að róa í sömu átt.