Biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 10:39:02 (3153)

2001-12-13 10:39:02# 127. lþ. 52.3 fundur 300. mál: #A biðlisti eftir þjónustu svæðisskrifstofa málefna fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 127. lþ.

[10:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Spurt var hve lengi einstaklingarnir hefðu beðið sem enga þjónustu hafa. Um það hef ég ekki upplýsingar en ég vona að ræst geti úr fyrir þeim á næsta ári. Mér finnst að það hljóti að hafa forgang að allir eigi kost á einhverri þjónustu. Nú kann að vera að einhverjir af þeim hafi átt kost á þjónustu sem þeir hafa ekki viljað nýta sér, og ég veit reyndar nokkur dæmi. En það er önnur saga.

Það var mat nefndarinnar að 80 ný sambýlapláss þyrfti fyrir árslok 2005 til þess að eyða biðlistunum og síðan plús væntanleg fjölgun. Þessi tala, 200 á biðlistum, er að mestu leyti eftir breytingu á húsnæði, þ.e. það fólk sem nýtur einhverrar þjónustu en óskar eftir öðrum búsetuúrræðum, t.d. óskar fólk sem býr á stofnun eftir að komast í sjálfstæða búsetu og þess háttar. Alltaf hljóta að verða uppi óskir um þess háttar. Það leiðir af sjálfu sér. Og það er eðlilegt að reyna að verða við því eftir því sem mögulegt er. Mér finnst að hitt verði þó að hafa forgang, að reyna að hjálpa öllum eitthvað þó að ekki sé unnt að veita öllum fullkomnustu þjónustu.

Varðandi húsnæðismálin vil ég nefna það hér, eins og ég hef reyndar sjálfsagt gert oft áður, að við eigum mjög gott samstarf við Öryrkjabandalag Íslands sem byggir eða kaupir húsnæði og leigir síðan ráðuneytinu undir sambýli og aðstöðu fyrir fatlaða. Það er mjög mikilvægt að mínum dómi að þetta samstarf skyldi komast á.