Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 16:43:57 (3226)

2001-12-13 16:43:57# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[16:43]

Ásta Möller (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nú sérstakur dómur sem hv. þm. felldi um eigin félaga. Það sem hún sagði bar a.m.k. merki um máttleysi jafnaðarmanna. Þeir bera sem sagt enga ábyrgð og hafa engin áhrif í ríkisstjórn með Sjálfstfl. þegar þeir halda utan um ákveðin embætti. Þetta finnst mér vera ákveðin lexía til kjósenda, að jafnaðarmenn hafa sem sagt engin áhrif.

Ég vil koma að öðru í þessu sambandi. Það er verið að deila um hvort sjúkrahótel séu sjúkrahús eða hótel. Miðað við lýsingu frá landlæknisembættinu á því hvers konar sjúkrahótel þetta eru mundi ég telja að þetta væri frekar hótel heldur en sjúkrahús. Áherslan er á ,,hótel`` en ekki ,,sjúkra``. Í umsögn landlæknisembættisins segir:

,,Á sjúkrahótelinu eru einbýli og tvíbýli. Sími á hverju herbergi. Þar geta allir aldurshópar dvalið, einnig aðstandendur. Allir sjúklingar eru í tengslum við meðferðarstofnun í bænum. Ef eitthvað breytist varðandi heilsu, líðan eða meðferð fer sjúklingur á viðkomandi meðferðarstofnun.

Reiknað er með að sjúklingar sem dvelja á hótelinu séu að mestu sjálfbjarga. Aðstaða fyrir hjólastóla og önnur hjálpartæki er fyrir hendi. Dvalargestir borða í sameiginlegum matsal og þurfa að koma sér sjálfir þangað.``

Það kemur einnig fram í umsögn landlæknis að áhersla er lögð á að þetta er ekki sjúkradeild heldur sjúkrahótel. Ég vildi koma með álit landlæknis inn í þessa umræðu og benda á hvers konar þjónustu þarna er um að ræða. Ég er ekki að gera lítið úr því að auðvitað er sú þjónusta sem þarna er veitt ákveðinn stuðningur við fólkið á sjúkrahótelinu en að öðrum kosti væri þetta fólk heima og fengi stuðning þar. Það mundi jafnframt greiða fæðiskostnað ef það væri heima.

En þetta er ákveðinn valkostur, góður valkostur. Fólk hefur ekki kvartað undan því að þurfa að greiða fyrir þjónustuna, það kom líka fram hjá landlækni. Það hefur ekki kvartað undan því og fagnar því að hafa þennan valkost, að fara á sjúkrahótel í stað þess að fara heim sem hefði verið erfiðara fyrir það, eins og ég lýsti hér áðan.