2001-12-14 00:07:45# 127. lþ. 54.6 fundur 167. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv. 134/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:07]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um leigubifreiðar. Hv. þm. Jón Bjarnason hefur gert grein fyrir sínu minnihlutaáliti fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs en hann er fulltrúi okkar í samgn. Ég vildi þó fara örfáum orðum um frv.

Eins og komið hefur fram er kannski meginbreytingin sú að stjórnsýslan er færð frá ráðuneyti til Vegagerðar. Ég er í sjálfu sér ekki mótfallinn því fyrirkomulagi að Vegagerðin annist daglega umsýslu með þessum málaflokki og tel að það geti verið gott mál, eins og sagt er, en ég velti fyrst og fremst fyrir mér hvernig slík umsýsla í höndum Vegagerðarinnar verður fjármögnuð.

Komið hefur fram í ræðum fleiri þingmanna hér að menn eru afar ósáttir við þessa miklu gjaldtöku. Það er talið að gjaldtakan af leigubílstjórum, sem eru í kringum 700 í landinu, geti vegna þessarar umsýslu Vegagerðarinnar orðið um tíu milljónir. Skoðun okkar hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði er að þjónusta eins og leigubílaþjónusta sé grunnalmenningsþjónusta sem ríkið eigi í raun og veru að niðurgreiða með því að þjóna greininni eins hagkvæmt og hægt er. Í raun og veru lítum við á leigubílaþjónustu í landinu á nákvæmlega sama hátt og við lítum á aðrar almenningssamgöngur, hvort sem það er strætó, flug eða sérleyfisleiðir. Þess vegna er okkur þessi gjaldtaka sem er sett fram upp á tíu milljónir afar mikið á móti skapi, og það er mat vísustu manna að bara þessi gjaldtaka kalli á 3% hækkun leigubílaaksturs.

Við erum andvíg þessu og teljum að hið opinbera eigi að styðja við þennan almenningsrekstur með því að veita atvinnugreininni þessa umsýsluþjónustu, eins og verið hefur af hálfu ráðuneytisins, og ekki að nota það tækifæri sem gefst núna þegar menn flytja umsýsluna, hina daglegu umsýslu yfir til Vegagerðarinnar, til að taka --- ja, verulegan toll af greininni því að annað verður ekki sagt. Bara þessi gagnagrunnur er talinn vera á bilinu sjö til níu milljónir króna þannig að hér er um verulegar upphæðir að ræða.

Varðandi stjórnunina, gagnagrunn og skipulag finnst manni líka mjög einkennilegt að um sé að ræða svo mikinn viðvarandi kostnað. Þetta þjónustugjald á að taka árlega. Það hefði verið skiljanlegt að ef menn vildu hafa einhvers konar miðlægan gagnagrunn til að geyma upplýsingar um þá sem veita þessa þjónustu hefði kannski fyrsta árið hlotist af því einhver kostnaður en síðan verulega minni næstu árin á eftir. En það er aldeilis ekki í sambandi við þetta frv.

Við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði leggjum, eins og ég segi, mikla áherslu á að þetta sé almenningsþjónusta og þess vegna getum við vel sætt okkur við --- það verður að viðurkenna það sem gott er í þessu frv. --- sérleyfi og stöðvarskyldu, og ég skal rekja af hverju. Hv. formaður samgn., Guðmundur Hallvarðsson, skýrði reyndar frá því að menn hefðu verið með alls konar æfingar í þessari grein í útlöndum og þá í frjálsræðisátt, eins og nú er mjög í tísku, en gallarnir urðu mjög miklir. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði sögu af sjálfum sér frá Svíþjóð en ég get í raun og veru sagt aðra tilsvarandi sögu frá Brussel þar sem ég þurfti að taka bíl og hinn opinberi bíll kostaði 1/7 af þeim óskráða bíl sem ég tók á götunni.

Þetta er mjög mikilvæg grunnþjónusta og það sem mér finnst nauðsynlegast við hana er að við komum ekki upp kerfi frjálsræðis sem leiði til þess að menn fari á svokallað ,,hark`` og taki bara vinnuna þegar toppurinn er. Eins og allir vita ryðjast menn unnvörpum um helgar út á götuna með leigubílaskírteini sín, veita okkur þjónustu föstudag, laugardag og sunnudag, og síðan verður erfiðleikum háð að fá þjónustuna í framhaldi af því.

Ég vil vitna í það sem ég þekki best, Leigubílastöð BSO á Akureyri sem hefur þetta sérleyfi með nokkrum bílum. Það er verið að tala um Árborg, það er verið að tala um Reykjavík og Keflavík og það er sem sagt líka stöð á Akureyri og stöðvarnar hafa gríðarlega mikla þjónustuskyldu. Almenningur metur þessa þjónustuskyldu og hún er innbyggð í stöðvarkerfið. Þannig getur sá sem á heima á Akureyri, svo ég taki sem dæmi og allir vita að þetta er tilsvarandi á hinum stöðvunum, alltaf verið viss um að geta hringt á leigubílastöð hvenær sem er sólarhringsins og innan fárra mínútna fær viðkomandi leigubílaþjónustu. Þetta er afar mikilvæg þjónusta og hún er veitt af svona stöð sem hefur sérleyfi vegna þess að það er tekin ákvörðun um að þar skuli vera sólarhringsvakt.

Þetta er mjög mikilvægt líka upp á alla þjónustu við okkar aðra stærstu atvinnugrein sem er túrisminn því að menn verða að geta treyst því að hvenær sem er, hvað dag sem er, geti þeir fengið þessa þjónustu.

Þetta eru meginmál og þetta er meginástæðan fyrir því að menn vilja fara í svokölluð sérleyfi eða einkaleyfi til rekstrar með vissum skilyrðum. Við gagnrýnum slíkt ekki og það verður að viðurkennast að miðað við það sem menn hafa sagt í þessum dúr hér á hinu háa Alþingi, margir hv. þm., hafa menn viljað gera tilraunir í frjálsræðisátt sem að mínu mati mundu leiða til algjörrar upplausnar í þjónustunni. Við erum alls ekki bara að tala um leigubílstjórana sjálfa og þeirra réttindamál. Það er skylda okkar að búa þannig um hnútana að þessi þjónusta sé góð og örugg og það er einmitt öryggisþátturinn sem fólk leggur svo mikið upp úr. Fólk vill geta kallað á leigubíl, sent heim barnapíuna o.s.frv. Það er búið að fara í gegnum þetta allt saman og ég tel það mjög mikilvægt.

[24:15]

Ég tel að við Íslendingar höfum gert mistök með æfingum okkar í frjálsræðis- eða samkeppnisátt á sviðum þar sem samkeppni gat ekki þrifist og var dæmd til þess að mistakast. Ég vil bara nefna til sögunnar að við settum samkeppnina í gang á flugleiðum innan lands. Það leiddi til þess að á örfáum missirum átu bæði flugfélögin, sem stóðu í hörðustu samkeppninni, upp sitt eigið fé. Afleiðingin varð sú að annað hætti rekstri og hitt á í mjög miklum rekstrarerfiðleikum og niðurstaðan er gríðarlega hátt miðaverð hjá því flugfélagi sem eftir er. Á litlum markaði í stóru landi er vel réttlætanlegt að menn séu með sérleyfi af þessu tagi. Þess vegna styð ég það.

Það sem við gagnrýnum og getum ekki sætt okkur við er í stuttu máli, eins og ég hef rakið, allt of miklar gjaldtökur á greinina. Það verður að laga þó að ég geri mér grein fyrir því að það verði ekki lagað núna. Það er óásættanlegt að með nýju fyrirkomulagi þurfi gjaldtaka að hækka um milljónir króna, það sem áður var gert í ráðuneytinu, þó að það fari til Vegagerðar ríkisins. Við værum tilbúnir að niðurgreiða eða láta Vegagerðina hafa mótframlag til að sjá um þessa þjónustu á fjárlögum ríkisins vegna þess að við lítum á þetta sem grunnþjónustu og almenningssamgöngukerfi.

Við setjum líka, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar þegar hann mælti fyrir 1. minnihlutaáliti, spurningarmerki við nauðsynina á þessum fullkomna, miðlæga gagnagrunni enda þótt gefa eigi möguleika á því að hafa útstöðvar, sem er í mínum huga algjörlega nauðsynlegt ef það verður útfallið, að menn vilji fara þá leið. Þá tek ég sem dæmi heimabæ minn að það mundi vera til mikils hagræðis. Ef menn ætla að fara þessa leið, sem mér sýnist að verði ofan á, verður auðvitað til hagsbóta fyrir þá að geta fengið þessa þjónustu með útstöð á staðnum. Það er engum vafa undirorpið.

Virðulegi forseti. Miðað við þetta allt, sérleyfin, stöðvarskylduna, er málið mikilvægt upp á allt öryggi. Þetta er líka mikilvægt hvað ástand bíla varðar og möguleika manna til þess að veita toppþjónustu.

Ég held að ég geti í grófum dráttum verið á jákvæðu nótunum gagnvart þessu frv. þó með þessum fyrirvörum sem ég árétta einu sinni enn: Allt of há gjaldtaka og spurningarmerki varðandi þennan miðlæga gagnagrunn.