Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:22:46 (3013)

2001-12-11 20:22:46# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson skrifum undir þetta nál. með fyrirvara. Þeir fyrirvarar snerta m.a. þær brtt. sem efh.- og viðskn. gerir að því er varðar tekjur þær sem Fjármálaeftirlitinu eru ætlaðar til starfsemi sinnar á næsta ári en með brtt. eru tekjur Fjármálaeftirlitsins lækkaðar um 3,5 millj. kr.

Herra forseti. Það er gert eftir að eftirlitsskyldu aðilarnir komu í löngum bunum á fund efh.- og viðskn. og kveinkuðu sér mjög undan því gjaldi sem þeir þurfa að greiða til þessarar stofnunar og voru í raun og sanni, herra forseti, með nöldur og sparðatíning út af því gjaldi sem þeim er ætlað að greiða.

Ég vil í því sambandi, herra forseti, nefna að ég hygg að það sé engin opinber stofnun sem opnar bókhald sitt og starfsemi sína eins rækilega hér inni á þingi og Fjármálaeftirlitið. Þeir eftirlitsskyldu aðilar sem eru að gagnrýna það að þurfa að greiða gjald til þessarar starfsemi eru með bókhald sitt og sinn rekstur harðlokaðan m.a. fyrir Alþingi. Ef eitthvað er verið að spyrja um starfsemi þessara eftirlitsskyldu aðila þá er oft og iðulega reynt að komast hjá því að upplýsa um starf og starfsemi þeirra. Þess vegna er auðvitað bara af þeim sökum einum saman afar brýnt að vel sé búið að Fjármálaeftirlitinu á sambærilegan hátt og við eigum að búa vel að Samkeppnisstofnun sem er líka mikilvægur eftirlitsaðili í þjóðfélaginu.

Við verðum að líta til þess að þó að nokkur aukning hafi orðið á mannskap hjá Fjármálaeftirlitinu er sá markaður sem það á að hafa eftirlit með, fjármála- og verðbréfamarkaðurinn, lífeyrissjóðirnir, tryggingafélögin, sífellt að stækka. Það er því eðlilegt að umfang í starfsemi slíkrar stofnunar aukist.

Ég minni á að í ágætri skýrslu sem fylgir með frv. um starfsemi Fjármálaeftirlitsins kemur fram ábending frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þar segir að Fjármálaeftirlitið sé of lítið til að sinna öllum þeim verkefnum sem á það er lagt. Það er frekar mælt með því af þessari ágætu stofnun að þar verði aukið við mannafla frekar en hitt. Mér finnst að þetta sé ein af fáum stofnunum, herra forseti, sem sé réttlætanlegt í því ástandi sem við erum í núna, í þeirri stöðu sem við erum í núna, að auka mannskap hjá. Þó að hér sé ekki um háar fjárhæðir að ræða kom þó fram að hér gæti verið um hálft stöðugildi að ræða í einhvern tíma sem hugsanlega kæmi t.d. niður á eftirliti Fjármálaeftirlitsins með vátryggingastarfsemi eða tryggingafélögunum sem ég tel nú ekki veita af, herra forseti, að hafa meira eftirlit með, sem hafa hækkað úr öllu hófi sínar lögboðnu tryggingar t.d. á bifreiðum. Mér finnst því að þetta sé, eins og ég segi, nöldur og sparðatíningur hjá þessum eftirlitsskyldu aðilum.

Mér fannst það nú taka út yfir allan þjófabálk, herra forseti, þegar nefnd, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur, kemur með þriggja blaðsíðna athugasemdir við þetta, sem augljóslega báru þess merki að nefndin hafði ekki lesið ítarlega rökstuðning sem Fjármálaeftirlitið setur fram varðandi starfsemi sína og nauðsyn á fjármagni til þess að auka við umfangið.

Það sem mér fannst líka sérkennilegt við þá nefnd --- sem ég hafði nú ekki heyrt nefnda áður, ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sem var sett á stofn árið 1999, og væri fróðlegt að vita hvað það hefði kostað á þeim tíma, einnig hvað þeir sem sitja í nefndinni hafa t.d. í tekjur --- og fróðlegt að sjá að formaður þessarar ágætu nefndar er ritari einkavæðingarnefndar. Við höfum heyrt þess getið á undanförnum vikum að einkavæðingarnefnd lokar öllu sínu bókhaldi hér fyrir Alþingi og neitar að afhenda upplýsingar um kostnað við rekstur á einkavæðingarnefnd um 300 millj. kr. Við þurftum að ganga í gegnum það við fjárlagaafgreiðsluna að fá enga vitneskju um það þrátt fyrir að eftir því væri gengið. Síðan setur þessi ágæti formaður sig á háan hest gagnvart Fjármálaeftirlitinu, sami aðili, ritari nefndar sem lokar bókhaldi sínu fyrir Alþingi og neitar Alþingi um eðlilegar upplýsingar um hvernig ráðstafað er 300 milljónum í kostnað vegna starfa einkavæðingarnefndar. Þetta finnst mér afar sérkennilegt, herra forseti.

Það er öðru að heilsa hjá Fjármálaeftirlitinu sem er með allt sitt opið, nákvæmlega listað um kostnað við stjórnina, nákvæma listað um ferðir, risnu, hvað eina, það er allt opið, allt opið hér. Svo setja þessir menn sig á háan hest og eru að gagnrýna þá stofnun. Það er þetta sem ég hef við það athuga hvernig þessir eftirlitsskyldu aðilar eru með nöldur og sparðatíning vegna þeirrar starfsemi sem þeir þurfa að kosta --- sem er eðlilegt að þeir kosti.

[20:30]

Ég vil lesa hér bréf, þannig að því sé haldið til haga, frá Páli Gunnari Pálssyni, sem ég bað um að gæfi álit sitt á þessari breytingu sem að vísu var upp á 3,5 millj. kr. þannig að við vissum um afstöðu hans til þessara breytinga en hann hafði ekki tök á að mæta á fund nefndarinnar. Ég ætla að leyfa mér að lesa það bréf, herra forseti.

Með leyfi forseta, þá hljóðar bréf til efh.- og viðskn. frá Fjármálaeftirlitinu, undirritað af Páli Gunnari Pálssyni, svona:

,,Óskað hefur verið eftir áliti Fjármálaeftirlitsins á tillögum viðskrn. um breytingar á frv. til laga um greiðslu kostnaðar við fjármálaeftirlit. Tillögurnar fela í sér lækkun á eftirlitsgjaldi vegna kauphalla, meiri afslátt eftirlitsgjalds vegna dótturfyrirtækja í eigu fjármálafyrirtækja og lækkun lágmarksgjalds vegna vátryggingamiðlara. Í tillögunum er ekki gert ráð fyrir breytingum á öðrum liðum frv. og því hafa fyrrgreindar breytingar í för með sér lækkun á áætluðu rekstrarumfangi á næsta ári sem nemur 3,5 millj. kr.

Vegna lækkunar á lágmarksgjaldi vegna vátryggingamiðlara vill Fjármálaeftirlitið taka fram að það hefur áður látið í ljós það álit sitt að kostnaður vegna eftirlits með vátryggingamiðlurum og vátryggingamiðlunum sé talsvert meiri en sem nemur lágmarksgjaldi en þessir aðilar greiða allir lágmarksgjald. Það er hins vegar rétt sem fram hefur komið að aðstaða og umfang vátryggingamiðlara er mjög mismunandi. Fjármálaeftirlitið hefur skilning á því að komið verði til móts við smæstu aðilana. Fjármálaeftirlitið telur koma til greina að við undirbúning álagningar vegna ársins 2003 verði leitað leiða til að flokka vátryggingamiðlara og eftirlitsgjald vegna þeirra eftir stærð eða umfangi.

Fjármálaeftirlitið gerir ekki athugasemd við tillögur ráðuneytisins um lækkun eftirlitsgjalds vegna dótturfyrirtækja og Verðbréfaþings Íslands.

Hvað lækkun áætlaðs rekstrarkostnaðar varðar vill Fjármálaeftirlitið taka fram að það byggði áætlun sína á ítarlegu mati, m.a. á starfsmannaþörf. Fjármálaeftirlitið stendur við mat það sem felst í tillögum þess að rekstraráætlun sem liggur til grundvallar upphaflegu frumvarpi.

Sé það hins vegar mat ráðuneytisins og efh.- og viðskn. að lækkun á áætluðum rekstrarkostnaði samkvæmt framkomnum tillögum sé nauðsynleg beygir Fjármálaeftirlitið sig að sjálfsögðu undir það mat.``

Það er ljóst að Fjármálaeftirlitið er ekki sátt við þær breytingar sem hér er verið að gera þó það í allri sinni hógværð geri ekki mikinn ágreining um það. Auðvitað er engum betur kunnugt um það en þeim sem starfa að þessu eftirliti hve gríðarlega mikilvægt það er fyrir fjármála- og verðbréfamarkaðinn að hér sé öflugt aðhald að þeim markaði. Á því hafa þessir eftirlitsskyldu aðilar sem standa undir gjaldinu kannski ekki mikinn áhuga, að hér sé öflugt og skilvirkt aðhald með starfsemi þeirra.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður. Ég taldi ástæðu til þess af þessu tilefni að koma inn í umræðuna. Við munum sitja hjá við þær brtt. sem hér eru boðaðar með þeim rökum sem ég hef lýst. Ég hefði talið sjálfsagt og eðlilegt að styðja frv. eins og það lítur út með þeim ágætu rökum sem fram koma hjá Fjármálaeftirlitinu sjálfu.

Varðandi nál. að öðru leyti þá vil ég segja að ég fagna því eins og formaður efh.- og viðskn. að menn vilji sjá rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins varðandi starfsmannaþörf til lengri tíma. Ég tel að það væri ágætt ef hægt væri að gera það. Það væri auðvitað öðrum til eftirbreytni. Eða liggja fyrir slíkar áætlanir frá öðrum stofnunum hjá hinu opinbera, um áætlanir og mannaflaþörf til næstu ára? Þessi skilyrði á að setja Fjármálaeftirlitinu og ég býst við að þeir kveinki sér ekki undan því. Þeir geta örugglega lagt fram áætlanir sínar hvað það varðar eins og annað í rekstrinum.

Ég vil síðan segja að ég tel mjög mikilvægt, og held að um það sé góð samstaða í efh.- og viðskn. og ekkert þurfi um það að deila, að nefndin taki þegar í næsta mánuði fyrir þessa ágætu skýrslu Fjármálaeftirlitsins sem er mjög ítarleg og umfangsmikil og tekur á mörgum þáttum sem snúa að verðbréfamarkaðnum og öflugra eftirliti með honum, bankastofnunum og innlánsstofnunum og fleiri þáttum í starfsemi eftirlitsins. Efh.- og viðskn. ætlaði að gera þetta á síðasta þingi en einhverra hluta vegna varð ekki af því verki. Ég legg áherslu á það, sem góð samstaða er um í nefndinni, að efh.- og viðskn. taki strax á nýju ári þessa ágætu skýrslu til umfjöllunar.