Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:40:04 (3233)

2001-12-13 17:40:04# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:40]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði sem ég vildi láta koma skýrt fram. Mér heyrðist á máli hv. þm. að hann hefði kveðið upp þann dóm hér í ræðustól að gjaldtakan hafi verið ólögleg fyrr á árinu. Ég er ekki sammála því (Gripið fram í.) en hins vegar vildi ég taka af allan vafa í þessu efni. Þar með er ekki sagt að ég vilji kveða upp dóm um að þessi gjaldtaka hafi verið ólögleg.

Annað vildi ég leiðrétta. Ég tel að menn fari nokkuð fram úr sjálfum sér í þeim málflutningi að það sé verið að skáskjóta sjúkrahótelunum út úr heilbrigðiskerfinu. Það er aðeins verið að taka af vafa um að hér er ekki um sjúkrahúsvist að ræða. Þar með er ekki sagt að þetta úrræði sé komið út úr heilbrigðiskerfinu. Það er víðs fjarri. Heilbrigðiskerfið er saman sett af mörgum þáttum innan og utan sjúkrahúsa. Ég vona að hv. þm. fari ekki svona fram úr sér í málflutningi sínum að tala um annað. Því færi víðs fjarri.

Hér er eingöngu verið að taka af allan vafa um að hér er ekki um sjúkrahúsvist að ræða. Þetta er úrræði fyrir fólk sem hefur verið útskrifað af sjúkrahúsum.