2001-12-14 00:19:27# 127. lþ. 54.12 fundur 227. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv. 137/2001, Frsm. SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:19]

Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. menntmn. um frv. til kvikmyndalaga.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti til að ræða efni frv. Enn fremur bárust nefndinni fjölmargar umsagnir sem komu að góðu gagni við umfjöllun málsins.

Nýjum kvikmyndalögum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um kvikmyndamál, nr. 94/1984. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar á stjórnsýslulegri framkvæmd ríkisins á kvikmyndamálum. Helstu breytingar eru þær að lagt er til að tvær stofnanir sinni þeim verkefnum sem nú heyra undir Kvikmyndasjóð Íslands. Lagt er til að stofnuð verði Kvikmyndamiðstöð Íslands er hafi með höndum verkefni sambærileg þeim sem Kvikmyndasjóður Íslands hefur sinnt fyrir utan rekstur Kvikmyndasafns Íslands. Nafnið Kvikmyndasjóður verður notað áfram um úthlutunarsjóð er starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar til framleiðslu eða dreifingar íslenskra kvikmynda. Kvikmyndasafn Íslands sem nú heyrir undir Kvikmyndasjóð verður sjálfstæð stofnun. Lagt er til að stofnað verði kvikmyndaráð opinberum aðilum til ráðgjafar um aðgerðir í kvikmyndamálum og breytt er ákvæðum um fyrirkomulag úthlutunar framlaga til kvikmyndagerðar. Ástæða þess er sú að nauðsynlegt þykir að skapa stjórnvöldum meira svigrúm en nú er til að setja úthlutunarreglur um framlög úr Kvikmyndasjóði og bregðast þannig við breytilegum þörfum kvikmyndagerðar án þess að komi til lagabreytinga í hvert sinn. Þá er veitt heimild fyrir markaðsnefnd sem gegni því hlutverki að auka atvinnu við kvikmyndagerð hér á landi.

Í 7. gr. frumvarpsins kemur fram að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands tekur endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda svo sem kveðið er á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs. Það er því ljóst að þótt ábyrgð á úthlutunarmálum hvíli á forstöðumanninum er hann alls ekki einráður í þessum efnum, samanber einnig nákvæma útlistun í greininni á þeim atriðum sem nánar verður kveðið á um í reglugerð.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helst þeirra er breyting á 7. gr. sem varðar uppsetningu ákvæðisins og orðalag. Orðalagsbreyting sú sem lögð er til varðandi ákvörðun um úthlutun úr Kvikmyndasjóði er gerð til að taka af allan vafa um að þótt ljóst sé að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar beri ábyrgð á úthlutunarmálum sé hann alls ekki einráður í þeim efnum. Eins og fram kemur í 7. gr. tekur forstöðumaðurinn endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda, svo sem kveðið er á um í reglugerð sem menntamálaráðherra setur að fenginni umsögn kvikmyndaráðs.

Aðrar breytingar eru veigaminni og skýra sig sjálfar.

Herra forseti. Hér er um framfaramál að ræða sem fyrst og fremst er ætlað að skýra stjórnsýslulega framkvæmd opinberra aðila og efla íslenska kvikmyndamenningu. Ágæt sátt er um málið í hv. menntmn. og stendur nefndin einróma að áliti sínu, en hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir skrifar undir nál. með fyrirvara.