2001-12-13 00:21:31# 127. lþ. 51.2 fundur 193. mál: #A stjórn fiskveiða# (krókaaflamarksbátar) frv. 129/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 51. fundur, 127. lþ.

[24:21]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar svo árar á Íslandsmiðum að sjór er hlýr og sandsílið nær að vaxa og dafna þá stækkar ýsan ört. Og þegar svo hagar til á Íslandsmiðum að þessi hlýi sjór nær allt í kringum landið þá stækkar beitarþol Íslandsmiða mjög mikið og ýsustofninn vex sem aldrei fyrr, breiðist út um miðin allt í kringum land þó hann hafi ekki sést fyrir Norðurlandi árum saman.

Þegar reyndustu og elstu fiskimenn landsins hringja í mann til að segja manni að nú beri svo einkennilega við að sandsílið sé enn þá spikfeitt inni á fjörðum og flóum og sé búið að vera það síðan snemma vors þá er það auðvitað þannig að fiskstofnar vaxa og dafna sem aldrei fyrr. Og þegar það fer saman að við fáum inn tvo sterka árganga í ýsu, tveggja og þriggja ára ýsu, við slík vaxtarskilyrði þá verður auðvitað sprenging í stofninum. Það hefur löngum verið eitt það versta sem gerst hefur í Hafrannsóknastofnuninni að þeim hefur aldrei tekist að fylgja eftir þessari uppsveiflu. Mönnum hefur aldrei tekist að ráðleggja mönnum að veiða skart við góð skilyrði í mikilli uppsveiflu og þar af leiðandi höfum við oft misst af uppsveiflunni og síðan hafa menn líka verið of seinir að leggja til minnkun þegar úr vaxtarhraðanum hefur dregið.

Ég hef oft orðað þetta þannig að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar hafi verið tveimur til þremur árum á eftir í uppsveiflu og tveimur til þremur árum á eftir í niðursveiflu.