Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 21:58:56 (3287)

2001-12-13 21:58:56# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[21:58]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi, kannski gagnspurt. Er hv. þm. Lúðvík Bergvinsson á móti því að fólksflutningabílar séu skoðaðir árlega eða gerðar séu sérstakar kröfur til leigubifreiða sem snúa að öryggismálum? Hvað áhrærir hins vegar frjálsræðið í þessu þá sé ég fram á það að ef allar girðingar væru aflagðar eins og ég kom inn á í framsöguræðu minni hvað varðar Reykjavík annars vegar og Suðurnes og síðan austur á land og í vesturátt, ef þetta væri allt gefið frjálst, hvaða öryggi væri þá í því að fólk t.d. í Keflavík gæti fengið leigubíl þar á laugardagskvöldi? Hvaða trygging væri það fyrir fólk á Selfossi eða Akranesi eða Borgarnesi? Mundu ekki þessir leigubílar leita á Reykjavíkursvæðið?

Ég er ekki á móti takmörkunum í sjálfu sér hvað áhrærir atvinnustarfsemi. Það tók mörg ár að leggja af ákveðnar takmarkanir um að verkamenn í Reykjavík mættu fara austur fyrir læk vegna þess að það kostaði stórfé. Allt hefur þetta breyst. En það sem við viljum tryggja með leigubílafrv. er það að fólk fái þjónustuna, að til sé þjónusta eins og t.d. í Keflavík, það dæmi sem ég gat um áðan. Við verðum að hafa takmarkanir á leigubílaakstri í Reykjavík vegna þess að ef við gerðum það ekki, þá mundu menn koma og fara. Það yrði stutt viðdvöl hvers og eins í leigubílaakstrinum og það mundi ekki til langtíma litið þjóna viðskipavininum.