Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:03:02 (3289)

2001-12-13 22:03:02# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. meiri hluta GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:03]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að þó að á sínum tíma hafi verið veitt einhver starfsleyfi til eins eða tveggja tuga ára þá gildi það ekki varðandi þær greiðslur sem nú er ætlast til að inntar séu af hendi árlega, þ.e. þessar 10 þús. kr.

Í annan stað varðandi það hlaup sem hefur verið á upphæðum um nokkurt skeið. Upphæðin er nú 10 þús. kr. Í lagafrv. var gert ráð fyrir að þetta væru 13 þús., en að betur athuguðu máli sér meiri hlutinn fram á að 10 þús. kr. muni duga til þess að dekka þann kostnað sem verður núna a.m.k. í tvö til þrjú ár til þess að koma þessu kerfi á til að hafa heildarsýn yfir málið.

Varðandi það hvort þetta falli innan ramma landsfundar Sjálfstfl. þá er það nú svo að að sumu leyti, að nokkru leyti fellur það þar undir. Það er alveg rétt. Það er hins vegar mjög gott að vita til þess að samfylkingarmenn horfi svo mjög til landsfundarsamþykktar Sjálfstfl. Hún er mjög yfirgripsmikil, víðáttumikil og boðar nýjungar. Ég hef ekki séð stefnuyfirlýsingu eða landsfundarsamþykkt Samfylkingarinnar. Hvað segir hún um leigubíla? (Gripið fram í.) Það er kannski ekkert þar. En gerið þið svo vel, ef þið viljið fá fleiri eintök af landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. skal ég útvega ykkur hana. (Gripið fram í.)