Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 19:15:10 (3098)

2001-12-12 19:15:10# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[19:15]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit svo sem ekki hvernig hæstv. ráðherra ætti að svara þessu öðruvísi. Að minnsta kosti mundi ég í hans stöðu kjósa að skilja málið á nákvæmlega sama hátt. En þessi texti liggur eigi að síður fyrir og ef hæstv. ráðherra kýs að skilja málið svo að hér sé einungis verið að stefna öllu að einum og sama punkti, þ.e. að hér muni stjórnarfrv. með endurkoðuðum lögum um stjórn fiskveiða liggja fyrir fyrir 1. febrúar nk., þá þurfum við bara að sjá hvort það gengur eftir. (Gripið fram í.)

Ég held að það sé kannski ekki seinna vænna, herra forseti, en það verði sakir þess að ef hér á að verða um heildarendurskoðun að ræða, þá tekur það tímann sinn í vinnslu og ef áætlun þingsins á að standast fyrir vorið, þá er það hugsun forseta þingsins, ef ég man rétt, að við hverfum frá þingstörfum í kringum sumardaginn fyrsta. Það er því eins gott að hafa hraðar hendur og þess vegna er það svo mikilvægt, herra forseti, sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um, að fyrir liggi klár pólitísk lína þannig að þá sé bara handavinna eftir. En ég hef mínar efasemdir um hina kláru pólitísku línu, kannski bæði af því að ég fékk ekkert svar um það og í öðru lagi að ef hún lá fyrir, af hverju voru þá dagabátarnir ekki teknir með núna? Af hverju vannst ekki tími til að ná því saman? Við höfum verið afskaplega samstarfsfús, minni hlutinn í sjútvn., og í rauninni leyft meiri hlutanum að hafa þann tíma sem hann hefur þurft til að ganga frá þessu máli en hann nægði ekki. Þess vegna hef ég auðvitað, herra forseti, mínar efasemdir um að hin pólitíska lína sé komin og þar af leiðandi verð ég því miður að vera áfram með efasemdir um að það standi sem hæstv. ráðherra er hér að boða.