Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 11. desember 2001, kl. 20:50:01 (3019)

2001-12-11 20:50:01# 127. lþ. 49.5 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv. 144/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 49. fundur, 127. lþ.

[20:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var nú vonum seinna að hv. þm. Gunnar Birgisson þakkaði þeim sem hér stendur fyrir hlýleg orð í sinn garð frá því fyrir nokkrum árum varðandi fjármálarekstur Kópavogs. Það munaði ekki miklu að þau orð yrðu til þess að pólitískur ferill þess þingmanns yrði endasleppari en síðar kom í ljós.

Auðvitað er ekki sjálfgefið að opinberum starfsmönnum fjölgi hjá ríkinu eða sveitarfélögum. Það er heldur ekki sjálfgefið að opinberum starfsmönnum fjölgi hjá stofnun eins og Fjármálaeftirlitinu. Það er hins vegar þannig að hvort sem rök eru fyrir því eða ekki þá er viðkvæðið alltaf það sama: Það er þörf fyrir fleiri.

Það kann að vera hárrétt hjá hv. þm. að ekki sé fyllilega hægt að bera saman tiltekna ríkisstofnun og bæjarfélag í örum vexti. En ég notaði þetta tækifæri til þess að benda á að viðkvæðið er alltaf hið sama og rökin alltaf þau sömu. Það er ekki hægt að komast hjá þessu.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að fara eigi vel með fjármuni skattborgaranna. Menn þurfa að ganga varlega um gáttir og skoða áður en þeir taka ákvörðun um að verja fjármunum hins opinbera til að ráða nýtt fólk. Það er erfitt að stemma stigu við sífelldum vexti ríkisins en það er eitt af því sem við erum að reyna að gera. Okkur er trúað fyrir því að fara vel með fé skattborgaranna.

Það má svo nefna það hér til að sýna hve sýn okkar, sem búum hér á eyðiskeri norður undir heimsskautinu kalda, er öðruvísi en erlendra manna sem hingað koma, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem ég nefndi hér til sögunnar, komst að þeirri niðurstöðu að líklega þyrfti þessi stofnun u.þ.b. sem hún verður fullburða að hafa 50 manns í þjónustu sinni. Ég er vitaskuld allt annarrar skoðunar og fellst ekki á það mat. En það sýnir að ekki aðeins lítur sínum augum hver á silfrið heldur er mat manna mjög mismunandi miðað við þær forsendur sem þeir gefa sér.

Ég efa ekki að hv. þm. hefur rétt fyrir sér þegar hann segist hafa farið vel með fjármuni þeirra í Kópavogi. Og ég dreg í efa að það sé hægt að halda öðru fram um þann ágæta mann sem stýrir Fjármálaeftirlitinu.