Girðingarlög

Föstudaginn 14. desember 2001, kl. 15:50:35 (3387)

2001-12-14 15:50:35# 127. lþ. 56.12 fundur 180. mál: #A girðingarlög# (heildarlög) frv. 135/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 56. fundur, 127. lþ.

[15:50]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er greinilegt að ég og hv. þm. Drífa Hjartardóttir höfum algjörlega andstæða skoðun á þessu. Ég tel að þeir sem búið hafa lengi í sveitum eigi þar ákveðinn rétt, og hann eigi skýlaust að verja.

Þær breytingar sem smátt og smátt eru að verða á þjóðfélagi okkar munu verða þrátt fyrir að réttur þeirra sem lengi hafa búið í sveitum sé varinn. Það er greinilegt hvert stefnir á þessu landi þar sem fækkar í hinum dreifðu byggðum og þéttbýlisbúarnir koma inn og eignast stóran hluta jarðanna. Ég held að þær breytingar verði ekki stöðvaðar, því miður, vegna þess hvernig atvinnumálum í landinu er stefnt.

Og ég verð að segja að ég skil ekki alveg afstöðu hv. þm. Drífu Hjartardóttur í þessu máli, að hún skuli ekki geta fallist á að það sé eðlilegt að veita þeim sem búið hafa lengi við ógirt land, án þess að það hafi valdið neinum skaða, betri réttarstöðu en þeim er fengin.