Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 15:21:35 (2918)

2001-12-11 15:21:35# 127. lþ. 48.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er áhyggjulaus og upplitsdjarfur almennt. Það er gott fyrir hann og gott fyrir okkur hina að hv. þm. líður vel. Ég var nákvæmlega í ræðu minni að fara um þetta svipuðum orðum og formaður Samfylkingarinnar gerði hér í andsvari, að ég teldi að við gerðum best og réttast í því að sameina sem mest kraftana í stjórnarandstöðunni til að andæfa ríkisstjórninni og því sem hún er rangt að gjöra. Það er af nógu að taka. Það er ekki eins og það vanti.

En auðvitað tek ég eftir því þegar það gerist ítrekað að einstakir hv. þm. Samfylkingarinnar lenda á köflum í því að eyða jafnvel meiri orku í að reyna að finna snúningsfleti á málflutningi okkar og frammistöðu. Ég hef t.d. í höndunum útskrift af þætti sem varaformaður Samfylkingarinnar var í á Skjá 1 í gær þar sem hún fer orðum um okkur og skattstefnu okkar sem mér þykja óþörf, og má ég þá ekki segja það eins og það er?

Ég er ekki að reyna að kenna hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni þingmennsku eða pólitíska framgöngu. Þá dul ætla ég mér ekki. En ég leyfi mér að hafa skoðun á því hvernig sterkast sé að við stöndum hér að málum og hvernig ég hefði gjarnan viljað sjá þessa stjórnarandstöðu stilla sem allra mest saman strengi og vera samstiga í áherslum sínum, nefndarálitum og framgöngu hér í þinginu. Þar hefði á köflum mátt betur fara. Það er bara þannig. Ég ætla ekki að hafa um það fleiri orð því að þá værum við farin að gera okkur sjálfum lítið gagn og ég farinn að falla í þá gryfju sem ég er að biðja menn að varast, að vera ekki að skemmta skrattanum, ef má það orða svo. Ég meina það þá ekki eða vísa neitt sérstaklega til hæstv. fjmrh. þó að hann sitji hér undir umræðum.