Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 18:13:04 (3087)

2001-12-12 18:13:04# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[18:13]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að einkunnaspjöldin, hv. þm. dró upp tvö, annars vegar hótun og hins vegar niðurlæging, eigi ekkert erindi inn í þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram í dag. Ég held einmitt að einkunnir af slíkum toga séu á engan hátt til þess að bæta nokkra umræðu.

Þetta er hvorki hótun né yfirvofandi niðurlæging fyrir hæstv. sjútvrh. Eins og hv. þm. veit er heildarendurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða afskaplega umfangsmikið mál og hefur eins og ég nefndi áðan gengið allt of hægt. Það sem við óttumst er að akkúrat þetta tiltekna mál, um gólfið á dagabátana, muni dragast ef stóra nefndin lýkur ekki störfum mjög fljótlega. Þetta er með vitund og vilja hæstv. sjútvrh. þannig að þetta er hvorki hótun né niðurlæging. Ég bið um að hv. þm. láti af því að tala með slíkum hætti að gera nefndinni eða sjútvrh. upp slíkt. Þetta er hvorki hótun né yfirvofandi niðurlæging. Það er bara verið að vinna í þessu efnislega í sátt og samlyndi, herra forseti.