Tekjuskattur og eignarskattur o.fl.

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 18:55:29 (2978)

2001-12-11 18:55:29# 127. lþ. 49.1 fundur 114. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur o.fl.# (skatthlutföll, verðbólguleiðréttingar, einstaklingar í atvinnurekstri o.fl.) frv. 133/2001, GunnB
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Gunnar Birgisson:

Virðulegi forseti. Í fyrri ræðu minni var ég þar kominn að ég taldi að þetta frv. mundi verða mikið heillaspor fyrir þjóðina.

Rætt hefur verið um nokkur atriði í því, m.a. það sem snýr að sveitarfélögum. Þrjú atriði í þessu máli hafa áhrif á sveitarfélögin, þ.e. að einkarekstur er færður undir einkahlutafélög, hækkun tryggingagjalds og síðan skattfrelsi húsaleigubóta. Ljóst er að sveitarfélögin verða af einhverjum tekjum vegna þessa, að vísu ekki mikið vegna skattfrelsis húsaleigubóta, meira vegna tryggingagjaldsins en þegar kemur að breytingu á einkarekstri í einkahlutafélög er um talsverðar upphæðir að ræða.

Það var rangt með farið hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún sagði að þetta mundi þýða 1.300 millj. kr. fyrir Reykjavíkurborg. Svo er ekki, þetta eru 1.300 millj. fyrir sveitarfélögin, þ.e. samkvæmt mati Reykjavíkurborgar. Ég er svo sem sammála því að oft eru samþykktir lagabálkar hér í þinginu án þess að mikið sé talað við sveitarfélögin en ég hef ekki áhyggju í þessu tilfelli þar sem menn hafa töluvert mikinn tíma fyrir sér á næsta ári til að semja um þetta. Ég hef haft samband við forsvarsmenn sveitarfélaganna og er rórri eftir að hafa rætt við þá. Ég treysti því vel að nást muni samkomulag við ríkisstjórnina um tekjustofna sveitarfélaga vegna þessara aðgerða. Um það er svo sem ekki meira að segja en var kannski mikið úr því gert að þetta væri alvarlegt mál. Ég held að þetta sé auðleyst mál og í raun til mikilla bóta þegar menn eru búnir að ná saman um það, að fá hér aukinn fjölda fyrirtækja inn í landi. Það mun leiða til bættar stöðu sveitarfélaganna í framhaldinu.

Hins vegar hefur það ekki verið metið og kannski lítið verið rætt, sérstaklega af vinstri mönnum hér, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að með auknum fjölda fyrirtækja til landsins aukist atvinnutækifærin um leið. Það virðist ekki skipta máli í því sambandi. Rétt er að fara hér yfir það sem stóð upp úr í ræðunum hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði þetta vanhugsaðar tillögur. Það er með ólíkindum að menn haldi slíku fram þegar jafnróttækar tillögur í skattafrumvarpi eins og hér eru, til velsældar fyrir landið, eru lagðar fram.

Hins vegar var ræða hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar merkilegri. Inntakið í ræðu hans var að hækka yrði skatta á fyrirtæki. Hann vildi alls ekki að fyrirtæki kæmu frá útlöndum, það yrðu að vera íslensk fyrirtæki. Hann vildi setja á umhverfisskatta. Hann sagðist á móti skattalegum undirboðum en hins vegar er ekki verið að tala um nein undirboð í þessu sambandi. Hann ræddi einnig um að fyrirtækin greiddu ekkert til sveitarfélaganna. Ég vil leiðrétta hv. þm. í því sambandi. Fasteignaskattar af fyrirtækjum í sveitarfélögum eru talsvert hærri en fasteignaskattar íbúðarhúsnæðis og í flestöllum sveitarfélögum er þetta einhvers staðar í kringum 1,3--1,628%, meðan íbúðarhúsnæði er í 0,32--0,367% af fasteignaverðmæti, þ.e. fimmfalt á við íbúðarhúsnæði. Það er ljóst að fyrirtækin eru náttúrlega að greiða með þessu fyrir aðstöðu sína í sveitarfélaginu og ríflega það.

Að missa aðstöðugjaldið var tekjutap fyrir sveitarfélögin, það er alveg laukrétt hjá hv. þm. Á móti fengu menn í staðgreiðslu en þó ekki nærri nóg til að vega það upp, það er alveg rétt. Ég tel samt að fyrirtækin greiði mjög ríflega fyrir aðstöðu sína í sveitarfélögum. Það er ekki rétt hjá honum að fyrirtækin greiði ekki til sveitarfélaganna. Hjá flestöllum stærri sveitarfélögum er fasteignaskattur fyrirtækjanna orðinn meiri en helmingurinn af fasteignaskattstekjum sveitarfélaganna, hinna stærri, og jafnvel meira í sumum sveitarfélögum úti á landi.

Mér fannst mjög merkilegt að heyra þá eiga orðastað, þá félaga og gömlu samherja, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Steingrím Sigfússon. Þeir voru nú ekki aldeilis sammála um skattastefnuna og kvörtuðu hvor undan öðrum. Maður spyr sjálfan sig hvernig samstarf slíkra flokka gæti átt sér stað. En þeir voru þó sammála um það, hv. þingmenn, að sitja hjá við þetta frv. og helst að vera á móti því.

Mér þykir mjög alvarlegt þegar menn taka slíka afstöðu á móti framfaramáli í samfélagi okkar. Þá segja menn: Nú skulum við bara skattleggja fyrirtækin, fara aftur til 1989 þegar vinstri menn --- þá var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í ríkisstjórn --- voru með 50% tekjuskatt á fyrirtækin. Það væri kannski rétt að láta þá svara fyrir það hvað það hafi skilað ríkissjóði miklu. Svo langt man ég til baka að menn höfðu miklar áhyggjur af því að þessi tekjustofn skilaði langtum minna en ætlast var til.

Það virðist hins vegar stefna Vinstri grænna og hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að hafa háa skatta á fyrirtæki, háa skatta á einstaklinga, mikla samneyslu og að stóri bróðir ráði öllu. Svo vilja þeir Ísland úr NATO og herinn burt í ofanálag.

Mér finnst að Vinstri grænir skuldi hinum almenna borgara í þessu landi skýringar á skattastefnu sinni, hvað það þýði sem þeir eru að segja. Þeir vilja leggja hér á skatta, helst á þéttbýlið og færa fjármagnið út til landsbyggðarinnar, skilst mér.

Það sem þetta frv. gerir ráð fyrir er að lækka skatta á fyrirtækin til að reyna að örva atvinnustarfsemi í landinu, til að reyna að fjölga atvinnutækifærum í landinu og auka tekjur samfélagsins til að geta staðið undir velferðarkerfinu í framtíðinni. Þá segja vinstri flokkarnir: Þetta er ekki nógu gott. Og ég held að Samfylkingin geri þetta á móti betri samvisku. Ég held að hún hafi einhvern veginn farið vitlaust fram úr í þessu máli, þeir hljóta samkvæmt stefnu sinni að vera fylgjandi þessu frv.

Gagnrýnt hefur verið að hér sé ekki allt á hreinu í frv., tryggingagjaldið sé á floti og allt það. Á næsta ári, árið 2002, er reiknað með skattalækkun upp á 3 milljarða kr. Það er aðallega á einstaklinga, skattalækkanir á einstaklinga upp á 3 milljarða kr. Árið 2003 kemur hins vegar skattalækkun á fyrirtækin og hækkun tryggingagjaldsins. Það kemur ekki fyrr en þá þannig að þangað til vinnst nægur tími til að leiðrétta allt í þessu máli.

Eins og ég segi enn og aftur er þetta frv. mikið framfaraspor fyrir okkur og samfélag okkar. Eðlilega styð ég það með áorðnum framkomnum breytingum frá meiri hluta efh.- og viðskn. Ég held að við getum litið bjartsýn fram á veginn þegar frv. er orðið að lögum.