Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 12. desember 2001, kl. 23:35:48 (3135)

2001-12-12 23:35:48# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, Frsm. 1. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[23:35]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á Kvótaþingi voru menn að selja og kaupa veiðiheimildir. Það eitt veit ég og kann ekki meira í því. Ég veit hins vegar að menn hafa verið að selja eða leigja frá sér veiðiheimildir í mjög stórum stíl með öðrum hætti eftir að Kvótaþingi var lokað.

Ég bar fram fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. sem hefði getað gefið upplýsingar um það hversu mikið væri verið að leigja frá einstökum byggðarlögum og hversu mikið einstök byggðarlög væru að leigja til sín og hve mikið 50 stærstu fyrirtæki í þessu væru að leigja frá sér og hin 50 sem væru að leigja til sín. Hæstv. sjútvrh. kaus að láta ekki svara þessu. Ég hef borið fram aðra fyrirspurn og ætla mér að komast að sannleikanum í málinu. Með þessu er kannski hægt að upplýsa menn svolítið um það hvað er verið að innheimta í auðlindagjald af útgerðinni í landinu og hvernig það leggst. Það eru engir smáaurar.

Þeir peningar sem stjórn LÍÚ var að auglýsa í sumar að væru landsbyggðarskattur þegar hún lét reikna það út á hvaða byggðarlög væri verið að leggja landsbyggðarskatt verða broslegir miðað við það auðlindagjald sem þá var í umræðunni (Gripið fram í: Kostnaðargjald.) eða kostnaðargjald öllu heldur.

Nei, þessar upphæðir eru langtum tröllslegri heldur en þær. Og það er eins gott að menn fari að horfast í augu við það hvernig þetta kerfi virkar og viðurkenna það í umræðunni. Það er kominn tími til þess, svo lengi höfum við staðið í þessum ræðustól og öðrum til að tala um stjórn fiskveiða að við ættum að geta farið að segja sannleikann.