Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:18:09 (3012)

2001-12-11 20:18:09# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, Frsm. VE
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:18]

Frsm. efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum.

Öll efh.- og viðskn. stendur að álitinu og þessum brtt. Þó hafa tveir hv. þm. fyrirvara sem þeir munu væntanlega gera grein fyrir.

Þær brtt. sem nefndin gerir að sínum eru í fyrsta lagi að lækka það lágmarksgjald sem þeir einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun greiða.

Í öðru lagi er lækkað það gjald sem kauphallir og skipulegir tilboðsmarkaðir skulu greiða þannig að það verði 0,5% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 250 þúsund.

Í þriðja lagi gerir nefndin ráð fyrir að eftirlitsskyldur aðili, sem er a.m.k. að 9/10 í eigu annars eftirlitsskylds aðila greiði 1/5 hluta eftirlitsgjald, samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr. sem rakið er í 1. gr. frv. Þetta kemur í stað 2/3 sem eru í frv.

Nefndin sendi þetta til umsagnar hagsmunaaðila og fékk allmarga aðila á sinn fund. Nefndin fór einnig í heimsókn til Fjármálaeftirlitsins og hefur rætt þetta allmjög. Það er samstaða í nefndinni um að halda áfram umfjöllun um Fjármálaeftirlitið eftir áramót og hún vill í því sambandi hafa samstarf við þá aðila sem skipa samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila.

Nefndin telur að þær 3,5 millj. sem þessar breytingar klípa af tekjum Fjármálaeftirlitsins á næsta ári eigi einkum að fara í að endurmeta nýráðningar og að reynt verði að spá í mannaflaþörf til næstu þriggja ára hjá Fjármálaeftirlitinu. Fjármálaeftirlitið er afar mikilvæg stofnun og órjúfanlegur og ómissandi hluti af fjármálamarkaðnum. Eftirlitið skapar traust á markaðnum fyrir alla þá sem á hann þurfa að treysta og því skiptir afar miklu máli að eftirlitið sé virkt en einnig að það sé hagkvæmt.

Einnig skiptir miklu máli að gott samstarf sé milli eftirlitsins og þeirra sem við það þurfa að búa og að skilningur sé milli aðila fjármálamarkaðarins og eftirlitsins á því hvert stefna skuli. Því leggur efh.- og viðskn. áherslu á að reynt verði að ná samstöðu um þriggja ára sýn í þróun eftirlitsins og að umfang þess verði jafnan ákveðið til þriggja ára þannig að ekki þurfi að koma til þess að eftirlitið og samráðsnefnd eigi í einhverjum deilum eða séu ekki sammála eða samstiga um hver þróunin eigi að vera frá ári til árs. Ég tel að upptaka þriggja ára áætlunargerðar mundi skapa miklu markvissari vinnubrögð í þróun eftirlitsins og því muni slík áætlunargerð gagnast betur. Fyrir fjármálamarkaðinn mundi það hafa miklu betri áhrif að slík sameiginleg framtíðarsýn væri í gangi og eins mundi það skapa betra traust á Fjármálaeftirlitinu sem eftirlitsaðila.

Með þeim brtt. sem ég hef rakið leggur nefndin til að frv. verði samþykkt.