Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:41:41 (3225)

2001-12-13 16:41:41# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:41]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Nú verð ég að minna hv. þm. á --- ég veit að hún var ekki kominn á þing þegar þetta var og ég var ekki mikið hér á þinginu þá heldur --- en það var ríkisstjórn Davíðs Oddssonar sem þá var við völd og það var Sjálfstfl. sem leiddi og verkstýrði þeirri ríkisstjórn. Það var íhaldsstefnan sem ríkti. Það var ekki jafnaðarstefna. Það var heldur ekki jafnaðarstefna sem ríkti í heilbrrn. á þeim tíma (ÁMöl: Nú?) og ég var mjög ósátt við þá stefnu. (Gripið fram í.) Það var verkstjóri sem heitir Davíð Oddsson sem stýrði þeirri ríkisstjórn alveg eins og þeirri ríkisstjórn sem nú er, sem veitist aftur að velferðarkerfinu þegar þrengir í ári. Þá verða ráðherrarnir sem eru með þeim í ríkisstjórn að gjöra svo vel að bera hitann og þungann af niðurskurðinum, alveg eins og hæstv. heilbrrh. nú, það þarf enginn að segja mér að það sé stefna Framsfl. að veitast að velferðarkerfinu. Ég þykist halda að svo sé ekki.

Ég verð að segja vegna ummæla hv. þm. hér, um að af 24 löndum þá séu heimilin á Íslandi í fjórða sæti varðandi útgjöld til heilbrigðiskerfisins, að það hjálpar ákaflega lítið sjúklingunum sem ekki hafa efni á að fara í aðgerðirnar núna eftir áramótin, þ.e. í hvaða sæti við erum og heimilin.

Sjúklingar á Íslandi greiða mjög há gjöld og þau hafa hækkað. Eins og ég fór yfir í ræðu minni hefur lyfjakostnaður ákveðinna sjúklinga aukist um allt að því 900% samkvæmt rannsókn BSRB. Gjöld sjúklinga vegna ákveðinna lyfja hafa aukist um 900%.

Göngudeildargjöldin hafa hækkað. Sérfræðilæknishjálpin hefur orðið þeim dýrari. Þökin á hámarksgreiðslunum hafa hækkað o.s.frv. Ég get farið yfir þetta allt saman aftur vegna þess að ég veit að hv. þm. hefur gaman af því að hlusta á mig endurtaka þetta aftur og aftur. Nú á að taka hálfan milljarð inn í tekjuafganginn af sjúklingum.