Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:43:33 (3235)

2001-12-13 17:43:33# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram í ræðu hv. þm. að hann hefði hlustað vel á ræður sem hér hefðu verið fluttar. Þegar hann kom hér með miklum gusti var ég sannfærður um að hann væri kominn til þess að andmæla fullyrðingum hv. þingmanna hér í salnum um að hann og Sighvatur Björgvinsson hefðu verið viljalaus verkfæri í ríkisstjórninni 1991--1995. Því var haldið fram hér í salnum, að hann sem hæstv. heilbrrh. og Sighvatur Björgvinsson hefðu verið viljalaus verkfæri í ríkisstjórninni 1991--1995.

Ég upplifði hann ekki þannig, ég tek það fram. Ég upplifði hann alls ekki þannig nema síður væri.

Í annan stað sagði sami þingmaður reyndar --- það hefur hv. þm. heyrt, ég veit að hann hefur fylgst með þessu --- að reyndar liti sá þingmaður ekki svo á að þessir tveir menn, sem nefndir voru, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, hefðu verið sannir jafnaðarmenn.

Ég gerði því ráð fyrir að hinn gustmikli þingmaður hefði komið hér upp í stólinn til að svara þessu. En mér urðu það vonbrigði að hann fór út á einhverjar allt aðrar brautir.