Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 17:47:43 (3238)

2001-12-13 17:47:43# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[17:47]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem ekki miklu við þetta að bæta. Ég þakka hæstv. forsrh. hólið alveg sérstaklega. En til þess að halda heildarmyndinni hér ... (SJS: Eruð þið nokkuð að fara saman aftur?) Maður skyldi aldrei segja aldrei í þessu lífi en það þarf að vísu ýmislegt að breytast. En eingöngu til að halda hinni stóru mynd til haga og árétta það sem ég var að koma hér á framfæri --- að ég sé mjög fasmikill eða hvaða orð notaði hæstv. forsrh.? (Forsrh.: ...gustaði.) Það er vegna þess að mér er heitt í hamsi. Ég var að lýsa heildarmyndinni í samfélagi okkar og leggja áherslu á að með þennan stóra pakka, þessa miklu peninga, sem menn hafa umleikis þurfi þeir að leggja sérstaklega lykkju á leið sína til að koma mikilvægum og góðum valkosti út úr heilbrigðiskerfinu til að þar megi rukka inn upp á 10 millj. kr.

Það voru þessar þverstæður sem ég var að vekja sérstaka athygli á, og nefndi það líka af því að flokkur hæstv. forsrh. hefur gjarnan í gegnum áratugina talað um mikilvægi þess að standa vörð um grundvallarstofnanir eins og kirkjuna --- ég skil satt að segja ekki það ferðalag sem stjórnarmeirihlutinn undir forustu Sjálfstfl. er á í árás sinni á kirkjuna í landinu. Ég botna bara ekkert í því í ljósi sögu þessa flokks og samskipta hans við þessi grundvallargildi, ef svo mætti orða það, í þjóðfélagi okkar.

En svona er þetta í dag. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið svona 1993. Ég vona svo sannarlega ekki.