2001-12-11 17:05:32# 127. lþ. 48.5 fundur 216#B starfsemi Byggðastofnunar og framvinda byggðaáætlunar, munnleg skýrsla iðnaðarráðherra# (munnl. skýrsla), KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 48. fundur, 127. lþ.

[17:05]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég mótmæli því að ég sé hér í einhverju sífelldu niðurrifstali. Ég vísa því til föðurhúsanna. Ég er hins vegar að benda á það sem betur mætti gera og það sem betur mætti fara í málefnum byggðarlaga og í landsbyggðarstefnu stjórnvalda.

Ég gerði það í erindi mínu áðan og benti á fullt af atriðum þar. Það er ekki rétt sem hv. þm. segir, ég tek dæmi af fjarvinnsluverkefni sem hefur gengið mjög vel og sem er til eftirbreytni og sem sýnir að þetta er hægt. Og bara rétt til að halda áfram að vitna í orð ráðamanna, þá sagði hæstv. forseti þingsins, Halldór Blöndal, í ríkissjónvarpinu eftir borgarafund í Ólafsfirði þann 6. mars árið 2000, með leyfi forseta, í tali um flutning fjarvinnsluverkefna á vegum Hagstofunnar til Ólafsfjarðar þar sem stofnað var fyrirtæki þar um og allir biðu eftir að starfsemin kæmi til viðkomandi staðar:

,,Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um það að flytja fjarvinnsluverkefni hingað til Ólafsfjarðar og það verður staðið þannig að þeim að það verði traustur grunnur og hann standi til frambúðar.``

Ég veit ekki, herra forseti, hvaða orð ætti að hafa um það sem þarna var sagt og það sem átti að gera og var ekki gert. Þarna var stofnað fyrirtæki, Íslensk miðlun, og eigum við að rifja aðeins upp hvernig það fór vegna þess að verkefnin komu ekki?

Ég held að langbest sé að minnast flutninga fjarvinnsluverkefna á vegum ríkisstjórnarinnar eða ríkisstofnana út á land með því að láta þær 24 sekúndur sem ég á eftir í þessu andsvari renna út.