Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:21:41 (3230)

2001-12-13 17:21:41# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu. Mér þótti hún í fyrsta lagi svo dapurleg að ekki væri á það bætandi að hryggja fólk frekar en orðið er. En ég get ekki látið það hjá líða í ljósi þeirra ummæla sem hér hafa fallið í dag og grátbroslegra tilrauna einstakra þingmanna til að mæla þessum óskapnaði bót sem hér er á borðum þingmanna. Þar hafa farið fremstar í flokki þær skjaldmeyjar, hv. þm. Ásta Möller og hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir, formaður þingflokks Sjálfstfl. Ætla ég að víkja orðum að þeim á eftir.

Ég sagði að þessi umræða væri dapurleg, herra forseti. Af hverju er hún það? Jú, við erum að ræða bandorm sem hæstv. forsrh. hefur á síðari árum gumað af að hafi skroppið saman og að ríkisstjórnin hafi á tímum meints góðæris ekki haft þörf á að breyta sérstaklega lögum í landinu með þessum hætti til þess að skapa sér svigrúm annars vegar til þess að skera niður útgjöld ellegar til þess að afla nýrra tekna.

En nú bregður nýrra við. Þessi gamli skröltormur hefur fengið nýtt líf. Í mörgum greinum er nú verið að sækja, annaðhvort með því að hækka álögur ellegar með því að draga úr löggiltum framlögum, 1 milljarð kr. Ég segi og skrifa 1 milljarð kr. af fjárlögum sem telja hátt á þriðja hundrað milljarða kr. Það lá svo mikið við að sækja peninga í vasa sjúklinga, í vasa námsmanna, í vasa ferðamanna sem fer nú ört fækkandi af ástæðum sem við ráðum lítt við, að það þurfti að setja hér á langan skröltorm til þess að breyta lögum og lagfæra í samræmi við niðurstöður fjárlaga. Það er auðvitað önnur Ella sem ég hirði ekki um að fara orðum um. Menn hafa gert það hressilega og með viti bornum hætti fyrr í dag. Að búa fjárlögin í raun þannig, til að gera þau þannig úr garði að þau standist lög einhverjum dögum eftir að þau eru njörfuð hér niður er auðvitað öfugverk og ekki rétt að verki staðið. Fyrst á að skipa lögum á þann veg að tölur í fjárlagafrv. geti staðist og að þau lög standist önnur lög. Hér er því farið aftan að hlutum.

Svo veltir maður því fyrir sér, herra forseti, og að því leytinu til er þessi umræða ekki algjörlega tilgangslaus eins og hér hefur verið haldið fram, hvað verið sé að véla um utan þessa húss hér í annars vonandi ágætum viðræðum stjórnvalda við fulltrúa atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar. Það kæmi mér nefnilega ekki á óvart --- ég hef það mikla trú á okkar öflugu verkalýðshreyfingu --- að hún setti hnefann í borðið núna á þessum dögum og klukkutímum í viðræðum aðila vinnumarkaðarins með atbeina ríkisstjórnarinnar og kæmi einhverju af því sem hér er á borðum þingmanna í lóg. Ég vona svo sannarlega að það verði a.m.k. þannig því að ég minnist þess frá fyrri tímum og allar götur raunar, að verkalýðshreyfingin hefur með réttu viljað vera vakandi fyrir réttindum þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.

Það er einmitt það fólk sem við erum að ræða hér, sem hlífa skyldi, og ekki síst þegar við erum enn, eftir því sem stjórnarherrarnir segja, í myljandi góðæri og að eingöngu sé spurning um nokkrar vikur, í mesta lagi mánuði þar til íslensk þjóð og íslenskt þjóðarbú fer að rétta úr kútnum. En engu má eira. Ég undirstrika, herra forseti, að ekki er eingöngu um þær krónur og þá aura að ræða hér sem að baki þessum lagabreytingum standa. Nei, það þarf að leggja á sig þessa lykkju til þess að breyta gildandi lögum til þess að skjóta stoðum undir til að mynda 10 millj. kr., heilar 10 millj. kr. í veltu upp á sjötta tug milljarða í heilbrrn.

Af því að hæstv. ráðherra heilbrigðismála situr hér og er viðstaddur þessa umræðu, eins og hann hefur verið í allan dag og raunar liðna daga, þá vil ég spyrja hann beint: Hvenær ætlar hann að endurgreiða þeim sjúklingum sem hafa greitt 700 kr. á hverjum einasta degi frá síðustu áramótum þegar forveri hans í ráðuneytinu upphóf það án þess að leita eðlilegra heimilda frá Alþingi, án þess að spyrja kóng eða prest --- hvenær ætlar hæstv. heilbrrh., eftirmaður þess ráðherra sem setti þessi gjöld á, að endurgreiða þeim sem oftekið hefur verið af? Ég sé það hvergi í fjárlögum að gert sé ráð fyrir neinni mínustölu í því. Ég sé hvergi í fjárlögum annað en þessar 10 millj. sem ná á af sjúklingum á sjúkrahóteli á næsta ári. Mér er því skapi næst að halda að allar þessar 10 millj. fari í endurgreiðslu af því sem þegar hefur verið oftekið. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra svari mér því hispurslaust.

Hins vegar er eftirtektarvert að í allri þessari umræðu, ekki bara núna í 2. umr. heldur mestan part í þeirri fyrst, þegar hæstv. forsrh. mælti fyrir þessu frv., hefur fjarvera Framsfl. verið afskaplega hrópandi. Heilbrrn. og heilbrigðisgeirinn eru með helminginn af þeirri upphæð sem liggur undir hér, þeim milljarði eða þar um bil sem verið er að sækjast eftir. Það var eingöngu í örstuttri ræðu að Kristinn H. Gunnarsson, formanns þingflokksins, sem lagði hér orð í belg í almennri ræðu. Við 2. umr. málsins hefur enginn, enn þá a.m.k. hvað sem síðar verður, fulltrúi Framsfl. sem á hér stóran hluta, ber mikla ábyrgð á þeim lagabreytingum sem hér eru lagðar til, og pólitíska ábyrgð, haldið ræðu. Rétt skal vera rétt. Hæstv. heilbrrh. hefur komið í andsvör og svarað því sem til hans hefur verið beint. En mig vantar og ég leita eftir hinni pólitísku línulögn þess flokks sem ber jafna ábyrgð á móts við Sjálfstfl. í þessum efnum.

Um hann er auðvitað hægt að fara mörgum orðum. Ég hygg satt að segja, herra forseti, að ræður þeirra skjaldmeyja, hv. þingmanna Ástu Möller og Sigríðar Önnu Þórðardóttur, hafi sagt allt sem segja þurfti. Þær stóðu hér keikar og sögðu að um eðlilegan og sjálfsagðan hlut væri að ræða þegar verið væri að sækja 700 kr. hjá fólki sem þarf að leggjast inn á sjúkrahótel og að það þurfi að fara alla þá leið að skjóta þessari mikilvægu stofnun, sem ég hafði trú á og vonaðist til að yrði enn öflugri í heilbrigðiskerfi okkar því að þar er um ódýrt, hagkvæmt og gott úrræði að ræða fyrir veikt fólk í landinu --- nei, þá leggja menn það á sig að skjóta því á ská út úr heilbrigðiskerfinu og láta líta út fyrir að þarna sé um svona gistihús að ræða sem menn geti bara farið á af því að þá langar til, (ÁRJ: Gaman.) bara af því að þar er viðurværið svo gott og kannski svo ódýrt, sjöhundruðkallinn.

Hvers konar málflutningur er þetta? Dettur nokkrum í hug sem þangað hefur litið inn að eitthvað af því fólki sem þar er sé þar vegna þess að það vilji vera þar, af því að svo ódýrt sé að vera þar? Nei, það er auðvitað fjarri öllu lagi. Fólk er þarna vegna þess að það hefur leitað sér læknis og það þarf að vera nærri bestu og stærstu sjúkrastofnunum okkar í landinu. Halda menn að það hafi verið einhver tilviljun að menn völdu einmitt þennan stað? Það var vegna nálægðarinnar við Landspítalann, okkar stóra sjúkrahús.

[17:30]

Þannig að, herra forseti, 10 millj. kr. eru auðvitað smáupphæð í okkar stóra dæmi. Einmitt þess vegna spyr maður sig: Hvers vegna að leggja í þennan leiðangur fyrir þessar krónur og aura, sem er sáralítið fyrir ríkissjóð, sáralítið fyrir heilbrigðiskerfið, en verulegir peningar fyrir þá sem borga þurfa? Það er búið að fara hér mjög rækilega yfir hvað það getur þýtt fyrir hvern einstakling sem þarf að standa skil á þessum kostnaðargjöldum. Það munar um minna fyrir það fólk sem hefur kannski í sumum tilvikum engar aðrar tekjur en örorkubætur frá hinu opinbera og kannski hjálp frá fjölskyldum. Það munar auðvitað um það. Það sér hver einasti maður.

Herra forseti. Mér hitnar í hamsi við að heyra fólk tala í þá veruna að þetta úrræði í heilbrigðismálum, sem menn hafa horft til vonaraugum, sé bara einhver valkvæður kostur, að þeir öldruðu sem þar eru, krabbameinssjúklingar, velji bara þann kostinn. Það mátti skilja það hér áðan á hv. þm. Ástu Möller að sennilega væri ódýrara fyrir þá að vera þarna fyrir sjöhundruðkallinn heldur en að vera heima hjá sér og þurfa að borga ofan í sig. Að hlusta á þennan málflutning, herra forseti, er ótrúlegt. Það var kannski þetta fyrst og síðast sem kallaði mig hingað upp.

Ég hélt, trúði því, að þessir hv. þingmenn sem ég hef nefnt hér til sögu af þessum ástæðum, hugsuðu öðruvísi. Þeir hafa sýnt af sér annað. Þeir hafa á köflum talað í þá veru að þeim sé umhugað um fólkið, sem ég veit og vil trúa að okkur öllum sé umhugað um, það sem höllum fæti stendur. Að minnsta kosti hafa fulltrúar Sjálfstfl. oftar en ekki komið í þennan ræðustól og hlýtt hér ráðherrum og öðrum yfir um hag þessa fólks í smáu og stóru. En svo þegar til kastanna kemur þá eru 10 millj. léttteknar hjá þessu fólki. Þá er létt að segja það og hægt að tala um væga gjaldtöku.

Af því ég er á annað borð, herra forseti, að tala um þessa tvo hv. þm. sem fóru mikinn í umræðunni fyrr í dag þá minni ég á að þeir reyndu líka að réttlæta og færa rök fyrir því að ríkissjóður er skattlegði kirkjuna í landinu og trúarflokka. Þær reyndu að færa rök fyrir því, hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir og hv. þm. Ásta Möller, að það væri bara eðlilegt og sjálfsagt að tína af kirkjunni tugi millj. króna af innheimtu sem ríkissjóður hefur undirgengist að taka að sér.

Það er ekki skrýtið þó að prestar þessa lands, sem eru nú þessa dagana verða næstu vikurnar að undirstrika fyrir alþjóð og almenningi í þessu landi gildi kristinnar trúar, gildi þess að það standi sem sagt er, gildi eignarréttarins a.m.k., að það sé ekki tekið ófrjálsri hendi sem annar á. (Gripið fram í: Þetta er ekki skattstofn.) Þetta er einmitt ekki skattstofn.

Þar kom hv. þm. að kjarna málsins, þetta er nefnilega ekki skattstofn ríkisins. Ríkið hefur ekkert með það að gera að ráðstafa honum að eigin vild, rukka hann 100% en skila honum 80%. Ég ætla ekki að nota það orð sem sennilega hefur oftast verið notað í kirkjum landsins um slíkt en ég held að það liggi í augum uppi hvað þetta þýðir á íslensku máli.

Herra forseti. Mér finnst þessi tvö dæmi í raun segja allt sem segja þarf um þankaganginn, þá pólitík og þá hugsun sem efst er í hugum stjórnarliða nú á aðventunni. Þetta þykir mönnum skipta mestu máli. Það er þetta sem menn teygja sig eftir þegar þörf þykir á að spara litla 2 milljarða kr., herra forseti. Litla 2 milljarða króna --- stóra átakið í sparnaði, viðreisnin til að stoppa útgjaldahrinuna í ríkiskerfinu. Bara að sækja 10 millj. á sjúkrahótelið og 70 eða 100 millj. til kirkjunnar. Þarna voru pottarnir sem eðlilegt þótti að sækja í.

Herra forseti. Ég þarf ekki meira um þetta að segja. Mér finnst myndin öll afskaplega skýr þegar ljóslifandi dæmi á borð við þessi eru skoðuð í þaula.