2001-12-14 00:57:05# 127. lþ. 54.7 fundur 282. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (gjald fyrir rekstrarleyfi) frv. 153/2001, Frsm. meiri hluta GHall
[prenta uppsett í dálka] 54. fundur, 127. lþ.

[24:57]

Frsm. meiri hluta samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Herra forseti. Á þskj. 534 er nál. frá meiri hluta samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Með frv. er lögð til hækkun á gjaldi fyrir almennt rekstrarleyfi til að stunda fólksflutninga. Gjaldtökuákvæðum laganna er ætlað að standa straum af kostnaði sem hlýst af útgáfu leyfa, eftirliti og námskeiðahaldi samkvæmt lögunum. Til að svo megi vera verður upphæð gjalda að taka mið af kostnaði sem hlýst af veittri þjónustu Vegagerðarinnar. Samkvæmt kostnaðarútreikningum sem nefndinni bárust frá samgrn. er sú hækkun sem lögð er til í frv. í samræmi við raunkostnað af útgáfu rekstrarleyfa til að stunda fólksflutninga.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frv. Í fyrsta lagi er lagt til að árlegt gjald fyrir rekstrarleyfi verði óbreytt frá því sem er í núgildandi lögum en í stað þess hækki árlegt gjald sem greitt er þegar bifreið er færð til skoðunar úr 1.000 kr. í 1.400 kr. Með þessu er gætt jafnræðis milli þeirra sem hafa margar bifreiðar í rekstri og einyrkja og þeirra sem hafa fáar bifreiðar. Þá leggur meiri hlutinn til að Vegagerðinni verði heimilt að veita leyfi til aksturs skólabifreiða þótt bifreiðin taki færri en níu farþega en þessar bifreiðar mundu að óbreyttum lögum falla undir lög um leigubifreiðar sem er óheppilegt miðað við það hlutverk sem þær hafa.

Meiri hlutinn leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr.