Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 17:11:32 (3078)

2001-12-12 17:11:32# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[17:11]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Miklar umræður hafa farið fram í dag en ég vil geta þess í upphafi máls míns að ég er með brtt., hef ákveðið að bregðast þannig við ásamt hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni og hv. þm. Karli V. Matthíassyni að leggja fram brtt. við tillögur hv. meiri hluta sjútvn. eins og hann leggur málið fram í dag.

Ég held að svona aðferðafræði við frv. til laga eins og þetta frv. um kvótasetningu á smábáta mundi flokkast undir það sem þeir í ameríska stjórnkerfinu kalla að menn séu að smyrja hjólin þegar tekur að ískra. Það eru alveg forkastanleg vinnubrögð, og það vita allir í þinginu, að þessi lagasetning er til þess að smyrja hjólin og reyna að leysa brýnasta vanda smábátaeigenda sem hafa gjörsamlega byggt afkomu sína á ókvótasettum tegundum eins og steinbít, ýsu og ufsa. Það hefur legið fyrir í þinginu að sá fjöldi manna sem hefur notfært sér þá möguleika sem voru í ókvótasettu tegundunum er í stórkostlegum vandræðum vegna þess að nú er komið kvótakerfi á lífsbjörg þeirra.

Virðulegi forseti. Ég vitnaði í þetta hugtak úr ameríska stjórnkerfinu vegna þess að hér eru menn að smyrja hjólin þegar farið er að ískra. Hv. þingmenn meiri hlutans halda að þeir séu með þessu máli að leysa byggðavandann og leysa vanda þeirra manna sem eru í greininni núna. En það er alveg augljóst í mínum huga að þótt þeim sem hafa verið í kerfinu séu gefnir möguleikar til að byggja á veiðireynslu og fá nokkurn kvóta mun kvótasetningin leiða til þess að menn munu í framhaldi af aðgerðunum selja kvóta sinn. Það fer ekkert hjá því að það leiði til þess. Margir þeirra sem hafa stólað á þær tegundir sem mátti veiða utan kerfisins munu ekki klára það af þrátt fyrir að þeir fái þá kvótasetningu sem meiri hlutinn leggur til. Hver er þá staða þeirra sjávarbyggða sem menn eru að líta til með þessu frv. eftir tvö, þrjú, fjögur, fimm ár? Hún gæti orðið nákvæmlega sú sama eða verri en hún er núna.

Virðulegi forseti. Við eigum ekki að leysa vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í sjávarútvegsmálunum með þessum aðferðum. Það er boðað af meiri hluta nefndarinnar að síðar verði framhaldsfrumvörp flutt í febrúar til að fara enn frekar ofan í þessi mál og þá væntanlega út frá því hvernig staðan er í dag. Ég held að kvótaeigendur Landssambands ísl. útvegsmanna og stórútgerðin fagni þeirri formúlu sem hér er sett fram. Nú hafa þeir náð því að þetta er allt saman kvótasett og þá er þeirra meginlína uppi á borðinu.

Komið hefur fram í umræðunni, virðulegi forseti, að hér var starfandi svokölluð sáttanefnd eða nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu. Hún var að störfum í þrjú ár en margklofnaði eins og kunnugt er og komst ekki að niðurstöðu. Ég tel að það sé algjör nauðsyn að vinna þessi mál þannig að við fáum breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu sem hafa einhverja heildstæða sýn. Svo er ekki þegar tekið er á málum á þann hátt sem hér er gert. Ég átti sæti í þessari nefnd um endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu og valdi þann kostinn að skila minnihlutaáliti vegna þess að ég sá strax í störfum nefndarinnar að það var aldrei meiningin að ná neinni lendingu.

Sú breyting sem meiri hluti hv. sjútvn. leggur hér til byggir í raun og veru á svipuðum grunni og breytingin sem ég setti fram í minnihlutaáliti mínu í endurskoðunarnefndinni. Nú eru menn farnir að viðurkenna að kvóta þurfi fyrir sjávarbyggðir. En aðferðafræðin er bara kolskökk vegna þess að allt dæmið er sett á markað. Menn eru að fara í kvóta fyrir byggðarlögin án þess að gera það með þeim hætti að það endist. Hluti af þessu verður framseljanlegur kvóti og það er himinklárt að við stöndum frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum, sérstaklega þó á Vestfjörðum, eins og við höldum að við séum að leysa í dag. Þetta er algjörlega óásættanlegt. Þetta eru handarbakavinnubrögð og menn sjást ekkert fyrir í því sem þeir eru að gera.

Þær smáútgerðir sem hafa blómstrað á Vestfjörðum á undanförnum árum og í raun og veru orðið þess valdandi að það er ekki algjört byggðahrun þar hafa margar hverjar algjörlega byggt tilverurétt sinn á því að geta sótt í þessar tegundir. En jafnframt verður að geta þess að vegna ástandsins í sjónum hafa t.d. norðlenskar smábátaútgerðir ekki getað nýtt sér þessa sömu möguleika og hafa skapast fyrir vestan, t.d. einfaldlega vegna þess að það hefur ekki verið ýsugengd og mjög lítil steinbítsgengd en þetta er þó að breytast eins og við heyrum í fréttum frá Norðurlandi.

Norðlenskar smábátaútgerðir hafa á undanförnum árum lagt upp laupana hver af annarri og í byggðarlögum sem voru með blómlega smábátaútgerð sést varla trilla í dag miðað við það sem áður var. Það eru örfáar undantekningar eins og t.d. Grímsey en á stöðum eins og t.d. Ólafsfirði hefur þetta algerlega mislukkast. Hvers vegna? Smábátaútgerðin þar náði ekki í þessar fríu tegundir sem voru ekki kvótasettar vegna þess að ýsan gekk einfaldlega ekki inn á þessi mið. Það er reyndar að breytast núna.

Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson gerði grein fyrir brtt. okkar. Hann fór í gegnum þær og ég ætla ekki að eyða tíma í að fara í gegnum þær lið fyrir lið en þær miða í grófum dráttum að því að smábátaútgerðir geti enn um sinn haft sömu stöðu og fyrir kvótasetningu í haust. Við viljum fresta þessum aðgerðum, láta menn búa við sömu útgerðarmöguleika þangað til við getum fundið einhverja heildstæða lausn til að taka á sjávarútvegsmálunum.

Engin aðalmarkmiða okkar varðandi sjávarútvegsstefnuna hafa náðst. Verndunarkerfið sem þetta átti að leiða af sér hefur mistekist hrapallega. Við erum að veiða núna út úr okkar stofnum líklega 100 þús. tonnum færri þorskígildi en við gerðum um 50 ára skeið fyrir tíma kvótans. Eitthvað mikið er því að og það verður að skoða hlutina, sóknarmynstrið, skoða alla hluti heildstætt með nýrri sýn á þessi mál.

Ég lagði til í sjútvn. að við skoðuðum þetta vegna þess að eftir hátt í tveggja áratuga fiskveiðistjórn á grundvelli kvótakerfis er ekki sýnilegt að náðst hafi megintilgangur kerfisins, að fiskstofnarnir byggðu sig upp og skiluðu hámarksafrakstri. Í mörgum tilfellum er ástand stofnanna núna svipað eða jafnvel verra en fyrir daga kvótakerfisins. Auk þess hefur réttilega verið bent á að kvótakerfið hamlar mjög allri nýliðun og kynslóðaskiptum í atvinnugreininni. Þó að því sé ekki haldið fram að öll sökin sé kvótakerfisins verður því ekki á móti mælt að árangurinn af því er að þessu leyti mjög takmarkaður.

Rétturinn til viðskipta með kvóta, bæði möguleikinn til að leigja öðrum veiðiheimildir í stað þess að nota þær sjálfir og varanleg sala þeirra, hefur haft í för með sér að ákveðnir aðilar hafa átt þess kost að hagnast gríðarlega. Slíkur gróði, ekki síst þegar hinir sömu hverfa út úr sjávarútveginum með milljónatugi, hundruð millj. eða milljarða sem rekja má til andvirðis veiðiheimilda, samrýmist vægast sagt illa ákvæðum fiskveiðistjórnarlaganna um sameign þjóðarinnar.

Virðulegi forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur lagt fram ítarlega nýja sýn og tillögur um nýtt fiskveiðistjórnarkerfi þar sem grunnurinn er tekinn gjörsamlega til endurskoðunar, fyrst og fremst vegna þess að það kerfi sem við búum við í dag hefur ekki náð þeim árangri sem til var ætlast, að byggja upp fiskstofnana, og það er auðsætt að við þurfum nýtt kerfi til að koma lagi á þessa stjórn og ná hámarksafrakstri. Sú leið sem við höfum kynnt í umræðunni sem okkar leið og er sett fram í skýrslu endurskoðunarnefndarinnar um sjávarútvegsstefnuna, svokallaðrar sáttanefndar, er að hafin verði fyrning veiðiréttar eða aflahlutdeildar um 5% á ári, línuleg fyrning. Við höfum lagt fram ábyrga stefnu og til þess að auðvelda útgerðinni aðlögun að breyttum aðstæðum verði henni gert mögulegt að halda eftir 3% af þeim 5% sem árlega eru fyrnd fyrstu sex árin. Þessum 3% aflaheimilda ræður útgerðin sem eins konar biðkvóta sem greitt er fyrir með sérstökum afnotasamningi við ríkið til sex ára í senn. Að sex árum liðnum bætast þessi 3% aflaheimilda ár frá ári við þær sem fyrndar eru, þ.e. 5%. Fyrstu sex ár tímabilsins losna þannig 2% á ári til ráðstöfunar en 3% stofna til biðkvóta. Að sex árum liðnum yrði búið að fyrna 12% en 18% væru í biðhólfi núverandi útgerða ef þeim sýndist svo. Að 12 árum liðnum yrði þannig búið að fyrna 60% aflaheimilda og biðkvótinn að fullu fyrndur. Fyrning heldur áfram með 5% á ári og yrði að fullu lokið eftir 20 ár.

Síðan eru settar fram hugmyndir í þessum tillögum okkar um ráðstöfun á kvótanum sem þannig er losaður. Við höfum sett hugsun okkar klárlega fram, og hún er sú að við viljum byggðatengja kvótann þannig að sveitarfélögin hafi rétt yfir honum. Við viljum haga því þannig að þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði boðinn upp á landsmarkaði og útgerðinni gefinn kostur á því að leigja hann til sex ára í senn. Fiskvinnslum sem stunda frumvinnslu sjávarafurða gefst einnig kostur á að bjóða í veiðiheimildir í hlutfalli við raunverulega vinnslu þeirra undangengin ár samkvæmt nánari reglum. Leigutekjum vegna þessara aflaheimilda skal skipt milli ríkis og sveitarfélaga eftir nánari reglum sem þar um verði settar.

Meginkjarninn í tillögunum sem við setjum fram er sá að annar þriðjungur þeirra aflaheimilda sem fyrnast á hverju ári verði til byggðatengdrar ráðstöfunar fyrir sjávarbyggðir umhverfis landið. Við skiptingu veiðiréttindanna milli sveitarfélaga verði byggt á vægi sjávarútvegs, veiða og/eða vinnslu í atvinnulífi viðkomandi sjávarbyggða og hlutfallslegu umfangi innan greinarinnar að meðaltali sl. 20 ár. Um þessa skiptingu verða síðan settar nánari reglur að viðhöfðu víðtæku samráði þeirra sem hagsmuna eiga að gæta. Hlutaðeigandi sveitarfélög ráðstafa þessum þriðjungi veiðiheimildanna fyrir hönd þeirra sjávarbyggða sem þeim tilheyra. Sveitarfélögin geta leigt út veiðiheimildir eða ráðstafað þeim með öðrum almennum hætti á grundvelli jafnræðis en þeim er einnig heimilt að verja hluta veiðiheimildanna tímabundið til að styrkja hráefnisöflun og efla fiskvinnslu innan viðkomandi byggðarlaga. Þannig öðlast þau tækifæri til að efla vistvænar veiðar, styrkja staðbundna báta og dagróðraútgerð, gæta hagsmuna sjávarjarða og auðvelda nýliðun og kynslóðaskipti í sjávarútvegi. Óheimilt er að framselja byggðatengd veiðiréttindi varanlega frá sveitarfélagi. Kjósi sveitarfélögin að innheimta leigugjald fyrir aflaheimildir renna tekjurnar til viðkomandi sveitarfélags.

Síðasti þriðjungur fyrndra aflaheimilda á hverju ári er boðinn handhöfum veiðiréttarins sem fyrnt er frá til endurleigu gegn hóflegu kostnaðargjaldi á grundvelli sérstaks afnotasamnings til sex ára í senn. Samningnum fylgir sú kvöð að réttindin verði aðeins nýtt af viðkomandi aðila og ráðstöfun þess hluta aflaheimilda verði tekin til endurskoðunar áður en 20 ára fyrningartímabilinu lýkur.

Virðulegi forseti. Þær brtt. sem meiri hluti hv. sjútvn. er að gera miða að því að milda aðgerðir sérstaklega gagnvart byggðarlögum á Vestfjörðum en tillögurnar eru settar fram þannig að í fyrsta lagi dregur verulega úr möguleikum þeirra útgerða krókabáta sem hér um ræðir til að stunda veiðar en í öðru lagi er verið að kvótasetja tegundirnar og á þá eru settir kvótar, þeim er sem sagt úthlutað kvóta. Hér er með ráðherrapottum verið að gera það mögulegt að útdeila til byggðarlaga, væntanlega eftir einhverjum geðþóttaákvörðunum, einhverjum kvóta ef illa gengur á einhverjum stöðum.

Þetta er afleitt fyrirkomulag, virðulegi forseti, og það er í grunninn bara hugsað fyrir þá sem eru í útgerðinni núna. Þetta tryggir ekki nein réttindi til lengri tíma litið fyrir það fólk sem býr í þessum sjávarbyggðum. Þetta er tengt við fyrirtækin sem stunda þessi viðskipti en upp úr hverjum einasta manni stendur í dag að tengt útgerðinni verðum við náttúrlega að skoða stöðu fólksins sem býr á stöðunum hvort sem það býr í landi og vinnur fyrir útgerðirnar eða er þjónustuaðili við viðkomandi útgerðir. Fyrirkomulag sem byggir á því að það er enginn grunnur, ekkert fast fyrir varðandi byggðina sjálfa, stenst aldrei til lengdar. Þess vegna er ég að segja það hér að grunntónninn í þessu frv. mun ekki leysa nein vandamál nema til mjög skamms tíma fyrir fáa.

[17:30]

Margir fullyrða að þessi aðgerð muni jafnvel leiða til þess að menn selji sig út úr kerfinu mjög fljótlega, ráðstafanirnar muni leiða til þess margir þeirra sem fá eins konar útdeilingu, allt of litla, muni selji sig út úr kerfinu. Hvar stendur þá hinn venjulegi maður í þessum sjávarbyggðum sem ekki er tengdur og ekki á hlut í viðkomandi útgerð? Hann er gjörsamlega berskjaldaður fyrir því sem er að gerast. Eina leiðin fyrir sjávarbyggðir landsins er að hafa lögbundinn rétt til nýtingar á auðlindinni og að innan þess réttar geta menn sótt um leyfi hjá viðkomandi sveitarfélögum til að nýta sér réttinn.

Það þjónar ekki neinum tilgangi að notast við markaðstengingu á þann hátt sem hér er gert ráð fyrir, sem augljóslega leiðir til þess að menn standa frammi fyrir nákvæmlega sömu vandamálum eftir örfá missiri. Ég held að það sé alveg auðsætt. Þeir sem ekki gátu sótt í ókvótasettar tegundir, t.d. Norðlendingarnir, hafa unnvörpum farið út úr þessari útgerð með örfáum undantekningum. Að vísu er myndarleg smábátaútgerð í Grímsey. Þeir hafa haft kvóta o.s.frv. en margir hafa farið út úr þessu vegna þess að þeir höfðu ekki aðgang að meðafla sem hefur verið þessum smáútgerðum svo nauðsynlegur.

Eins og ég sagði áðan hafa orðið breytingar í hafinu. Þau mál horfa því allt öðruvísi við núna en fyrir tveimur árum fyrir öllu Norðurlandi þar sem nú er farin að veiðast ýsa. Ég tel að það sé mjög mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ég ætla að koma inn á ákveðið atriði í þessu frv. Ég er mjög hlynntur því að útgerðirnar fái að landa meðafla. Ég held að samstaða sé um það í nefndinni að brottkast verði að stöðva. Ég held að það sé góð tillaga sem sett er fram og við höfum tileinkað okkur þá tillögu líka sem stöndum fyrir þessum brtt. Það er góð tillaga að hafa megi 5% meðafla og menn megi dreifa þeim afla yfir lengri tíma þannig að það sé ekki dagsaflinn sem reiknað er út frá. Það held ég að sé mjög gott mál. En það er ekki sama hvernig er farið með ráðstöfunina. Ég er líka sammála því að útgerðin geti fengið 20% af því sem fæst á uppboði á þessum afla en í tillögum stjórnarmeirihlutans er gert ráð fyrir því að afraksturinn, þeir peningar sem koma út úr þessari meðaflalöndun, fari til Hafrannsóknastofnunar.

Ég vil fara örfáum orðum um það, virðulegi forseti, að okkar tillögur byggja á að þeir peningar sem koma inn fyrir þennan meðafla renni að jöfnu til hafrannsókna og í Lífeyrissjóð sjómanna. Það er þannig að þingið verður á allra næstu missirum að taka á vandamálum sjómanna vegna lífeyrismála. Lífeyrissjóður sjómanna er mjög illa settur. Hann hefur þurft að skerða lífeyrisréttindi sjómanna og að hluta er vandamál Lífeyrissjóðs sjómanna það að miklu hærra hlutfall sjómanna lendir í alvarlegum slysum sem leiða til örorku. Það er ekki sanngjarnt, miðað við lífeyriskerfi landsins í heild, að öll sjómannastéttin taki á sig kostnað vegna mikillar slysatíðni úti á sjó og örorku þeirra sem hafa stundað sjóinn af miklu kappi, kannski um tugi ára. Þess vegna er það tillaga okkar að Lífeyrissjóður sjómanna njóti þess að fá þessar tekjur til að rétta úr kútnum. Að vísu vitum við ekki hvað kemur inn fyrr en reynslan sýnir hvað kemur inn í þennan pott. Ég held að væri mjög góð byrjun að styrkja sjóðinn með þessum framlögum og rétta stöðu hans.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir málið í grófum dráttum. Ég gat þess að brtt. sem við gerum við tillögur stjórnarmeirihlutans miða að því í meginþáttum að viðhalda eða framlengja því kerfi sem var við lýði fyrir kvótasetninguna núna í haust í von um að menn sjái að sér á hinu háa Alþingi og fari ofan í sjávarútvegsstefnuna í heild sinni og fái heildarsýn á það sem gera þarf í þessum málum. Hér er tjaldað til einnar nætur. Það mun reynslan sýna. Það líða örfá missiri þar til upp koma nákvæmlega sömu vandamálin og stjórnarmeirihlutinn heldur fram að hann leysi með þessu frv.