Ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 18:55:29 (3257)

2001-12-13 18:55:29# 127. lþ. 54.4 fundur 348. mál: #A ráðstafanir í ríkisfjármálum 2002# (breyting ýmissa laga) frv. 148/2001, SJóh (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Samfylkingin mótmælir því að innritunargjöld í framhaldsskólum hækki og vill benda á að lög um framhaldsskóla voru samþykkt árið 1996 og þá var samþykkt að innritunargjald skyldi aldrei verða hærra en 6 þús. kr. Hækkun vísitölu síðan 1996 er 17,25%. Við mótmælum 40% hækkun innritunargjalda nú undir því yfirskyni að hér sé um réttlætanlega vísitöluhækkun að ræða.

Sú 100% hækkun efnisgjalda sem hér er verið að ákveða að nemendur í verknámi greiði er engan veginn réttlætanleg. Þetta efnisgjald var ákveðið 25 þús. kr. á ári árið 1996 og engar vísitölur réttlæta 50 þús. kr. gjaldtöku fyrir efniskostnað nú. Auk þess þurfa þessir nemendur að greiða allt að 65 þús. kr. á önn í verkfærakostnað og 30--50 þús. kr. á önn í bókakostnað. Þeir sem leggja slíkar álögur á ungt fólk í verklegu námi verða þeim mun hallærislegri þegar þeir svo á hátíðum og tyllidögum harma það að þeim sem ljúka verklegu námi á Íslandi fari fækkandi.