Leigubifreiðar

Fimmtudaginn 13. desember 2001, kl. 22:05:17 (3290)

2001-12-13 22:05:17# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, Frsm. 1. minni hluta JB
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[22:05]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. 1. minni hluta samgn. um frv. til laga um leigubifreiðar.

Með frumvarpi því sem hér er til umfjöllunar eru lagðar til grundvallarbreytingar á stjórn leigubifreiðamála í landinu. Ráðgert er, nái þetta frv. fram að ganga, að færa stjórn leigubifreiðamála frá ráðuneyti samgöngumála til Vegagerðarinnar. Frumvarp sama efnis var lagt fram á seinasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Frumvarpið hefur tekið nokkrum breytingum, reyndar til batnaðar frá því að það var lagt fram þá og meiri hluti nefndarinnar leggur fram margar breytingar á því sem að áliti 1. minni hluta eru flestar til bóta. Engu síður eru atriði í frumvarpinu sem gera það að verkum að 1. minni hluti getur ekki stutt málið óbreytt.

Fyrsti minni hluti leggur áherslu á að þjónusta leigubifreiða og leigubifreiðaakstur séu einn af grunnþáttum almannasamgangna í landinu. Mikilvægt er því að tryggja góða, örugga og ódýra þjónustu en um leið eðlileg starfskjör leigubifreiðastjóra. Lagasetning um þessa þjónustu þarf því að taka mið af því að þjónustan verði tiltæk og í boði sem allra víðast á landinu. Nauðsynlegt er að þessi grundvallarmarkmið og tilgangur laganna séu skýrt orðuð í lögunum sjálfum.

Herra forseti. Þetta þykir mér einmitt hvað helst á skorta í þessu frv. til laga um leigubifreiðar, þ.e. að þar sé undirstrikað að markmið laganna sé í raun að skapa þá umgjörð að þau stuðli að og tryggi að þessi þjónusta sé til staðar og í boði sem allra víðast á landinu. Það er grunnur þessa starfs. Markmið laganna, að mínu mati, tekur allt of mikið mið af því hvernig á að keyra þetta inn í miðstýringu og menn gefa sér nærri því að þessi atvinnurekstur sé eitthvað sem samfélagið eigi í erfiðleikum með og þess vegna verði að beita hann eins miklum takmörkunum og hægt er. Þó að þetta sé ekki sagt berum orðum, herra forseti, er þarna grundvallarmunur frá þeirri sýn sem sá sem hér talar hefur á þessa þjónustu. Markmiðið er að þessi þjónusta sé í boði, hún sé örugg, góð þjónusta og sem ódýrust alls staðar eða svo víða sem nokkur kostur er á landinu. Það á ekki bara að hugsa svona lagaumgjörð út frá aðstæðum á höfuðborgarsvæðinu eins og við upplifum svo oft, þ.e. að lagasetningar taki einungis mið af þeim veruleika sem er á þessu nærsvæði, höfuðborgarsvæðinu, en síður til þeirra miklu hagsmuna sem eru fólgnir í því að þessi þjónusta sé í boði og tiltæk og góð um allt land.

Þetta vildi ég láta koma fram, herra forseti, að ég tel meginveikleika frv. þessa afstöðu, þessa sýn. Þó verð ég að segja mönnum það til hróss að í nál. hv. meiri hluta er þó vikið að þessu orðum og þar bætt nokkuð úr þeim kalda anda sem mér finnst að frv. í sjálfu sér sýni gagnvart þjónustunni sem slíkri.

Varðandi síðan ýmis önnur framkvæmdaratriði telur fyrsti minni hluti að ákvæði 9. gr. frumvarpsins, er lýtur m.a. að veitingu undanþágna frá akstri eigin bifreiðar vegna töku orlofs, sé ófullnægjandi. Við umfjöllun nefndarinnar um málið komu fram upplýsingar um að framkvæmd núgildandi laga og reglna settra samkvæmt þeim hefði í einhverjum tilvikum stangast á við lög nr. 30/1987, um orlof. Var gagnrýnin einkum fólgin í því að laugardagar og sunnudagar hefðu á sumum svæðum verið reiknaðir með í orlofstöku sem er andstætt ákvæðum laga um orlof. Til að tryggja að leigubifreiðastjórar njóti orlofskjara á við aðra leggur 1. minni hluti áherslu á að farið verði að ákvæðum orlofslaga við veitingu undanþágna eftir því sem við getur átt. Meiri hlutinn nefnir þetta í áliti sínu en tryggara er að þetta birtist í lögunum sjálfum þannig að menn þurfi ekki að velkjast í vafa um hver hinn raunverulegi vilji er í þessu máli.

Herra forseti. Fyrsti minni hluti dregur í efa nauðsyn þess að starfræktur verði gagnagrunnur á þann hátt sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Eiginlega er megininntak í mörgum af þeim frv. sem birtast nú í þinginu, bæði á þessu ári og hinu síðasta, þessi ofboðslega miðstýringarárátta, árátta að safna inn gögnum, safna inn upplýsingum um allt mögulegt og keyra inn í einhvern miðlægan grunn til að geta síðan beitt miðstýringu, til að leita að öllum þeim þáttum sem hægt er að gera að gjaldstofni. Engin takmörk eru fyrir þessari gjaldáráttu. Þessi gagnasöfnun virðist vera ein af þeim forsendum sem verið er að leggja upp fyrir gjaldtöku. Það þarf vottorð hér og vottorð þar, endurnýjun á vottorði hér og endurnýjun á vottorði þar, eftirlitsgjald hér og eftirlitsgjald þar. Þetta er rauður þráður. Þetta er gjaldheimta að hætti hússins, eins og hér hefur verið nefnt áður í þingsölum af hálfu Sjálfstfl., miðstýring og gjaldheimta, skattur hér, eftirlitsgjald þar. Og þetta á einmitt við í þessu frv. eins og öðrum frv. sem lúta að samgöngumálum.

Herra forseti. Mikill kostnaður fylgir stofnsetningu og starfsemi þessa gagnagrunns. Og hvar leggst hann á? Jú á leigubifreiðastjóra. Það er ekki ætlunin að stjórnvöld séu að liðka til eða skapa eða taka þátt í umgjörð þessarar mikilvægu þjónustustarfsemi. Nei, ætlunin er að leigubifreiðastjórar, hvort sem þeir hafa fulla atvinnu af þessu eða eru í hlutastarfi, beri þennan kostnað. Hvert eiga þeir síðan að leggja hann? Auðvitað út í verðlagið, hvert annað?

[22:15]

Það er mat 1. minni hluta að hægt sé að halda utan um þennan málaflokk á mun einfaldari og ódýrari hátt en frv. gerir ráð fyrir. Auk þessa telur 1. minni hluti að óeðlilegt sé að varpa öllum stjórnsýslukostnaði sem hlýst af starfsemi sem er þáttur í almannasamgöngukerfi landsmanna alfarið yfir á leigubifreiðastjóra. Ég ítreka það. Þetta er að mínu viti röng stefna. Leigubifreiðar og leigubifreiðaakstur er til fyrir fólkið í landinu. Það er til fyrir það fólk sem byggir þetta land. Það er ekki í sjálfu sér nauðsyn að vera með leigubifreiðastjóra ef ekki er til fólk. Þetta er almannaþjónusta sem ríkið á einmitt að skapa hina eðlilegu umgjörð og styrkja, búa henni þá umgjörð að hún geti verið starfrækt á sem hagkvæmastan hátt, á sem lægstu verði og á sem öruggastan hátt fyrir neytendurna óháð búsetu eins og kostur er.

Samkvæmt frv. eins og það var lagt fram --- sem reyndar hefur aðeins verið dregið úr með tillögu nefndarinnar --- en samkvæmt því skulu leigubifreiðastjórar greiða 13 þús. kr. árlegt gjald fyrir atvinnuleyfi sitt sem mig minnir að hafi í tillögu meiri hlutans verið lækkað niður í 10 þús. kr. sem er spor í rétta átt. Eigi að síður er þá gjaldtakan komin inn og þá er minna mál að hækka hana og hækka eftir því sem mönnum sýnist ár hvert enda rekur Sjálfstfl. markvisst gjaldtökusjónarmið, þetta endalausa miðstýrða gjaldtökusjónarmið, hér á þingi. Auk þess er gert ráð fyrir gjaldtöku vegna ýmissa umsýsluþátta í þessum málaflokki eins og rakið er í 12. gr. frv. Öll haldbær rök skortir fyrir þessum gjaldtökum og 1. minni hluti leggur því til að greinin sem lýtur að þessari gjaldtöku verði felld á brott. Hún er ekki í samræmi við þá skoðun og stefnu sem undirritaður hefur á þessum málum. Hann telur að þetta sé almannaþjónusta sem búa eigi umgjörð sem slíkri.

Ljóst er að samgrn. mun hafa nokkurn hag af því að færa þennan málaflokk til Vegagerðarinnar en hvergi kemur fram sá sparnaður sem verður þá í samgrn. við að þessi málaflokkur flyst þaðan, þessi erfiði málaflokkur sem talið er að hafi verið, og svo brýnt að færa út úr ráðuneytinu og inn í undirstofnun þess. Ekki er gert ráð fyrir að þar fylgi neinn sparnaður. Var enginn að sinna þessum málum þar eða er þetta bara að öllu leyti nýr umsýsluskattur? Eru þetta bara fullkomlega nýir skattar --- skattmann, skattmann, skattmann? Það verður því að gagnrýna að hvergi kemur fram hver sparnaður samgrn. verður við að þessi málaflokkur fer þaðan út. Það er reyndar fráleitt að vera að leggja það á borð með þeim hætti samtímis því sem krafist er gjaldtöku vegna þess að það kostar svo og svo mikið að færa þetta mál inn til Vegagerðarinnar. Það hefði þá a.m.k. átt að sýna einhvern lit þótt ekki væri nema 1.000 kr. --- af því að við erum að tala í svona ógurlega stórmerkilegum upphæðum í þessu máli --- sýna einhvern lit á því að einhver hefði verið að sinna þessu í samgrn.

Virðulegi forseti. Gjaldtaka sem þessi getur ekki farið neitt annað en út í verðlagið og því er í rauninni verið að auka skattheimtuna, það er verið að auka skattinn á þessa þjónustu, og því er 1. minni hluti andvígur. Opinber grunnumsýsla þessarar atvinnugreinar á að vera framlag ríkisins til þessarar þjónustu. Víða úti á landi er t.d. rekstrargrundvöllur leigubílaaksturs veikur en engu að síður er um mikilvæga samfélagsþjónustu að ræða. Flöt skattlagning þessarar þjónustu eins og frv. leggur til bitnar ekki síst með auknum þunga á þjónustu leigubíla á litlum stöðum þar sem gríðarlega mikilvægt er að þessi þjónusta sé til staðar. Öllum er ljóst að ekki er hægt að búast við því að hún geti verið fullt starf hjá viðkomandi en engu að síður er afar mikilvægt að þjónustan sé til staðar. Flöt skattlagning er afar ósanngjörn í þessu tilviki sem og öðrum.

Þá gerir 1. minni hluti athugasemd við síðari málslið 2. mgr. 2. gr. frv. þar sem kveðið er á um að Vegagerðin geti heimilað sérstakar útstöðvar frá gagnagrunninum á bifreiðastöðvum eða hjá bifreiðastjórafélögum til að afgreiða undanþágur samkvæmt 9. gr. frv. Það liggur ekki fyrir hvaða upplýsingar eiga að fara inn í þennan gagnagrunn en hins vegar á ótilteknum aðilum að vera heimilt að hafa aðgang að honum þar sem bæði getur verið um að ræða bifreiðastöðvar og sveitarfélög, og síðan er ekki ljóst heldur hvaða aðgang hinir mörgu eftirlitsaðilar hafa að þessum gagnagrunni, eftirlitsaðilarnir sem eru settir á eftir bifreiðastjórunum. Í umsögn Persónuverndar sem barst nefndinni á síðasta þingi um frv. segir eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Með ákvæðinu gæti Vegagerðin því veitt einstökum bifreiðastöðvum og bifreiðastjórafélögum tengingu við umrædda málaskrá sína um tölvunet. Að mati Persónuverndar skortir rök fyrir slíkri samtengingu og er þeirri spurningu ósvarað hvers vegna ekki sé hægt að veita viðkomandi bifreiðastöðvum upplýsingar um atvinnuleyfishafa á viðkomandi stöð með einfaldari og viðurhlutaminni hætti.``

Skylt er að geta þess að í áliti meiri hlutans er kveðið á um eða lagt er til í umsögninni þar að þegar ráðherra setur reglugerð um þetta skuli hann hafa samráð við Persónuvernd en í lögunum er engin trygging fyrir slíku samráði. Það verður að teljast í hæsta máta óviðunandi og ófullnægjandi, og vísa ég þar einmitt til umsagnar Persónuverndar, að þetta sé bara falið í vald ráðherra í reglugerð. Ráðherrann hefur frjálst val um það í reglugerðarsetningu að hve miklu leyti hann tekur mark á ábendingum Persónuverndar sem getur ekki gert annað og meira en gefið ábendingar þegar lögin sjálf eru jafnrúm og raun ber vitni varðandi þessa gagnagrunna.

Þess vegna, virðulegi forseti, telur 1. minni hluti að sjónarmið um friðhelgi einkalífs og persónuvernd eigi að ráða ferðinni og telur því að umrædd heimild Vegagerðarinnar til þessa gagnagrunns eins og hann er lagður fram í lögunum eigi ekki rétt á sér.

Að öllu þessu samanlögðu, herra forseti, telur 1. minni hluti að þrátt fyrir ýmsar breytingar sem meiri hlutinn leggur til og eru til batnaðar í frv. þurfi að vinna frv. betur áður en það verður afgreitt sem lög frá Alþingi. Það eru þarna atriði sem lúta að orlofs- og veikindarétti bílstjóranna. Það eru atriði sem lúta að því að það grunnsjónarmið verði í lögunum að þetta sé almannaþjónusta sem beri að treysta og tryggja og umgjörðin á að hvetja til þess að hún geti verið í boði sem víðast á landinu, á sem öruggastan hátt og á sem lægstu verði. Þennan tón finnst mér vanta í frv. Síðast en ekki síst er ég á móti því, og tel að endurskoða eigi, að þarna sé verið að skapa gagnagrunn með fjölbreyttum hætti til að verða bara enn einn miðstýrður skattstofn í þessari ofboðslegu miðstýringar- og skattheimtuáráttu sem við upplifum nú af hálfu ríkisstjórnarinnar þessa dagana. Þetta frv. er greinilega einn liður í því.