Gjald af áfengi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 19:56:12 (3003)

2001-12-11 19:56:12# 127. lþ. 49.7 fundur 320. mál: #A gjald af áfengi# (tóbaksgjald) frv. 149/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[19:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. orðaði það svo að ákveðið hefði verið að láta þessa breytingu vera hlutlausa gagnvart þeim tekjum sem ríkissjóður hefur af sölu tóbaks. Það er ákvörðun sem hæstv. ríkisstjórn tekur. Hún hefði auðvitað, eins og hæstv. ráðherra segir, getað fallið á annan veg.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að fremur hefði átt að nota þessa ferð til að hækka verð á tóbaki, hækka tóbaksgjaldið umfram það sem lagt er til í frv. og í staðinn að falla frá ýmsum öðrum umdeildari og miklu verri ráðstöfunum sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að grípa til til að afla tekna í ríkissjóð.

Ég tiltók sérstaklega, herra forseti, að það hefði verið miklu skynsamlegra að öllu leyti að hækka tóbaksgjaldið og falla frá hækkunum á skólagjöldum á háskólanema og framhaldsskólanema. Að öllu leyti hefðu rökin fyrir því verið jákvæð í þeirri merkingu að ríkisstjórnin hefði áfram getað aflað sér sömu tekna og hún gerir með upptöku skólagjalda. Jafnframt hefði hún, herra forseti, gripið til ráðstafana sem hefðu til frambúðar dregið úr kostnaði ríkisins. Við vitum að kostnaður heilbrigðiskerfisins minnkar í réttu hlutfalli við minni á tóbaksneyslu.

Það er ákaflega sjaldgæft að hægt sé að benda á slíkt samhengi sem er á milli sjúkdóma og neyslu jafnaugljóslega og annars vegar milli tóbaksneyslu og hins vegar ýmiss konar kvilla sem hrjá okkur mannfólkið. Ég held þess vegna, herra forseti, að þetta hefði verið ákaflega heillavænleg ráðstöfun. Hún hefði líka þjónað þeim tilgangi að draga úr neyslu á harðari efnum í framtíðinni. Hvers vegna? Vegna þess að hver könnun á fætur annarri sýnir fram á að því yngri sem börn byrja að neyta tóbaks því meiri líkur séu á því að síðar á lífsleiðinni fari þau út í neyslu harðari vímuefna.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Var þessi möguleiki ekki íhugaður?