Ferill 66. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 290  —  66. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur um bið eftir heyrnartækjum.

     1.      Hve langur biðtími er eftir heyrnarmælingu annars vegar og heyrnartækjum hins vegar? Hve mikið þurfa notendur þjónustunnar að greiða fyrir hana hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og hve mikið hjá einkaaðila?
    Í byrjun október sl. var u.þ.b. þriggja mánaða bið eftir heyrnarmælingu og læknisskoðun. Ef viðkomandi þarf á heyrnartæki að halda er u.þ.b. eins árs bið í viðbót eftir tæki. Taka verður skýrt fram að börn eru ekki látin bíða eftir þjónustu, hvorki heyrnarmælingum né heyrnartækjum. Á Heyrnar- og talmeinastöðinni (HTÍ) er unnið eftir gjaldskrá sem er í stuttu máli eftirfarandi:
Almennt gjald 1.700 kr.
Öryrkjar og ellilífeyrisþegar 0 kr.
Börn, fyrsta koma eingöngu 1.700 kr.
    Varðandi sölu heyrnartækja greiða kaupendur tækjanna milli 0% og 40% af heildarverði. Börn undir 18 ára aldri greiða ekkert. Skjólstæðingur sem fær eitt heyrnartæki greiðir 40% en ef keypt eru tvö tæki greiðir hann 30%. Ef um verulega heyrnarskerðingu er að ræða greiðir skjólstæðingurinn 20%. Meðalgreiðsla á árinu 2000 var um 30%. Kostnaður við tækin er nokkuð mismunandi eftir tegund og styrkleika. Á síðustu árum hafa komið á markaðinn ný stafræn tæki eða „digital“ í stað eldri, svokallaðra hliðrænna heyrnartækja eða „analog“ og er notkun hliðrænu tækjanna að dragast verulega saman.
    Hér að neðan eru nokkur dæmi um verð á heyrnartækjum frá HTÍ eins og það var í lok október sl.
Greiðsluþátttaka skjólstæðinga
Tegund tækis Innkaupsverð 40% 30% 20%
CIC Videx, stafrænt 55.000 22.000 16.500 11.000
Class B, hliðrænt 49.700 19.880 14.910 9.940
– með símaspólu 55.600 22.240 16.680 11.120
Piccalo KA, hliðrænt 30.800 12.320 9.240 6.160

     Að auki greiðir skjólstæðingurinn komugjald, 1.700 kr., og ábyrgðargjald á tæki, 800 kr., og er þá miðað við eina komu fyrir heyrnarmælingu og læknisskoðun. Kostnað við hlustastykki og rafhlöður greiðir skjólstæðingurinn einnig en þessi kostnaður er breytilegur eftir tegundum.
    Hjá einkaaðila, sem hóf rekstur nú í sumar, kosta tækin frá 82.000–165.000 kr. stykkið. Kaupi viðskiptavinir tvö tæki fá þeir 5% afslátt. Þannig greiða menn oft á bilinu 150.000– 310.000 kr. Ekki er um að ræða sérstakt gjald fyrir greiningu og mælingu, og ekki heldur fyrir endurkomur. Þá er ekki krafist greiðslu fyrir slíka þjónustu þótt ekki sé keypt tæki.

     2.      Hve mikið fjármagn hefur ríkisvaldið veitt árlega sl. fimm ár til heyrnarmælinga annars vegar og heyrnartækja hins vegar og hver hefur verið árleg fjölgun þeirra sem á þessari þjónustu þurfa að halda? Hvað má áætla að það kosti að tæma biðlistana?
    Ekki liggja fyrir sérstakar upplýsingar um fjárveitingar til heyrnarmælinga. Fjöldi þeirra sem hafa komið í heyrnarmælingar á HTÍ á árunum 1997–2001 hefur verið skoðaður og er samkvæmt því eftirfarandi:

Einstaklingar í heyrnarmælingar
1997 2964
1998 2924
1999 2640
2000 2549
2001 1819 (9 mánuðir)

Fjárveitingar til tækjakaupa HTÍ

Ár Fjárlög
1997 44.100
1998 45.600
1999 55.500
2000 65.200
2001 53.800
    
    Eins og fram kemur í svari við 3. lið hér á eftir eru nú rúmlega 1.000 einstaklingar á biðlista sem bíða eftir um 1.700 tækjum að innkaupsverði um 70 millj. kr. Kostnaður við afgreiðslu tækjanna hjá HTÍ er áætlaður um 10 millj. kr. sem er vegna aukins launakostnaðar samfara skoðun, mælingu og afgreiðslu. Er þá miðað við að afgreiðsla á ofangreindum 1.700 tækjum dreifist á eitt ár.
    Greiðsluþátttaka skjólstæðinga vegna þessara 1.700 heyrnartækja er áætluð 20 millj. kr. þannig að kostnaðurinn við að eyða núverandi biðlista er um 60 millj. kr.
    Til að koma í veg fyrir að biðlistar myndist í framtíðinni þarf til viðbótar því sem að framan greinir að koma til aukið rekstrarfé vegna:

1. aukins hluts ríkisins í heyrnartækjakaupum til að sinna árlegri eftirspurn (hækkun rekstrargrunns) 30 millj. kr.
2. aukinnar starfsemi HTÍ (hækkun rekstrargrunns) 15 millj. kr.

    Fyrir utan ofangreind atriði sem tengjast því að stytta biðlistann þarf að bæta þjónustustig stofnunarinnar með því að auka þjónustuna við landsbyggðina, endurnýja upplýsingakerfin og bæta aðstöðuna almennt.

     3.      Hve margir, börn og fullorðnir, bíða eftir fyrrgreindri þjónustu og hvernig hefur biðlistinn breyst á sl. þremur árum?
    Ekki er aðgangur að tölulegum upplýsingum um biðlista fyrri ára nema eftir því sem þær finnast í gömlum skýrslum og greinargerðum. Verið er að vinna að undirbúningi þess að fá nýtt tölvu- og upplýsingakerfi á HTÍ, þar sem gert er ráð fyrir að greiður aðgangur verði að öllum tölulegum upplýsingum um starfsemi stöðvarinnar.
    1. október 2001 voru 1.017 einstaklingar á biðlista eftir heyrnartækjum hjá HTÍ, meiri hluti bíður eftir tækjum í bæði eyru. Tæki fyrir þennan hóp kosta um 70 millj. kr. eins og fram kemur í svari við 2. lið hér að framan. Einnig er nauðsynlegt að taka með í reikninginn verðlags- og gengisbreytingar og það að í framtíðinni munu stafræn (digital) heyrnartæki leysa hliðræn (analog) heyrnartæki meira og minna af hólmi en stafræn tæki eru almennt heldur dýrari en hliðræn tæki.
    Ekki er aðgangur að upplýsingum um aldur þeirra sem bíða á biðlistum. Hins vegar má sjá að á árunum 1997–2001 var aldur þeirra sem sóttu þjónustu á HTÍ eftirfarandi:
1997 1998 1999 2000 2001 (níu mánuðir)
Heildarfjöldi 9.929 10.708 10.708 11.261 7.532
0–18 ára 14% 13% 14% 15% 14%
67 ára og eldri 58% 59% 59% 60% 59%

     4.      Hvaða áhrif hefur langur biðtími eftir heyrnartækjum á þroskaferil barna, félagslegt umhverfi og skólagöngu, þ.m.t. leikskóla?
    Ætíð hefur verið lögð á það áhersla að heyrnarskert börn þurfi aldrei að bíða eftir heyrnartækjum á Íslandi og hefur það tekist. Þau fá heyrnartæki strax og heyrnarskerðing uppgötvast. Bið hefur því miður verið nokkur eftir öðrum hjálpartækjum, s.s. tónmöskvum, vekjaraklukkum o.fl. Ekki eru fyrirliggjandi rannsóknir á áhrifum þess að biðlisti er eftir fyrrgreindum hjálpartækjum.
    Samkvæmt upplýsingum frá fagfólki má reikna með að fái börn ekki heyrnartæki þegar heyrnarskerðing liggur fyrir hafi það alvarleg áhrif á almennan málþroska, s.s. orðaforða, setningamyndun og hlustun. Skertur málþroski hefur síðan hamlandi áhrif á skólagöngu þar sem æ erfiðara verður að skilja námsefnið eftir því sem ofar dregur.
    Heyrnarskertir eiga að jafnaði erfitt með að meðtaka samræður í hóp. Hætta er á einangrun heyrnarskertu barnanna og að félagslegur þroski verði heftur. Heyrnarskert börn geta misst mikilvægar upplýsingar úr kennslunni. Brottfall heyrnarskertra úr framhaldsskólum hefur lengi verið áhyggjuefni.

     5.      Hvaða áhrif hefur langur biðtími eftir heyrnartækjum á félagslegt umhverfi og atvinnumöguleika fullorðinna?
    Ekki er vitað til að gerðar hafi verið sérstakar rannsóknir á þessu atriði hér á landi og er því ekkert vitað með vissu um þessi áhrif. Rannsóknir á þessu sviði eru væntanlega til erlendis, þar sem bið er víða lengri en hér, en niðurstöður slíkra rannsókna fundust ekki innan tímaramma. Hins vegar benda starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands á að heyrnarskerðing getur valdið fullorðnu fólki einangrun og óöryggi. Fólk hefur misst vinnu vegna þess að það heyrði ekki í síma á vinnustað eða átti erfitt með að halda uppi samræðum í þjónustustörfum. Þessir einstaklingar fara síður á fjölmenn mannamót, veigra sér við að svara í síma og heyra jafnvel ekki síma- eða bjölluhringingu. Því er hætta á félagslegri einangrun. Þetta ræðst að sjálfsögðu m.a. af því hve lengi einstaklingar þurfa að bíða, og er því stefnt að styttingu biðlistanna.

     6.      Hvaða áform og áætlanir eru uppi um að stytta biðlista og hvernig réttlætir ráðherra langa bið eftir heyrnarmælingum og heyrnartækjum?
    Af hálfu Heyrnar- og talmeinastöðvar Íslands hefur verið skoðað hvaða leiðir væru færar til að stytta biðlistann sem allra fyrst. Tæki eru pöntuð erlendis frá og frá því að ákvörðun liggur fyrir um pöntun ákveðinna tækja geta liðið allt að fjórar vikur þar til tækin berast til HTÍ. Eftirfarandi leiðir eru taldar vænlegar til árangurs:
     *      Frá 1. september 2001 hefur verið skipulögð eftirvinna við sölu/úthlutun heyrnartækja tvo daga í viku. Á þessum tíma eru tveir heyrnarfræðingar starfandi við ráðgjöf og sölu heyrnartækja, einn starfsmaður í móttöku og einn á verkstæði fyrir hlustarmót. Í september sl. var þannig hægt að selja 228 heyrnartæki alls sem eru 20% af heildarsölu ársins, en fyrstu níu mánuði ársins voru alls seld 1.130 tæki.
     *      Fyrirhugað er á næstunni að taka til gagngerrar endurskoðunar skráningar- og móttökukerfi skjólstæðinga HTÍ og reyna að koma að fleiri skjólstæðingum á hverjum degi. Ef hægt væri að breyta vinnuferli þannig að að meðaltali væri tveimur fleiri sinnt á hverjum degi sem væru að bíða eftir heyrnartækjum og tveimur fleiri í heyrnarmælingum, mundu yfir 400 einstaklingar í viðbót fá heyrnartæki á ári og sömuleiðis yfir 400 einstaklingar í viðbót fá heyrnarmælingu og læknisskoðun. Þessar aðgerðir ná einungis fram að ganga ef aldrei þarf að bíða eftir fjármagni fyrir tækjum og tækjapantanir gætu farið í fastari farveg.
     *      Endurskoða má sumarleyfi starfsfólks, hugsanlega með því að loka stöðinni í 2–3 vikur næsta sumar þegar flestir eru hvort sem er frá vegna sumarleyfa og bjóða eingöngu upp á neyðarþjónustu. Sumrin eru afar ódrjúg, þar sem starfið byggist mikið á teymisvinnu og um leið og einhver úr teyminu er í fríi verður teymið afkastalítið. Þannig mætti stytta ódrjúga tímann.
     *      Efla þarf verulega læknisþjónustuna, þannig að alltaf sé læknir til staðar. Einnig þarf að fjölga heyrnarfræðingum og talmeinafræðingum.
    Á haustþingi var lagt fram frumvarp til laga um þjónustu við heyrnarskerta og heyrnarlausa og þá sem þjást af talmeinum. Margt af því sem hér er fjallað um kemur þar til endurskoðunar. Aðstæður þessa hóps notenda heilbrigðisþjónustunnar breytast verulega nái frumvarpið fram að ganga.
    Eins og komið hefur fram hér að framan getur bið eftir heyrnartækjum haft veruleg áhrif á lífsgæði fólks. Því þarf á hverjum tíma að leita leiða til að biðtími sé eins stuttur og nokkur kostur er. Þær aðgerðir sem hér hafa verið nefndar eru dæmi um slíkar leiðir.