Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:53:02 (3284)

2001-12-13 21:53:02# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 2. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:53]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Í tæp 50 ár hafa verið við lýði sérstakar reglur um leigubifreiðastjóra sem gera það að verkum að aðkoma að greininni er mjög takmörkuð og sú umræða fór að einhverju leyti fram í samgn. um hvort þessar takmarkanir væru nauðsynlegar.

Ekki kom mikið fram í raun og veru í þeirri umræðu annað en það að Svíar hefðu sennilega reynt eitthvað í þessum efnum, hefðu gefið þetta frjálst og að sögn þeirra sem komu fyrir nefndina hefði þar allt farið í bál og brand. Þeir hefðu upplifað það að atvinnufrelsi og samkeppni væri skelfileg í þessum geira. Því miður var þetta ekkert rökstutt. Því miður voru ekki sett fram nein dæmi. Því miður var ekkert farið yfir það í nefndinni nákvæmlega hvað það var sem misfórst í Svíaríki. Þess vegna vil ég spyrja hv. þm. Guðmund Hallvarðsson og óska eftir því að hann gefi tiltekin dæmi um það sem misfórst í þeirri breytingu í Svíþjóð.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, vil ég beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, formanns samgn., hvað geri það að verkum að nauðsynlegt er að innheimta 10 millj. á ári af leigubílstjórum til þess að halda utan um þetta kerfi sem ég á eftir að fjalla um og dreg stórlega í efa að standist. Hvað gerir það að verkum að innheimta þarf 10 millj. á ári bara við það að málaflokkurinn er færður yfir til Vegagerðar en það sér ekki staf í því að á nokkurn hátt sé skorið niður á móti á aðalskrifstofu samgrn.?