Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 15:43:42 (3212)

2001-12-13 15:43:42# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[15:43]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að legutími á sjúkrahúsum er að styttast. Það er ágætt. En legutími á sjúkrahúsum er að styttast vegna þess að fram hafa komið úrræði eins og sjúkrahótel, ella væru þessir sjúklingar dýrir sjúklingar inni á sjúkrahúsinu.

Valkostirnir eru ekki það að taka þessi gjöld ella fari fólk heim til sín. Þetta er fólk sem getur ekki farið heim til sín. Valkostirnir eru þeir að meðferðarkerfið borgi daggjöld sem dekki þessa þjónustu fyrir fólkið liggjandi inni á þessum ódýru úrræðum. Það er verið að borga daggjald, það er bara ekki nógu hátt.

Það er rangt sem hv. þm. segir, að það sé verið að greiða þarna fæðiskostnað. Það kom fram og hefur ítrekað komið fram að þetta er í raun ekki fæðiskostnaður þó það sé kallað það. Þetta er greiðsla fyrir viðbótarrýmin sem þörf er fyrir. Það er verið að nota fleiri en þessi 28 rými sem eru á sjúkrahótelinu. Það er verið að nota allt upp í 50 rými og Rauði krossinn borgar mismuninn, eftir þeim upplýsingum sem við fengum. Þessar 700 kr. eru rukkaðar af þessum sjúklingum til að borga upp í það gjald. Það kom fram alveg skýrt. Það vil ég líka gagnrýna því svona gjaldtaka á auðvitað að vera gagnsæ ef hún er á annað borð. En ég er á móti svona gjaldtöku. Ég tel að velferðarkerfið eigi að standa undir og greiða þegar fólk er orðið sjúkt.

Ég nefndi lífeyrisþegana. Ef lífeyrisþegi er búinn að vera inni á sjúkrahúsi í fjóra mánuði á tveimur árum, þó það hafi ekki verið samfellt, þá er hann búinn að missa greiðslurnar sínar, hann fær ekki lífeyrisgreiðslur. Samt á hann að borga 21.000 kr. ef hann í mánuð inni á sjúkrahóteli. Hvaðan á hinn aldraði að taka þá peninga? Ég spyr hv. þm.

Jafnaðarmenn vilja standa vörð um velferðarþjónustuna, m.a. með því að láta fólk ekki greiða fyrir þegar það er svo veikt að það kemst ekki heim til sín og verður að liggja á sjúkrahóteli.