Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:27:11 (3209)

2001-12-13 15:27:11# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Ásta Möller:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar við 2. umr. frv. til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Ég á sæti í allshn. og heilbr.- og trn. og vildi hafa nokkur orð um þá þætti frv. sem koma til umfjöllunar í þeim nefndum. Annars vegar er um að ræða kirkjugarðsgjöld og sóknargjöld og hins vegar breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, um að fella sjúkrahótel úr upptalningu yfir stofnanir sem falla undir skilgreininguna sjúkrahús. Með því er lagastoð skotið undir innheimtu vægs dagsgjalds vegna dvalar á sjúkrahóteli til að standa undir fæðiskostnaði. En fyrst vildi ég aðeins fjalla um sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld.

Í frv. er lagt til að sóknargjöld á árinu 2002 hækki ekki samkvæmt hækkun á meðaltekjuskattstofni eins og kveðið er á um í lögum, en þar segir að ákveðið gjald fyrir hvern einstakling eldri en 16 ára skuli renna til sókna. Þessi upphæð er í dag 566 kr. á einstakling á mánuði eða u.þ.b. 6.800 kr. á ári sem renna til þess safnaðar eða trúfélags sem viðkomandi tilheyrir, eða til Háskóla Íslands ef viðkomandi er utan trúfélaga.

Frv. þýðir að framlag ríkisins til kirkna og kirkjugarða gegnum sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld hækka ekki milli ára um 8--9% í samræmi við hækkun á meðaltekjuskattstofni á árinu heldur munu þau hækka um 1% í samræmi við fjölgun fólks í landinu.

Í greinargerð með frv. kom fram að sóknargjöld og kirkjugarðsgjöld taka breytingum milli ára með viðmið í launavísitölu en ekki verðlagsvísitölu. Þar sem launavísitala hefur hækkað meira en verðlagsvísitala hafa þessi gjöld hækkað umfram almennar verðlagshækkanir til rekstrarverkefna sem fjármögnuð eru úr ríkissjóði undanfarin ár.

Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið úr fjmrn. hafa sóknargjöld að raunvirði hækkað um 50% frá árinu 1990. Sú hækkun hefur að mestu komið fram frá árinu 1997. En samkvæmt þessu hefur framlag til sóknargjalda hækkað úr um 900 millj. kr. á árinu 1997 í 1.350 millj. kr. árið 2001, sem er 450 millj. kr. hækkun á fjögurra ára tímabili.

Sóknargjöld til trúfélaga hækka um 64 millj. á árinu 2002 í staðinn fyrir 165 millj. kr. samkvæmt frv. Verði frv. að lögum, sem ég geri nú ráð fyrir, þýðir þetta lækkun um 100 millj. kr. til trúfélaga sem skiptist milli þeirra eftir fjölda skráðra yfir 16 ára aldri. Í því sambandi vil ég benda á að í fjáraukalögum fyrir árið 2001 sem samþykkt voru á laugardaginn var hækkuðu sóknargjöld um 70 millj. kr. vegna hækkunar á launavísitölu sem ég geri ekki ráð fyrir að þjóðkirkjan eða önnur trúfélög hafi almennt reiknað með í áætlunum sínum. Sú jólagjöf var nú ekki ónýt.

[15:30]

Ég legg áherslu á að hér er um að ræða frystingu á sóknargjöldum og kirkjugarðsgjöldum í eitt ár. Það eru ekki uppi áform um að skerða þau frekar þó ég skilji vissulega ótta kirkjunnar manna í þá veru. Hins vegar verður öllum að vera ljóst að Alþingi sem ber ábyrgð á fjármálum ríkisins hefur vald til að breyta lögum til þess að sjá til að réttlætis sé gætt í samfélaginu.

Hins vegar er ljóst að þessi ráðstöfun kemur mismunandi niður á trúfélögum. Í fyrsta lagi er rekstur þjóðkirkjunnar er fjármagnaður á fjárlögum samkvæmt samningi sem gerður hefur verið við þjóðkirkjuna. Samkvæmt upphaflegu frv. til fjárlaga ársins 2002 eru 1.150 millj. kr. veittar á þessum lið. Það fjármagn stendur m.a. undir launum 138 presta, vígslubiskupa, biskups, starfsmanna á biskupsstofu og reksturs biskupsstofu, embættiskostnaði presta, ýmsum sérverkefnum þjóðkirkjunnar, rekstri prestssetra, söngmálastjóra o.s.frv.

Í öðru lagi er kirkjan fjármögnuð með sóknargjaldi, sem er um 1.350 millj. kr. á fjárlagafrv. fyrir árið 2002. Sóknargjaldið dreifist á kirkjur landsins eftir fjölda þeirra sem skráðir eru í söfnuðinn og stendur undir rekstrarkostnaði, t.d. launum annarra starfsmanna kirkjunnar, kirkjustarfi, rekstri og byggingu sjálfrar sóknarkirkjunnar.

Í þriðja lagi hefur þjóðkirkjan aðgang að Jöfnunarsjóði sókna, en til hans munu renna um 250 millj. kr. samkvæmt fjárlögum ársins 2002. Gjald í þann sjóð er 18,5% álag ofan á sóknargjöld og er framlag ríkisins vegna þeirra sem eru í þjóðkirkjunni. Jöfnunarsjóður er notaður til að veita styrki m.a. til bygginga og viðhalds kirkna, auk þess að jafna aðstöðu milli kirkna þjóðkirkjunnar.

Rekstur trúfélaga utan þjóðkirkjunnar er hins vegar eingöngu fjármagnaður af sóknargjöldum, nema í þeim tilvikum sem safnaðarmeðlimir sjálfir leggja til fjármagn, t.d. þegar verið er að fjármagna einhverjar tilteknar framkvæmdir. Sóknargjöld trúfélaga utan þjóðkirkjunnar standa þannig undir launum presta og annarra starfsmanna trúfélagsins, annarri safnaðarstarfsemi, viðhaldi og endubyggingu kirkjunnar og aðstöðu fyrir söfnuðinn, t.d. safnaðarheimili.

Mikið fjárhagslegt ójafnræði er á milli stöðu safnaða innan þjóðkirkjunnar annars vegar og annarra trúfélaga hins vegar. Ég hef áður á hinu háa Alþingi bent á stöðu fríkirkna hér á landi. Það eru fjölmennar sóknir sem byggja á sömu trúarsetningu og þjóðkirkjan, prestar þeirra stunda nám við guðfræðideild hér á landi og eru vígðir til starfa af biskupi Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá dóms- og kirkjumrn. greiðir ríkið til þjóðkirkjunnar upphæð sem samsvarar rúmum 14.000 kr. á hvert sóknarbarn á ári, í samanburði við tæpar 6.800 kr. til sóknarbarns í öðrum trúfélögum. Ég tel að sérstaklega verði að athuga málefni þessara kirkjudeilda en stórir söfnuðir eins og Fríkirkjan í Reykjavík og í Hafnarfirði hafa nýverið staðið í stórum og fjárfrekum endurbótum á kirkjum sínum, en hafa ekki sömu tækifæri til að sækja um styrki til þessara verkefna og söfnuðir þjóðkirkjunnar. Því er ljóst að skerðing sóknargjalda mun bitna harðar á söfnuðum utan þjóðkirkjunnar en sjálfum söfnuðum þjóðkirkjunnar, eins og kemur fram í nál. hv. allshn. sem barst til hv. efh.- og viðskn. vegna bandormsins sem hér er til umfjöllunar.

Þau sjónarmið hafa heyrst frá prestum þjóðkirkjunnar, en margir þeirra hafa sent þingmönnum vefpóst um málið, að með þessari ráðstöfun skerði ríkið félagsgjöld kirkjunnar sem ákvörðuð eru með lögum, ríkið taki þetta fé ófrjálsri hendi. Samlíking hefur verið tekin við félagsgjöld frjálsra félaga og má í því sambandi benda á að félagsgjöld t.d. stéttarfélaga eru jafnan fast hlutfall af launum félagsmanna. Þar sem launavísitala hefur hækkað umfram verðlagsvísitölu hafa mörg stéttarfélög á undanförnum árum tekið ákvörðun um lækkun viðmiðunarprósentu því að öðrum kosti yrðu félagsgjöldin of há.

Í því sambandi má velta fyrir sér hvaða ákvörðun kirkjan hefði tekið ef hún hefði sjálfræði í að ákvarða upphæð sóknargjalda eins og stéttarfélögin hafa vald til. Mætti jafnvel hugsa sér að kirkjan fengi sams konar vald til að ákvarða sóknargjöld og sveitarfélög til að ákvarða útsvar. Með því yrðu nánari tengsl milli safnaðarmeðlima og kirkjunnar sjálfrar og kirkjan gerð meðvitaðri um ábyrgð hennar á fjármunum almennings.

Varðandi kirkjugarðsgjöld þá hækka þau að sama skapi og sóknargjöld. Þau standa undir rekstri og nýbyggingu kirkjugarða. Það má benda á að upphæð kirkjugarðsgjalds hefur hækkað eins og sóknargjald um 50% að raungildi frá 1990 að teknu tilliti til mannfjölgunar á sama tímabili. Þessi hækkun hefur að mestu verið frá árinu 1997, þannig að skerðing sem forustu menn kirkjugarða hafa haldið fram að hafi orðið á árunum 1989--1997, hefur komið til baka og vel það. Á verðlagi ársins 2001 var framlag ríkisins til kirkjugarða um 400 millj. kr. frá árinu 1990--1996, en á árinu 2001 er það um 600 millj. kr. Það verður nær óbreytt á næsta ári verði bandormurinn að lögum þannig að nú á fjórum árum er hækkun um 200 millj. kr.

Niðurstaða mín í þessu máli er að þó að óheppilegt sé að skerða fé kirkjunnar á þann hátt sem lagt er til í frv. sé ekki óeðlilegt í ljósi þróunar á upphæð sóknargjalds og kirkjugarðsgjalds, þar sem gjöldin hafi hækkað umfram verðlagsbreytingar vegna viðmiðunar við launavísitölu, að gera þá kröfu til kirkjunnar að hún taki þátt í því aðhaldi sem gerðar eru kröfur til varðandi aðra þætti samfélagsins.

Ég vil þó benda á sérstöðu trúfélaga utan þjóðkirkjunnar í þessu sambandi og hvet til að það ójafnræði sem er milli þeirra og þjóðkirkjunnar verði jafnað með einum eða öðrum hætti.

Seinna atriðið sem ég vildi fjalla um í þessari umræðu varðar breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem sjúkraheimili, oft nefnd sjúkrahótel, eru felld úr upptalningu á stofnunum sem falla undir skilgreininguna sjúkrahús. Um leið er skotið lagastoðum undir innheimtu vægs daggjalds vegna dvalar á sjúkrahóteli til að standa undir fæðiskostnaði.

Þróun síðustu ára í löndunum í kringum okkur hefur verið að tengja starfsemi sjúkrahúsa í meiri mæli við sjúkrahótel. Á þeim stöðum sem ég þekki til þykir eðlilegt að viðkomandi einstaklingur greiði vægt gjald vegna vistar á sjúkrahóteli. Á sjúkrahótelum dvelur fólk sem er til meðferðar, t.d. á göngudeildum sjúkrahúsa eða er að jafna sig eftir meðferð en hefur ekki af tilteknum ástæðum möguleika á að fara heim. Á sjúkrahóteli getur það dvalið í öruggu og rólegu umhverfi og fengið skjóta aðstoð ef þörf krefur. Þar hefur nálægðin við sjúkrahúsið skipt máli. Þetta fólk þarf ekki lengur að vera á sjúkrahúsi og því er eðlilegt að leitað sé ódýrari leiða til að koma til móts við tímabundna þörf fyrir stuðning. Á sjúkrahóteli fá viðkomandi ekki virka meðferð eða hjúkrun en njóta eftirlits og stuðnings.

Dæmi um sjúkling sem dvelur á sjúkrahóteli er t.d. kona --- þetta er raunverulegt dæmi --- sem er að jafna sig eftir mjaðmabrot. Hún býr ein í fjölbýlishúsi á fjórðu hæð þar sem ekki er lyfta. Vegna þessara aðstæðna getur hún ekki farið heim en er að öðru leyti sjálfbjarga og leitar því eftir að komast að á sjúkrahóteli.

Annað dæmi væri sjúklingur sem á heima úti á landi en er í lyfjameðferð á sjúkrahúsinu. Stæði þessi kostur ekki til boða þyrfti viðkomandi að búa hjá ættingjum sínum, leigja íbúð í bænum, eða einfaldlega dvelja á sjúkrahúsinu. Væri hann hjá ættingjum eða íbúð úti í bæ hjá ættingjum þyrfti hann a.m.k. að leggja út fyrir kostnaði vegna matar.

Landlæknir kom á fund nefndarinnar þar sem þetta mál var til umræðu. Þar kom fram að fólk greiddi fæðisgjald á sjúkrahóteli Rauða krossins frá 1. janúar til 1. október sl. Ljóst er að lagaheimild var ekki fyrir hendi fyrir þessari gjaldtöku og fæðisgjaldið var um 700 kr. á dag. Landlæknir lýsti því yfir að engar kvartanir hefðu komið frá fólki um þessa gjaldtöku og einnig kom fram að hann setti sig ekki upp á móti slíkri gjaldtöku. Hins vegar var að hans mati álitamál hvort undanskilja ætti sjúkrahótel skilgreiningu á sjúkrahúsi.

Herra forseti. Ég er sammála því að veita heimild til að setja á vægt gjald sem t.d. stæði undir fæðiskostnaði á sjúkrahóteli vegna eðlis starfseminnar og þess að að öðrum kosti væri fólk í flestum tilvikum heima hjá sér. Hins vegar er ekki heimilt að setja slíkt gjald á vegna dvalar á sjúkrahóteli meðan slík starfsemi fellur undir skilgreiningu sjúkrahúsa í heilbrigðisþjónustulögunum með tilvísun í 34. gr. laga um almennar tryggingar, en þar segir: ,,Hverjum þeim, sem sjúkratryggður er skv. 32. gr., skal tryggð ókeypis vist að ráði læknis í sjúkrahúsum.``

Hægt hefði verið að fara aðrar leiðir í þessu máli og undanskilja sjúkrahótel þessari grein almannatryggingalaga. Það þykir hins vegar ekki heppilegt og opnar á hugsanlega frekari gjaldtöku á fleiri stofnunum sem falla undir skilgreiningu sjúkrahúsa. Það er önnur umræða sem væri ágætt að taka síðar.

Hins vegar væri mikilvægt að fara í gagngera endurskoðun á því hvað telst sjúkrahússþjónusta og móta stefnu um hvaða þjónustu á að veita innan og utan sjúkrahúsa og fyrir hvaða þjónustu á að taka gjald og hvaða ekki.

Ég legg áherslu á að sú breyting sem verður á stöðu sjúkrahótela í lögum um heilbrigðisþjónustu verði ekki til að standa í vegi fyrir frekari þróun þessa þjónustuforms, sem er til hagsbóta fyrir sjúklinga og fjárhagslega hagkvæmt fyrir ríkið.