Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:00:51 (3288)

2001-12-13 22:00:51# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgn., hefur fylgt úr hlaði nál. og brtt. meiri hlutans. Mig langar að spyrja hann aðeins út í þennan svo kallaða leigubílaskatt sem hér er á ferðinni.

Í upphafi voru þetta 5 þús. kr. greiddar einu sinni fyrir leyfið sem gat verið til 20 jafnvel 25 ára. Fyrsta spurning mín er varðandi þá aðila sem hafa þetta leyfi í dag og borguðu 5 þús. kr., samkvæmt gildandi lögum, og eru með útgefið skírteini sem dugar kannski 15--20 ár í viðbót. Getur hv. þm. og meiri hlutinn fullvissað okkur um að lagastoð sé fyrir því að taka þetta gjald núna árlega, 10 þús. kr.?

Í öðru lagi. Þessi 10 þús. kr. leigubílaskattur sem hér er verið að leggja á, sem ég er algerlega andvígur því ég tel að þessi grein borgi þegar nægilega mikið til ríkisins í formi virðisaukaskatts af mælanlegu stöðvargjaldi og öðru, hefur tekið töluverðum breytingum. Í fyrsta lagi, þegar maður sá þetta fyrst, var hann áætlaður 8 þús. kr. Þegar frv. kom fram í fyrra var hann kominn upp í 16 þús. kr. Þegar frv. var samþykkt var hann 13 þús. kr. (Gripið fram í.) og nú er hann, hæstv. samgrh., skattur upp á 10 þús. kr., leigubílaskattur upp á 10 þús. kr. Því vil ég spyrja hv. þm.: Telur hann núna að hann sé m.a. að uppfylla samþykkt landsfundar Sjálfstfl. sem hljóðaði svo um þessa atvinnugrein, með leyfi forseta:

,,Lagt er til að endurskoðuð verði lög og reglur um leigubifreiðaakstur og rekstur bifreiðastöðva með það að markmiði að draga úr miðstýringu og opinberum afskiptum.``

Tilvitnun lýkur í landsfundarsamþykkt Sjálfstfl.