Umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 10:28:50 (3031)

2001-12-12 10:28:50# 127. lþ. 50.93 fundur 228#B umræða um frv. um ráðstafanir í ríkisfjármálum# (um fundarstjórn), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 127. lþ.

[10:28]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég vil gera athugasemd við upphaf þessa fundar, þ.e. að hefja fundinn á umræðum um 12. dagskrárliðinn. Á fundi formanna þingflokkanna sem var haldinn í gær voru lögð fram drög að dagskrá vikunnar eða þessarar þriggja daga. Þá voru sjávarútvegsmál, málefni smábáta, sett fyrst á dagskrá. Hv. þingflokksformaður Frjálslynda flokksins óskaði þá eftir því að sá dagskrárliður yrði eftir hádegið svo hann yrði ekki slitinn sundur með matarhléi. Undir það var ekki hægt að taka og ekki var hægt að sjá annað á dagskránni sem birtist í dag en smábátarnir yrðu fyrstir á dagskrá.

Við þetta hljóta hv. þm. að miða í störfum sínum og undirbúa sig eftir því, sérstaklega þegar svo stendur á að nefndarálit minni hlutans vegna málsins sem fyrst var tekið á dagskrá liggur ekki fyrir og er ekki tilbúið. Það að tala fyrir máli, slíta síðan umræðunni og hoppa fram og til baka í dagskránni, gefur þinginu ekki fallegan svip. Það skapar óöryggi í störfum þingmanna. Tíminn er knappur og veitir ekki af góðu skipulagi til að ná endum saman. Ég mótmæli, hæstv. forseti, því að fara í dagskrána með þessu móti.