Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:48:31 (3001)

2001-12-11 19:48:31# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það kann vel að vera rétt hjá hv. þm. sem hér talaði áðan að þetta fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til geri mönnum auðveldara um vik að verðstýra tóbaksneyslu, það kann að vera. (ÞBack: Gæti gert það.) Gæti gert það, segir hv. þm. Ef svo er þá tel ég að það sé af hinu góða.

Tvennt sem vildi ég láta koma fram við þessa umræðu af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar. Við styðjum þetta mál án fyrirvara. Ég tel að við þetta tækifæri hefði verið í lagi að velta því fyrir sér, ekki síst í tengslum við þær efnahagsráðstafanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til andspænis þeirri stöðu sem er uppi í efnahagsmálum, að hækka verð á tóbaki. Það hefur margsinnis komið fram að verð á tóbaki ræður miklu um neysluna. Það hefur margsinnis komið fram að tengsl eru á milli tóbaksneyslu ungmenna og neyslu þeirra á harðari vímuefnum og erfiðari þegar vindur fram síðar á lífsleiðinni. Ég held þess vegna að eitt af því sem við hljótum að velta fyrir okkur frá sjónarhóli forvarna á heilbrigðissviði sé einmitt að verðstýra neyslunni. Ég tel að það hefði verið heillavænlegra fyrir hæstv. ríkisstjórn að velta fyrir sér hækkun á þessu en t.d. ýmsu því sem hún hefur verið að grípa til á allra síðustu dögum.

Hæstv. ríkisstjórn hefur talið nauðsynlegt t.d. að hækka gjöld á námsmönnum við háskóla og við framhaldsskóla á Íslandi. Þessar hækkanir hafa áhrif á verðlag. Þannig er ekki hægt að halda því fram, herra forseti, að með því að hækka fremur tóbak en t.d. skólagjöld sé verið að kalla fram stríðari verðlagsáhrif, síður en svo. Það hefði að öllu leyti verið jákvætt, herra forseti, að fara þá leið að hækka fremur tóbaksverð en skólagjöld. Það hefði í fyrsta lagi hvatt menn fremur til þess að fjárfesta í menntun og í öðru lagi hefði það til langs tíma litið leitt til sparnaðar hjá hinu opinbera. Minni tóbaksneysla hefur sannanlega í för með sér talsvert minni kostnað fyrir heilbrigðiskerfið.

Í öðru lagi, herra forseti, vil ég að það komi skýrt fram að ég og flokkur minn erum andsnúin því að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins verði einkavædd. Við gengum þess vegna sérstaklega eftir því hvort það fyrirkomulag sem hér er verið að leggja til, þ.e. upptaka sérstaks tóbaksgjalds, gæti með einhverjum hætti leitt til þess að auðveldara yrði um vik að einkavæða þetta fyrirtæki ríkisins eða hvort hér væri um að ræða einhvers konar skref í átt að því. Það var fortakslaust svar þeirra sem okkur svöruðu fyrir hönd ríkisins, þar á meðal hæstv. fjmrh., að svo væri ekki. Í þeirri góðu trú þá samþykkjum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þetta nál. án nokkurs fyrirvara og styðjum að þetta mál verði samþykkt af Alþingi.