2001-12-14 00:23:36# 127. lþ. 54.12 fundur 227. mál: #A kvikmyndalög# (heildarlög) frv. 137/2001, KolH
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:23]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hv. frsm., Sigríðar Önnu Þórðardóttur, formanns menntmn., rita ég undir nál. þetta með fyrirvara og lýtur fyrirvari minn fyrst og fremst að nafnbreytingu Kvikmyndasjóðs.

Kvikmyndasjóður hefur komið nafni sínu það vel á framfæri, ekki síst á erlendum vettvangi, að segja má að nafnið og merki sjóðsins sé afskaplega vel kynnt. Þess vegna sér maður það í hendi sér að þegar sjóðurinn þarf að fara að huga að því að markaðssetja nýtt nafn og um leið eðlilega nýtt merki, mögulega nýtt ,,lay-out``, eins og það heitir, á bréfsefnum og slíku, er sjóðurinn settur í ákveðinn vanda. Á þennan vanda hafa forustumenn Kvikmyndasjóðs Íslands bent og segja í umsögn til nefndarinnar að nafnbreytingin sé vafasöm. Það er alveg greinilegt af umsögn þeirra að þeir hafa efasemdir um að rétt sé að breyta nafninu.

Ég tek undir þær efasemdir, herra forseti, og tel ekki rétt að löggjafarvaldið taki þannig ráðin af stofnunum sem hafa mjög mikil tengsl á erlendum vettvangi og við erlenda aðila og eiga kannski allt sitt undir því að þau tengsl séu sterk og trúverðug. Þá finnst mér algjörlega einboðið að löggjafarsamkoman hlusti á röksemdafærslu viðkomandi stofnunar og breyti ekki nafni hennar þvert ofan í vilja þeirra manna sem þar ráða ríkjum og lagt hafa grunn að og byggt upp markaði okkar á erlendri grundu algerlega frá upphafspunkti. Það starf sem þar hefur verið unnið jafnast á við grettistak og mér þykir skjóta skökku við verði löggjafarsamkoman ekki við þeim óskum stofnunarinnar að nafnið verði látið í friði.

Mig langar til að vitna örstutt í umsögn frá Kvikmyndasjóði Íslands sem send var nefndinni, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Nafn Kvikmyndasjóðs Íslands hefur verið fest í sessi hér heima með ágætum árangri þannig að allir sem þurfa að hafa samskipti við stofnunina vita hvert þeir eiga að leita. Enda þótt starfsemin sé fjölbreytt og miðist ekki eingöngu við að veita fé úr sjóði er ekki hægt að segja að það sé rangnefni né að það valdi nokkrum misskilningi. Þvert á móti er hætt við að nafnbreyting nú gæti valdið misskilningi hjá ýmsum aðilum.``

Ég tel, herra forseti, að þetta sjónarmið beri að virða og leggst því gegn þessari nafnbreytingu á sjóðnum.

Hinn fyrirvari minn lýtur að 7. gr. frv. þar sem fjallað er um forstöðumann Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Þar er talað um að hann taki ,,endanlega ákvörðun um veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði til undirbúnings, framleiðslu og/eða dreifingar íslenskra kvikmynda``. Þetta er orðalagið í frv., herra forseti. Nefndin hefur komið sér saman um ákveðna orðalagsbreytingu á þessari grein, skorið hana upp og gert hana til muna skýrari. Ég er afar hlynnt þeirri breytingu, herra forseti, en vil engu að síður að fram komi að ég tel mikilvægt að hér sé ákveðinni hugsun haldið til haga, þ.e. þeirri hugsun að þó að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar eigi samkvæmt þessum lögum að bera endanlega ábyrgð á veitingu fjárstuðnings úr Kvikmyndasjóði þá sé hann ekki endilega sá eini sem kemur að því máli. Þess vegna tel ég afar mikilvægt að halda vel til haga því orðalagi sem nefndin hefur komið sér saman um þegar fjallað er um hlutverk þessa forstöðumanns.

Ég tel mikilvægt, herra forseti, að forstöðumaður Kvikmyndasjóðs eða Kvikmyndamiðstöðvar, eins og hún kemur að öllum líkindum til með að heita, njóti víðtæks trúnaðar í greininni. Það er mikilvægt að þeir sem starfa innan greinarinnar geti litið á forstöðumann stofnunarinnar sem málsvara sinn, hvort sem þeir hafa fengið úthlutun til kvikmyndagerðar þetta árið eða ekki. Það hefur verið aðal framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs, vil ég meina, hingað til að geta verið fullkominn trúnaðarmaður allra þeirra sem í greininni starfa, kannski vegna þess að hann hefur ekki borið ábyrgð á fjárúthlutununum.

Með því að fylgja því orðalagi sem nefndin hefur lagt hér til í brtt., að málið sé hugsað þannig að forstöðumaðurinn sé einungis endanlega ábyrgur fyrir fjárúthlutununum, erum við að gefa þeim möguleika byr undir báða vængi að í reglugerð, sem væntanlega verður viðamikil í tengslum við þessi lög, verði heimilt að aðrir beri ábyrgð á fjárúthlutununum þó að forstöðumaðurinn samþykki að lokum úthlutanir og taki þannig hina endanlegu ábyrgð.

Herra forseti. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að fullkominn trúnaður ríki milli forstöðumannsins og þeirra sem í greininni starfa hvort sem þeir hafa hlotið styrk til kvikmyndagerðar þetta árið eða ekki.

Að öðru leyti en því sem ég hef hér gert grein fyrir þá styð ég þetta frv. og vona sannarlega að það eigi eftir að reynast kvikmyndagerðinni öflugur málsvari og bandamaður.